Greyhawk - Norðið

Á eftir Hundrax Hálfmanni
Fyrsta sendiförin

Dagur reis kaldur og grár í Admundsvirki. Einhvers staðar gelti hundur og var fljótlega sagt að þegja. Eftir því sem birtan jókst fóru sífellt fleiri á ferli innan borgarmúranna. Ungur dökkhærður drengur hljóp á milli nokkurra húsa og bar skilaboð til nokkurra vel valinna aðila. Ekki leið á löngu þar til hann hafði lokið erindi sínu og sneri aftur til Feryons þursabana og tjáði rekkanum að þeir sem hann lét senda eftir myndu koma innan skamms. Hann fann koparmynt í leðurpyngju sem hékk í belti hans og kastaði henni til drengsins.

Eftir nokkra stund voru allir meðlimir flokks Feryons samankomnir við búðirnar. Af útliti þeirra að dæma var mislangt síðan þeir höfðu farið á fætur. Perille var enn að nudda stírur úr augum, T‘Sial enn móð eftir dansæfingu morgunsins og virtist bjarnarhúnninn Aruum sá eini sem var eins og hann átti að sér að vera. Þau söfnuðust saman fyrir miðjum garðinum, en ekkert þeirra virtist vita um hvað var að vera. Á meðan þau biðu þess að Feryon segði þeim hvað væri í gangi, ræddu þau saman í hálfum hljóðum um það sem hafði drifið á daga þeirra frá því að árásin á virkið var gerð. Úa rak þá augun í dökkklædda rauðhærða konu sem sat á hækjum sér við vegg þar skammt frá. Hún var leðurklædd og hékk stuttsverð í slíðri í belti hennar. Konan fylgdist grannt með flokknum.

„Hver er þetta?“ spurði Úa Luiz og benti á konuna.

Áður en hann náði að svara, hóf Feryon upp rödd sína.

„Góðan dag,“ sagði hann og leit yfir hópinn. „Við höfum fengið fyrsta verkefnið okkar.“ Hann þagnaði og lagaði strenginn á boganum sem hékk um öxl hans. Feryon þursabani bar nafn með rentu og af honum fór það orð að vera bæði sérlega illa við orka og þursa og eins einstaklega laginn við að fella slíkar verur. Örvamælir hans var fullur og við fætur hans var útroðinn bakpoki. Augun voru einbeitt og ekki fór á milli mála að alvaran var nú að taka við. „Við vorum að fá fregnir af því að hópur Jebli orka hefði setið fyrir herflokki okkar. Því miður höfum við ekkert heyrt frá flokknum og við óttumst hið versta. Sérstaklega þar sem Sadra liðsforingi fór fyrir flokknum. Sú fregn hefur auk þess heldur borist okkur að Hundrax hálfmaður hafi farið fyrir orkahópnum. “

T‘Sial og Perilla gripu báðar andann á lofti. Úa gerði slíkt hið sama skömmu síðar. Augu Aurums kviku til Úu og björninn dæsti.

Ástæðan fyrir viðbrögðum kvennanna var einföld. Jebli orkar voru þekktir fyrir að myrða karlkyns andstæðinga sína með grimmilegum hætti en konur nutu ekki slíkra gæða af þeirra hálfu. Þeirra biðu hvers kyns pyntingar, afskræmingar og aðrar pínslir. Líklega væru Sadra og konurnar í flokknum hennar enn á lífi en þeirra biðu hræðileg örlög, nema þeim yrði bjargað. Hundrax hálfmaður var auk þess þekktur vígaorki, grimmur og harðskeyttur.

„Við þurfum að finna hvar fyrirsátin fór fram og rekja slóð orkanna, með það fyrir augum að bjarga þeim sem enn eru að lífi,“ sagði Feryon alvarlegur á svip. „Gerið ykkur klár, við höldum héðan ekki síðar en um hádegisbil. Ég bíð ykkar við borgarhliðin með hesta.“

„En er skynsamlegt við förum? Ég meina, það vita allir hvernig Jebli fara með konur og við konur eru nú meirihluta í flokknum okkar,“ spurði T‘sial og leit á Perille, síðan á Úu sem brosti sínu breiðasta.

„Það er vissulega áhætta, en yfirmenn okkar eru tilbúnir að taka hana,“ svara Feryon. „Fleiri spurningar?“ Hann beið í örfá augnablik án þess að nokkur tæki til máls. „Fínt. Þá sjáumst við um hádegisbilið í borgarhliðunum.“

*

Eftir að flokkurinn hafði verslað lækningaseyði sem og eitur, svona ef í harðbakkann slægi, komu þau saman við borgarhliðin, þar sem Feryon beið þeirra með hesta. Um leið og T‘Sial sá hrossin var sem hún hefði séð draug, því hún varð skyndilega hljóð og vildi ekki koma nær klárunum.

„Megum við snerta hestana?“ spurði hún hljóð.

Luiz leit á hana, undrandi á svip.

Úa sem var í óða önn að losa hnakkinn af hestinum sínum, sneri sér að henni og var í þann mund að fara svara T‘Sial, þegar Perilla sagði:

„Já, ertu hrædd við hesta? Því ég get alveg teymt hestinn undir þér.“

T‘Sial hristi höfuðið.

„Nei, hrædd, nei, ekki hrædd,“ svaraði hún og færði sig varlega nær hrossinu. Eftir nokkrar tilraunir tókst henni loks að koma sér fyrir í hnakkinum.

„Eru þið að verða klár?“ spurði Feryon og sneri sér við í hnakknum. Augu hans leituðu yfir hópinn. „Við megum engan tíma missa.“ Hann flautaði hvellt. Fálki sem sat á mæni húss þar skammt frá svaraði og hóf sig til flugs. „Af stað, flokkur, af stað.“

Við það reið hann út um borgarhliðið og flokkurinn fylgdi í kjölfarið. Það var fyrst þá sem Úa tók eftir að rauðhærða konan sem hafði verið í garði búðanna var þarna með þeim. Úa rak hestinn sinn inn í lestina og Aurum skokkaði við hlið hennar.

„Það er eitthvað við þessa konu, Aurum,“ hvíslaði Úa á máli drúíða til bjarnarins. „Ég held að þú ættir að fylgjast vel með henni.“ Björninn svaraði engu en stökk hins vegar af stað á eftir gráleitu fiðrildi, sem honum tókst ekki að fanga þrátt fyrir margar heiðarlegar tilraunir.

Þau höfðu ekki riðið lengi þegar Aurum stóð skyndilega upp á afturfæturna og þefaði í allar áttir. Skyndilega tók hann á rás. Úa stökk af baki og elti húninn, þar til hún fann hann á kafi í drullupolli.

„Góð hugmynd, Aurum,“ sagði Úa og klappaði saman höndum. Hún lagðist á magann og renndi sér ofan í pollinn við hlið Aurums. Hún makaði leðju á hendur, andlit og í hár sitt, um leið og björninn velti sér upp úr pollinum.

Hinir meðlimir flokksins höfðu stoppað og fylgdust gáttuð með aðförunum. Þegar Úa varð þeirra vör stóð hún á fætur.

„Ykkur er velkomið að bera á ykkur líka,“ sagði hún glaðlega.

„Nei, takk, sama og þegið,“ svaraði Luiz og skellti upp úr. „Hvað ertu að spá?“

„Ég verð að minnsta kosti ekki bitin af flugum, en þið ráðið sjálf,“ sagði Úa og kom aftur upp á slóðann og settist aftur á bak.

„Það er svo flott á þér hárið svona,“ sagði T‘Sial, skaut augum að Perille og glotti.

„Er það? Takk,“ svaraði Úa og brosti innilega. Hún starði um stund á T‘Sial með aðdáun í augum.

„Mér finnst þú ógeðsleg,“ sagði rauðhærða konan ískaldri röddu um leið og hún reið framhjá Úu.

Úa urraði að henni. Síðan sneri hún sér að Aurum, sem sat enn brosandi út að eyrum í drullupollinum, brúnt vatn lak úr munnvikum hans.

„Hvað sagði ég? Áttir þú ekki að fylgjast með henni?“ spurði Úa og sneri upp á sig, um leið og hún rak hælana í lindar hestsins. 

Þegar hún var komin nokkuð á leið, dæsti Aurum og hristi sig. Hann leit til Luizar með órætt blik í augum en trítlaði svo af stað á eftir drúíðanum.

Feryon rak hópinn aftur af stað. Þau riðu það sem eftir lifði dags og þegar sól tók að setjast var ákveðið að slá upp búðum, enda ekki viturlegt að eltast við flokk orka í myrkri. Vöktum var skipt milli allra og eftir kvöldmat leið ekki á löngu þar til að hrotur tóku að berast frá búðunum, enda allir þreyttir eftir langan dag.

*

Næsti dagur átti eftir að reynast langur og afdrifaríkur. Eftir að flokkurinn hafði snætt fremur kaldan og ólystugan morgunverð var rætt hver næstu skref ættu að vera. Skammt undan var skóglendi þar sem orkarnir voru taldir halda sig og því betra að fara að öllu með gát. Sýndist sitt hverjum en Feryon hafði lokaorðið og ákvað að þau skyldu ríða lengra en hann ætlaði að senda fálkann sinn á undan hópnum, til að kanna hvort eitthvað sæist til orkanna. Þau voru þó ansi stirð eftir reiðtúr gærdagsins og flest áttu því erfitt með að finna góða stellingu í hnakknum, enda verkjaði þeim nærri um allan líkama.

Þau riðu af stað undir gráum, þungbúnum himni. Þó var veður stillt og Úa dró þá ályktun að líklega gæti ýmis gert þoku eða rignt á þau. Hún gekk vandlega frá svefnsteininum sínum í bakpokann sinn áður en þau héldu aftur af stað og áminnti Aurum um að fylgjast vel með rauðhærðu konunni.

Eftir nokkra stund sneri fálkinn aftur með blóðuga brjóstnælu.

„Fyrsta vísbendingin,“ sagði Feryon og rétti Perillu næluna, sem síðan lét hana ganga áfram. Feryon skipaði fálkanum að leiða þau þangað sem hann hafði fundið næluna. Þar fundu þau rústir vagns og augljós merki um átök. Eftir stutta rannsókn uppgötvaði flokkurinn að líklega hefðu orkar setið fyrir þeim sem voru með vagninn og af ummerkjum að dæma var ljóst að einhverjir höfðu verið dregnir á brott, inn í skógarþykknið skammt frá.

Áður en hópurinn náði að ákveða hvað ætti næst til bragðs að taka, réðst þurs fram úr skógarþykkninu. Nokkur kastspjót flugu einnig innan úr skóginum og hæfði eitt þeirra rauðhærðu konuna í öxlina, en hún hafði reynt að fela sig fyrir aftan vagninn. Feryon hrópaði samstundis skipanir til flokksins, sem reyndi að bregðast við fyrirsátinni.

Á meðan Feryon, Luiz, Perille og T‘Sial börðust við þursinn fór Úa að rauðhærðu konunni og gerði að sárum hennar. Hún makaði leðju í andlit konunnar og dró tákn fjalls í drulluna.

„Ó, Faðir fjallsins, lít með velþóknun á þetta barn þitt,“ bað hún um leið og hún reyndi að opna flösku með lækningaseyði, en gekk illa að losa tappann. Aurum missti þolinmæðina og beit tappann af. Úa hellti þá innihaldinu upp í rauðhærðu konuna. Sárið sem kastspjótið hafði skilið eftir sig lokaðist og rauðhærða konan opnaði augun.

Í þann mund tókst Feryon að fella þursinn, svo T‘Sial og Luiz gátu einbeitt sér að orkunum. T‘Sial kom dansandi framhjá Úu, rauðhærðu konunni og Perille, sem hafði slegist í hóp þeirra í skjóli fyrir aftan vagninn. T‘Sial lagði með langspjótinu sínu til orks sem var skammt frá þeim. Rauðhærða konan tók upp boga og skaut að orkanum, sem hafði dregið fram flösku. Örin small í flöskunni, svo hún sprakk. Flaskan innihélt eld alkemista, og kviknaði því samstundis í orkanum.

Úa ákvað að leika eftir T‘Sial og tók nokkur lítt æfð dansspor með spjótið sitt. Dansinn gekk ekki betur en svo að henni skrikaði fótur og þurfti að kasta spjótinu sínu, en það flaug víðs fjarri orkanum. Aurum hristi höfuðið og dæsti.

Feryon, með hjálp hinna hetjanna, tókst að fella einn ork og T‘Sial sá um þann sem logaði. Þau heyrðu hvar sá sem eftir lifði hljópst á brott.

Eftir að þau höfðu kastað mæðinni og drukkið nokkur lækningaseyði héldu þau förinni áfram. Þegar þau höfðu gengið nokkra stund og fylgt slóð orkans sem flúði komu þau að búðum orkanna, en þær samanstóðu af þremur tjöldum og einum bjálkakofa.

Rauðhærða konan, sem hafði loksins sagt hinum að hún héti Sonja, læddist nær ásamt Feryon og þau sáu að tveir orkar skemmtu sér við að pynta mann í búri milli tveggja tjalda. Þá voru tveir aðrir orkar á vakt og sinnti annar þeirra skyldu sinni ekki betur en svo, að hann lá sofandi fyrir framan eitt tjaldið.

Hópurinn læddist nær.

„Dragið fram vopn,“ hvíslaði Feryon. „Við ráðumst að þeim handan við bjálkakofann.“ Hann læddist nær og hópurinn fylgdi í kjölfarið.

Úa sá að aðstæður voru þannig að orkarnir gætu þannig umkringt þau og dró sig aðeins frá hópnum. Hún gróf hendurnar í jarðveginn í rjóðrinu þar sem búðirnar voru og hvíslaði nokkur orð á máli drúíða. Um leið óx grasið og vafðist um annan orkinn í búrinu.

Aurum fylgdi í humátt á eftir Úu en virkaði hálffúll yfir því að fá ekki að taka þátt í árás hinna á búðirnar.

Feryon leiddi hópinn gegn orkunum. Hann skaut nokkrum örvum að orkanum á vakt. Sonja hjó til hunds sem gætti bjálkakofans og Luiz drakk eitt af sérkennilegu seyðunum sínum. Perille fylgdi hópnum og sendi sýruskeyti í hundinn, um leið og T‘Sial dansaði með langspjótið sitt um vígvöllinn.

Úa hljóp að bakhlið bjálkakofans.

„Er einhver þarna?“ hrópaði hún og bankaði á bjálkana.

„Já, ég er hér. Færðu mér sverð og hleyptu mér út,“ svaraði ákveðin kvenmannsrödd.

Í þann mund barst mikið og ógurlegt öskur úr einu tjaldanna.

„Það er Hundrax,“ hvæsti Feryon milli samanbitinna tanna um leið og tjaldinu var svipt upp. Þar stóð hrikalegur vígamaður, vopnaður stórri öxi. Hann grýtti þrumustein í miðjan hóp Feryons, um leið og steinvalan lenti kvað við mikill hvellur. Sonja og T‘Sial gripu fyrir eyrun og heyrðu lítið annað en suð. Öðrum tókst að skýla sér undan galdrahvellinum.

Hundrax stökk inn í miðjan hópinn og hjó til Feryons. Hetjurnar lögðu hver á fætur annarri til Hundraxar. Luiz, sem var orðinn að heljarmenni fyrir sakir bruggs síns, reyndi að ýta Feryon til hliðar svo hann kæmist að óvininum. T‘Sial lagði til Hundrax með landspjótinu og Perille sendi sýruskeyti í hann, enda hafði Hundrax séð við feitiálögum hennar.

Eftir stutta en harða orrustu tókst hetjunum að fella Hundrax. Sadra liðsforingi þakkaði þeim fyrir björgunina og hið sama gerði maðurinn sem orkarnir voru að pynta í búrinu.

„Hver ert þú?“ spurði Feryon manninn.

„Ég heiti Radan Mort, prestur í reglu Hextors,“ svaraði Radan um leið og hann klæddi sig í svarta brynju.

„Ertu úr Admundsvirki?“ spurði Perille.

„Nei, ég kem frá Alhaster, en þar er ekki lengur vært að vera, enda staðurinn á hraði leið til helvítis,“ svaraði Radan og hrækti.

Aurum urraði og sneri sér undan Radan. Björninn gekk á brott og Úa fylgdi fordæmi hans.

Á meðan þau gengu aftur sem leið lá í gegnum skóginn og þangað sem hestarnir biðu þeirra ræddi Úa við björninn.

„Veistu, þau eru ekki alveg sem verst, þetta fólk. Fyrir utan þessu Sonju. Hún er ábyggilega með stein í rassinum.“

Björninn hnussaði og leit upp til drúíðans.

„Kannski verður þetta ekki svo slæmt, að koma úr fjöllunum. Sérstaklega ef við fáum af og til að yfirgefa virkið. Miklu betra að vera svona úti. Sofa á góðum steini við logandi eld. Ekki inni á gömlu og illa lyktandi grasi. Hugsaðu þér, sum þeirra sofa jafnvel undir eins konar húð. Geturðu ímyndað þér það? Hversu óþægilegt hlýtur það að vera. Af hverju ætli þau leggi þetta á sig? Og tókstu eftir, þau reyndu ekki einu sinni að verja sig fyrir flugunum?“

Úa hélt áfram að ræða við björninn á leiðinni í búðirnar, meðan hún hélt að enginn heyrði til þeirra. Aurum virtist hætta að gefa einræðu hennar gaum.

*

Næsta dag sneru þau aftur til Admundsvirkis, reynslunni ríkari. Eftir að þau höfðu fylgt Radan og Södru í búðirnar og gefið skýrslu til yfirmanna sinna kom hópurinn saman fyrir framan búðirnar. Eftir stuttar samræður sagði T‘Sial:

„Ef þið hafið enn ekki komið ykkur upp samastað, þá er ykkur velkomið að gera ykkur heimakomin hjá mér. Það er nóg pláss í húsinu sem ég fann.“

Úa klappaði saman höndum og brosti út að eyrum.

„Já, en gaman. Ég ætla að sækja steininn minn eins og skot.“

Hún hljóp í áttina að görðunum. Aurum drúpti höfði og andvarpaði. Síðan tölti hann á eftir drúíðanum.

View
Fyrstu dagarnir í Admundsvirki
Perille kemur sér fyrir

Ekki vitandi hvert annað hún ætti að fara eftir að orustan um Admundsvirki var unnin rataði Perille aftur í varðstöðina sem hún hafði tekið með sveitinni sem hún hafði verið send inn með og hreyðraði um sig þar. Daunninn af orkunum lá yfir allri varðstöðinni en Perille leið eins og hún væri dregin þangað aftur. Þó hún sé að Tehnískum aðalsætum og alin upp í lystisemdum þá hafa ferðalög síðustu ára kennt henni að komast af án hluta sem hún áður taldi sjálfsagða. Hún lét sér nægja illa lyktandi tjald til að breyða úr teppi og ábreiðu og kveikti upp eld í köldu eldstæði þar fyrir utan til hita og eldamensku.

Þegar nóttin sótti á hóf Perilla að ráfa um varðstöðina og gramsa í eigum orkana, mest var fúllt og illa viðhaldið, teppin rök og illa lyktandi, búnaðurinn ryðgaður og slitinn og myglaðar mataleyfar í pottum en allt átti það sameiginlegt að Perille hafði engann áhuga á því. Í einu horniunu var rekki undir berum himni sem dro athyggli hennar, þar héngu í böndum afhoggnar líkamsleifar mennskra vera ásamt kjöti af dýrum sem Periille kunni ekki skil á, fætur, hendur og innyfli, við nánari skoðun komst Perille að þeirri niðurstöðu að þetta væri matarbúr orkanna þar sem sumir líkamspartarnir voru greinilega makaðir með einhvjerjum jurtum og þetta hékk þarna til þerris. Nöguð og brotin bein úr mannlegum verum í bland við dýrabein studdu líka þessa kenningu. Perille gekk á milli þessara líkamsparta og skoðaði gaumgæfilega eins og dáleidd þar til hún sá fíngerða hendi, þornaða, með hring á baugfingri hangandi aftarlega á rekkanum. Hringurinn var grannt, silfurgert band með laufmynstri og einhverri áletran á tungumáli sem Perrille skildi ekki, en eftir að hafa starað á þetta í dágóða stund og velt fyrir sér afdrifum og sögu eiganda handarinnar dró hún fram hníf, skar hendina lausa og stakk henni inn á sig.

<meta />

Rjúkandi rústir og hrúgur af dauðum orkum og hádríslum stráðu göturnar fyrsta daginn eftir að herinn tók aftur Admunds virki. Perille ráfaði hljóðlát um göturnar og fylgdist með fólki vinna, lík voru dregin út úr húsum, hlaðið í stafla og brend, eldar voru slökktir í húsum og fólk hreynsaði út úr húsum. Fólkið sem Perille fylgdist með gekk ákveðið til verka, talandi sín á milli, en yfirbragðið á þeim var alvarlegt. Þegar hún sá að hún hafði dregið að sér athyggli snéri hún sér undan og héllt annað. Hún hafði ekki áhuga á samskiptum, en dauðinn sem fólkið vann við að hreynsa út úr virkinu heillaði hana.

Á einhverjum tímapunkti fann hún sig stadda á staðnum þar sem dverg konan, Úa, hafði fallið og nánast dáið í bardaganum um virkið. Hún stóð þar lengi og velti fyrir sér atburðarás bardagans, hvernig orkurinn hafði slegið hana niður, hvernig blóð hennar hafði flætt yfir steinana í götunni og hversu reið hún hafði verið orkinum sem sló hana niður, og hugsandi til þess fann hún að hún var ennþá reið orkinum þó hann væri nú dauður. Þessi reiði vakti hana til umhugsunar. Dauði var ekki eithvað sem var nýtt fyrir henni, hún hafði séð hann margoft í leit sinni að upplýsingum um Ur-Flan seyðskrattana og hún hafði séð hann heima í Tehn undir ofríki þeirra sem hersátu heimalandið en það var langt síðan hann hafði vakið hjá henni slíkar tilfinningar. Perille var ekki viss um að henni líkaði þessi tilfinning, kannski ætti hún að halda sig til hlés frá sveitinni.

Þegar rútína fór að kræla á sér í virkinu gaf Perille sig fram við Somnablis, sem lærður galdramaður hjálpar hún honum að halda utanum skruddur og skjöl, að flokka þau og finna ef upplýsinga úr þeim er þörf. Þar starfar hún með þeim Somnablis og Andreu þó hún hafi sín eigin markmið þar, en hún leitar en upplýsinga um Ur-Flan og grunar að einhverra vísbendinga gæti verið að finna í skruddunum hans Somnablis sem hún nýttir hvert tækifæri til að lesa úr.

Ásamt því að gefa sig fram við Somnablis þá hafði Perille líka fyrir því að klæða sig upp, setja um skart og smeigja hringnum með skjaldamerki fjölskyldu sinna á fingur sér áður en hún fór á fund Pelloriu Gellor. Hún kynnti sig fyrir henni með fullu nafni ættar, lands og borgar og var þægilega brugðið þegar hún fékk móttökur sem hæfðu tign hennar. Eftir að vera boðið til setu og veitinga áttu þær langt spjall um stöðu heimsmála sem leiddi af sér fliss yfir vínsopa og slúðri um sameiginlega vini og kunningja. Þó Perille hefði gengið í burtu frá lystisemdum fyrra lífs til að kynna sér forboðna þekkingu þá var það notarlegt að fá smjörþef af fyrri lífi og endurtóku þær þessa fundi all oft. Hvort vinátta sé tekin með þeim eða hvort önnur sé bara að umbera hina til að ná einhverju fram er erfitt að segja.

View
Luiz Grell í Admundsvirki

Luiz Grell hafði ekki búist við því að finnast stríð svona skemmtilegt. Hann hafði búist við því að finnast það áhugavert, en ekki skemmtilegt. Hann hélt hann yrði feginn eftir bardagann en hann varð bara eirðalaus, ráfandi um admundsvirki í leit að einhverju áhugaverðu.


 Somnablis var mjög áhugaverður náungi, fljúgandi og varpandi sprengjum í bardaganum. Það væri kannski áhugavert að spjalla við hann. Luiz rölti núna um virkið með meiri tilgang, þegar hann sá hálfálf sitja uppi á þaki og gat ekki sleppt því að rannsaka það frekar.
Þetta var fulltrúi launamorðingjaklíku Abbarra og með henni var annar fulltrúi sem var að brugga! Hann var að brugga! Dougal var að brugga, selja og fræða fólk um eitur og Luiz var hæstánægður að finna brugg aðstöðu og sameiginlegt áhugamál, eða svona næstum sama áhugamál. 
Dougal ákvað að leyfa Luiz að nota brugg aðstöðu sína með því skilyrði að Luiz hjálpi honum að búa til eitur. Dougal gat með þessu móti einbeitt sér meira að því að selja eitrið, eða einhverju öðru og Luiz fann sér eitthvað að gera. Hann hafði ekki mikinn áhuga á því að búa til eitur en það gæti verið mjög gott að læra að gera móteitur. Verst að það er erfitt að vita hvort móteitur virkar án þess að prófa það. 


Það væri kannski sniðugt að reyna að læra af græðurunum í virkinu, Margir særðust í bardaganum en græðararnir virtust mjög færir. Kannski er einhver hæfur alkemist græðari á svæðinu sem væri til í að kenna honum.
Luiz fann Doru Litharen, alkemist, drúid og stjórnanda græðara. Hún var mjög hjálpsöm en upptekin og gat ekki talað né kennt honum lengi í einu. Hann fór á hverjum degi til hennar í leit að vitneskju um lyf og læknisfræði, og í hvert sinn labbaði hann framhjá þeim sem slösuðust í bardaganum, hann skoðaði þá slösuðu mikið og leitaði að ummerkjum eiturs. Ef einn þeirra væri veikur eða slasaður vegna eiturs gæti hann prófað mótefnin sín. Hann fann engan í dag.
Kannski á morgun.

View
Snælduhús Elíu
Fataverslun og Saumastofa

(Með fyrirvara um samþykki GMs)
Almennt:
Húsið sem T'Sial tók traustataki eftir að bærinn var hernuminn er í furðu góðu ásigkomulagi að utan. Og þó svo flest sem kalla mætti fémætt hafi verið fjarlægt, annaðhvort af upprunanlegum eigendum á flótta, eða orkum eða öðrum eftir að þau fóru, þá er merkilega mikið af fatnaði og saumadóti í lagi. 

Það er á tveimur megin hæðum, og það er niðurgrafinn kjallari. Að auki er lítið háaloft undir súð. Húsið er grannt en djúpt, hægra megin er þröngt húsasund, og stór vatns-safntunna undir þakrennu. Fyrir framan er skemmtilega litríkt viðarskilti sem á stendur 'Elia og Snældurnar', en það hefur fengið í sig töluvert af örvum og eina öxi, og jafnframt hefur verið skrapað af þannig að á annarri hliðinni stendur 'Elia og æl urnar'

Verslunin:

Útidyrnar eru úr þéttum við og upp hefur verið komið slagbrandi sem virðist ekki hluti af upprunanlegu uppstillingunni. Það er stór gluggi með rimlum sem þekur afganginn af framveggnum, og í gegnum hann má sjá útstillingargínur, en glerið hefur verið brotið. Einhver hefur þó byggt klaufalega hrákasmíð til að loka vindinn úti og þétt það með efnisströngum úr búðinni.

S1 er útstillingasvæði þar sem einfalt úrval af hversdagsfatnaði og saumavörum hefur einhvern tíma verið til sýnis, því hefur mestu verið hrúgað upp að einum veggnum, og á viðargólfinu er löngu þornaður blettur af dökku blóði, ásamt förum sem eru of dauf til að sjá hvert hafi legið. Þar er afgreiðsluborð með opnum og löngu tómum peningakistli, og undir afgreiðsluborðinu er (opinn) hleri sem einhver hefur tæmt, en það eina sem er þar eru bækur með bókhaldi verslunarinnar og frekar ógeðslegt uppþornað auga, sem virðist hafa verið úr manneskju. Það er Furðu mikið eftir af fötum og efni sem er ekki sérstaklega verðmætt, enda ekki þess eðlis að orkarnir hafi haft sérstakan áhuga á að hirða það.

S2 er vinnusvæði með nokkrum saumaborðum, þar eru snagar, þræðir og efnisstrangar og á gólfin eitthvað glingur eins og hnappar og nælur, en ekkert sem er sérstaklega litríkt eða fémætt.

S3 er baksvæði með öðru vinnuborði og hillum og kössum, þar sem í er að finna það sem eftir er af hráefni til fatavinnslu. Þar er stigi sem liggur upp, og undir honum annar og brattari sem liggur niður í kjallarann.

(Úr þessum svæðum sé ég fyrir mér að mætti safna saman í nokkur mismunandi fatasett, kannski í mesta lagi 1-2 þeirra eitthvað áberandi fallegt sökum skemmda og gripdeilda, það mætti líka safna í verkfærasett til klæðasaums (jafnvel masterwork ef maður leitaði vel og vissi hverju þyrfti að leita að, sem T'Sial kann þó ekki), og sennilega eitthvað af non-fancy hráefni í meiri saumaskap).

Kjallarinn:

Í kjallaranum er allt á rúi og stúi, þar eru tómar hillur sem einhvern tíma hafa geymt matarbirgðir, og raunar er enn örlítið eftir af þurrkuðu kjöti, krukkum af einhverju sem gætu verið sultur, og pokum af frekar illa skemmdum kartöflum. En það er ekki mikið. Þarna er líka frekar nýlegt lík af karlkyns orka sem blætt hefur út á gólfinu. Þetta er samt svæði sem hefur verið í rusli frá því áður en eigendur búðarinnar flúðu. Innst inni eru tvö herbergi, annað er fullt af skinnum og feldum af dýrum, flest þeirra mygluð, sennilega hefur átt að vinna þau frekar en ekki orðið úr því. Í hinu herberginu er lítið og fátæklegt rúm, undir litlum glugga. Þar eru nokkur fábrotin leikföng og föt sem gætu hafa tilheyrt dreng í kringum 8 ára. Hurðin er læst utanfrá með digri slá, og glugginn mattur. 

(Fyrir utan matinn fyrir þá sem eru desperate, og kannski skinnin, er ekkert nothæft þarna niðri, en mætti e.t.v. nota plássið í eitthvað)

Íbúðin:

 

A1 er eldhús og setustofa, þar er í horninu eldstæði undir reykháf, og matarborð ásamt nokkrum stólum. Þrátt fyrir að vera á rúi og stúi er samt ennþá einhver frekar heimilislegur andi yfir þessu rými. Í norðurhlutanum er hleri sem liggur upp á háaloftið.

A2 er svefnherbergi þar sem einhvern tíma hefur búið stúlka á táningsaldri, rúmið ber þess þó merki að eitthvað skelfilegt hafi gerst, þar sem það er brotið og gegnsósa af þornuðu blóði. Það er ýmislegt af smálegu dóti og fötum ennþá á víð og dreif um herbergið, eins og eftir annaðhvort slagsmál eða mjög örvæntingarfulla leit.

A3 er geymsla, þar er verkfærasett sem í vantar öll helstu verkfæri, en áður hefur það sennilega verið notað til viðhalds á húsinu. Þar er brotinn kústur, tuskur og skrúbbar, og stórt stykki af grófri sápu.

A4 er hjónaherbergi, með mjög fínu og góðu rúmi sem virðist þó hafa þolað ýmislegt, en er þó ennþá í lagi ef skipt er á því. Þarna eru tveir fataskápar, báðir tilheyra konum, en þær virðast hafa haft mjög mismunandi smekk. Þarna er líka saumavinnuborð, pappír og litir, en strigi og trönur sem voru þarna hafa verið mölvuð. Á rúminu liggja föt sem virðast hafa tilheyrt orka, mögulega kvenkyns, og þar er líka brotin steinöxi. Þarna hefur eitthvað gengið á, en engin lík eru sjáanleg. Þarna er líka snyrtiborð og vaskaskál.


(þarna er eitthvað prjál, hægt að safna saman í eldunargræjur í eldhúsinu og eitthvað af fötum úr herbergjunum, en ekkert sem væri fémætt nema með töluverðri vinnu, einhverjar matarbirgðir í eldhúsinu, en flestar virðast hafa komið frá orkum eða öðrum úr setuliðinu og er ekki kræsilegt)

Háaloftið
Uppi undir ráfri eru nokkur gömul koffort og kassar, en allt mjög rykfallið. Þarna er að finna eins og lítið virki úr gömlum teppum og skáp, þar er lík af ungum mennskum dreng, en hann hefur væntanlega falið sig þarna og á endanum dáið úr hungri. Á háaloftinu er líka hleri sem leiðir upp á þakið.

View
Orkar Norðursins

Orkar eru hin stóra ógn í Norðrinu. Þeir eru sterkir, miskunnarlausir og það er alþekkt að þeir berjist fram yfir þau mörk sem myndu fella aðra. Þeir fjölga sér gríðarlega hratt þar sem þeir lifa stutt og eignast mörg afkvæmi í einu – það er fullkomlega eðlilegt að orkakona beri fjórbura tvisvar á ári. Þeir eru kjötætur og hafa veiðieðli.

Þó hafa þeir ýmsar takmarkanir. Þeir eru andlega veikburða samanborið við aðrar mannlegar verur, eiga erfitt með að tileinka sér nýja hluti og tækni og eiga almennt afar erfit með töfranotkun.

Það er afar hættulegt að vanmeta þá. Hópur orka myndi ávallt sigra jafngildan hóp manna í hefðbundnum bardaga þar sem högg þeirra eru afar þung og í samanburði er afar erfitt að fella þá.

Tungumál þeirra er hart og einkennist af lokhljóðum og löngum sérhljóðum. Allt hljómar eins og ógnun og flest er það. Það er frekar erfitt fyrir flesta aðra að tala málið en það er fremur einfalt að læra að skilja það. Nokkrir frasar eru þess eðlis að allir kunna þá, sérstaklega viðskeitið-'tar sem er skeytt aftan við nöfn öflugra orka. Merking þess er erfið fyrir aðra en gróflega mætti segja að það sé blanda af 'drápari' og 'sigurvegari', enda er það nokkurn veginn það sama í augum orka. Sá sem hefur hlotið þennan titil er sérlega varasamur því þarf að vinna sér inn þessa viðbót.

Þegar talað er um orka Norðursins er yfirleitt talað um eftirfarandi ættflokka. Fleiri eru til og innan hvers ættflokks eru fjöldi minni hópa eða brota.

 

Kelbit: Kelbit flokkurinn er langfjölmennastur allra ættflokka Flanaess. Því ætti það ekki að koma á óvart að hugmyndir flestra um orka mótast af þeim. Þeir álíta sig vera hina útvöldu þjóð Iuzar og eru algjörlega hliðhollir Hinum Gamla. Þeir áttuðu sig fyrir löngu á kostum þess að blanda kyni og fyrir vikið eru bæði orogar og hálf-orkar algengari meðal þeirra en hinna ættflokkanna. Kelbit orkar fara stundum í ránsferðir til þess að ræna mannakonum sem þurfa að upplifa gríðarlegan hrylling eftir. Þeir þykja ívið hugaðri en aðrir orkar og eru líklegri til að berjast til síðasta blóðdropa en aðrir.

 

Urzun: Urzun orkar eru sterkari en gengur og gerist og dýrslegri í hegðun. Þeir þykja líka minni greindir. Þeir eru algengastir í kringum Ýlfurhæðir. Þeir hafa mikið dálæti á að brjóta bein og nota því barefli fram yfir önnur vopn. Þeir skera sig til að mynda ör og mála hvítar höfuðkúpur á andlit sín þegar þeir ætla sér að berjast. Þeir tilbiðja ekki allir Hinn Gamla - töluvert margir þeir tilbiðja sérstaklega dauðagoðið Yurtrus og klerkar hans eru gjarnir á að nota hina lifandi dauðu í bardögum. Hálf-orkar eru sjaldgæfir meðal Urzun orka, þeir hafa aldrei deilt löndum með mönnum og eru líklegri til að éta fanga en þvínga þá til undaneldis.

 

Jebli: Jebli orkar eru aðallega í og umhverfis Vesve skóg. Meðal þeirra finnast bestu bogmenn orka og spjótið er einkennisvopn þeirra. Þeir eru líklegri til að ráðast úr launsátri og ferðast laumulega en aðrir orkar. Þeir þykja minna hugaðir en margir aðrir orkar en það er varasamt að treysta á það, heigulskapur þeirra birtist gerir þá lævísa. Þeir hafa unun af að eyðileggja hluti og uppáhald þeirra er að pína og afskræma fórnarlömb sín. Það eru heilmiklar innbyrðis erjur meðal Jebli orka sem stundum hafa verið nýttar gegn þeim. Hlutfall blendinga er frekar lágt meðal þeirra.

 

Kazgund: Kazgund orkar eru greindari en aðrir orkar og að miklu leiti frábrugðnir frændum sínum. Til að mynda byggja þeir hús og báta og eru einu orkarnir sem er vitað til að sigli. Þeir búa til og nota gildrur og virðast almennt skipulagðari en aðrir orkar. Þeir eru engu minna grimmir hins vegar og ræna fólki til þrælkunar og undaneldis. Þeir eru nokkuð drambsamir og töluvert margir þeirra nota einkenni eða sambærilegan búnað til að merkja flokk sinn.

 

Uroz: Uroz ættflokkurinn, eða svartorkar, finnast aðallega í Hornlöndunum. Það er sagt að engir orkar séu sterkari. Þeir eru auðþekktir því húð þeirra er mun dekkri en annarra orka, svo dökkgræn að hún er nærri svört. Það er ekki út af engu sem þeir þykja hættulegastir allra orka – þeir eru afar grimmir og flýja aldrei. Þeir þurfa að berjast. Þegar þeir hafa enga andstæðinga leita þeir þá uppi og það hefur valdið miklum vandræðum í herjum Iuzar. Þeir eiga efitt með að hemja sig og ráðast oft á hádrýsla Hornlandanna sem þeir þurfa að deila landi með. Leiðtogar þeirra þurfa að vera sérlega af sér til að lifa lengur en nokkra mánuði.

 

Eiger: Eiger ættflokkurinn er lítill en skiptir töluverðu máli. Þeir dvelja í Hamarhæðum og hafa algjörlega hafnað Iuzi og tilbiðja sín fornu goð. Þeir gjörþekkja hinar stórgrýttu hæðir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur aldrei tekist að buga þá.

 

Dazark: Dazark ættflokkurinn er ekki fjölmennur en skiptir töluverðu máli. Þeir finnast í Fellreev skógi og eru í raun hirðingjar. Þeir fyrirlíta Uroz orka og reyna ávallt að drepa þá en forðast aðra nema þeir geti örugglega bugað þá. Þeir eru afar sérstakir í útliti, þeir klæðast eingöngu feldum, húð þeirra er dökk og grænbrún (afar gagnlegur felulitur) og þeir bera feiti í hár sitt sem þeir hnýta í langa og þykka fléttu. Þeir er afar færir að lifa af landinu og frekar trúræknir. Luthic er mikið tilbeðin meðal þeirra sem gæti skýrt hví konur þeirra hafa mun stærri sess en hjá nánast öllum öðrum orkum. Þeir kunna að nota umhverfið og jurtir skógarins. Loks hafa þeir eina sérstöðu - þeir rækta og temja skepnur sem kallast losel. Enginn veit hvort þessar furðuverur voru skapaðar af óðum töfranotanda eða eru hluti af undarlegri náttúru Arðar en þeir líkjast blendingum orka og bavíana.

View
Úa og Aurum
Dagur í görðunum

Aurum rak á eftir Úu, sem gekk eftir stórri breiðgötu í átt að görðunum. Björninn andvarpaði þegar Úa staldraði við bás þar sem áður hafði mátt finna ýmsan varning ættaðan frá fjalllendinu í Ratik. Hún beygði sig niður og tók upp silfurslegna leirskál, skreytta kubbslegum rúnum. Skálin var brotin og Úa leitaði að brotunum í ruslinu við básinn, en án árangurs. Aurum hristi höfuðið og settist. Þessi ganga eftir götunni hafði þegar tekið lengri tíma en hann hefði kosið og sú athygli sem hann vakti þarna á miðju strætinu fór í taugarnar á honum. 

"Sjáðu þetta, Aurum," sagði Úa. Rödd hennar var gróf en orðin ómþýð, næstum eins og þegar vindur leikur um stórar laufkrónur trjánna í neðri hlíðum Rakers fjalla. Hún rétti skálina að birninum. "Ég held að ég hafi séð svona dót áður. Manstu eftir flökkumanninum sem við fundum við hvíta fallvatnið? Hann var með svona. Hann jós vatni upp í sig með þessu. Ég held að hann hafi ekki kunnað að lepja vatn eins og á að gera."

Aurum skildi hrafl í máli drúíða en gólin og gjammið í mannfólkinu voru honum framandi. Hann hallaði undir flatt og rak trýnið síðan að skálinni. Hún angaði af berjum, kvenmannshöndum og ýrviðarrót. Björninn sleikti brúnina á skálinni. Bragðið var þungt og brann á tungunni. Svartber. Allir birnir í Ratik þekktu svartber og að þau bæri að forðast, enda einstaklega bragðvond og slæm í maga. Einhver hafði sett saman ýrviðarrót og svartber í skálinni. Aurum leit hugsi á Úu, sem enn hélt á skálinni. 

"Eigum við að halda áfram?" spurði hún og stakk skálinni ofan í pyngjuna sína. "Drífum okkur í garðana, ég held að okkar sé vænst þar." Úa rölti af stað.

Aurum sat enn um stund og leyfði bragðinu af berjunum liggja á tungunni. Hann hafði illan bifur á svartberjum og enn verra þótti honum að vita af því að einhver væri að nýta þau í einhverjar blöndur. Að lokum stóð hann á fætur og elti Úu. 

- – -

Þau settust í garðinum og nutu þess að vera innan um tré og blóm. Úu fannst óþægilegt að vera í þéttbýlinu og hún saknaði fjalllendis Ratik, hvar hún þekkti söng vindsins og vissi hvar var bestu hellana að finna. Hún beygði sig og tók upp litla steinvölu og velti henni milli handa sér. Hún naut þess að finna hvernig blábergið nam við fingurgóma hennar, hún fann mýktina í steininum, þrautseigjuna og þolinmæðina. Hún lagði völuna að vanganum og ímyndaði sér að hún lægi í helli heima, að hún fyndi hægan andardrátt fjallsins og Aurum hrjóta við hlið sér. Hún lokaði augum og gat næstum heyrt hroturnar í birninum. Hún andvarpaði, hve gott það væri að vera aftur heima, en ekki umkringd öllu þessu sérkennilega og ókunna fólki. Hún opnaði augun á ný og sá hvar Aurum lá við fætur sína og hraut. 

"Svona, vaknaðu, bjáninn þinn," sagði hún og skellti upp úr. Hún ýtti við Aurum með fætinum og strauk yfir kollinn á honum. Björninn opnaði augun og leit upp til hennar. "Komdu nú, við skulum finna þessa konu sem bíður eftir okkur."

Úa stakk steinvölunni í vasann, ákveðin í að setja hana í grjóthrúguna sem hún hafði hlaðið inni í litla herberginu þeirra Aurums og hún svaf á. Hún hafði valið hvern stein vandlega og látið sig engu skipta þó að einhver maður í málmbúningi hafi hótað henni öllu illu fyrir að hirða stein upp úr götuhleðslunni. Það var sérlega góður steinn. 

Aurum andvarpaði og reis hægt á fætur. 

"Láttu ekki svona, bollan þín! Ég er viss um að erkidrúíðinn eigi smá dreitil af hunangi."

Aurum sperrti eyrun og fylgdi í flýti á eftir Úu.

- – -

Aurum rankaði við sér. Hann hafði sofnað. Hann geispaði og leit í kringum sig.

Úa sat skammt frá og ræddi við einn af mönnunum sem hélt sig í garðinum og angaði alltaf af brómberjum. Hún hafði vanið komur hingað á daginn og ræddi við þá sem höfðu gert garðinn að heimili sínu. Á kvöldin leitaði hún ýmist uppi mennina í flokknum sem hún hafði verið sett í, eða fylgdist úr leyni með konunni með hvítu fléttuna æfa sig að sveifla og dansa í kringum stafinn sinn. 

"Hvernig veit ég hvort berin séu orðin rétt? Hvort Obad-hai hefur blessað þau?" spurði hún. 

Maðurinn hóstaði og þurrkaði blóð úr munnvikunum í ermina á kuflinum sínum. 

"Þú verður að borða þau," svaraði hann mæðulega og andvarpaði. 

"Borða þau!" hváði Úa. "En, ef þau eru súr?"

"Þá gefurðu þau bessa þínum þarna," svaraði brómberjamaðurinn og benti á Aurum. 

Aurum sperrti eyrun. Berin sem brómberjamaðurinn gaf honum daginn áður voru góð, ekki súr. Hann leit vongóður á Úu. 

"Og loka berin sárum?"

"Já, Úa, berin lækna. Þú finnur þau, kallar fram blessun Obad-Hai og þau lækna þá sem borða þau," svaraði brómberjamaðurinn, augljóslega orðinn frekar pirraður. 

"Það er frábært, finnst þér ekki?" svaraði Úa, algjörlega ómeðvituð um hve takmörkuð þolinmæði brómberjamannsins var orðin. Hún stakk tveimur berum upp í sig og tuggði þau. "Og mér líður núna miklu betur," hrópaði hún loks upp fyrir sig. "Hvað geturðu kennt mér meira?"

"Kennslunni er lokið í dag," svaraði maðurinn og stóð á fætur. Hann gekk á brott án þess að kveðja.

Úa leit á Aurum og brosti. 

"Finnst þér þetta ekki sniðugt? Ber sem geta læknað. Hversu oft hefði það nú komið sér að gagni heima?" sagði Úa og stóð á fætur. "Komdu, við skulum skoða hvað T'Sial er að gera."

View
Ket og Frelsisherinn

Ket er langt í suðri og vestri frá Norðrinu og við fyrstu sýn myndi maður ætla að það hefði litla merkingu fyrir Frelsisherinn eða baráttuna í Norðri. Staðan er allt önnur. Fyrrum leiðtogi ríkisins gerði samkomulag við Iuz sem hann notaði til að hefja innrás í nágrannaríkið Bissel. Mullahrnir (prestar) voru ekki hlynntir þessu og stór hluti herforingjanna ekki heldur. Hernámið skyldi eftir djúp sár í báðum ríkjum sem hafa ekki gróið.

Þá er staðan í Ket viðkvæm. Leiðtoginn deilir bæði við herinn og mullahna. Ríkið er gríðarmikilvægt fyrir verslun þar sem það er nær eina greiða leiðin til vesturveldanna. Þó Bissel sé aftur sjálfstætt þarf lítið að gerast til að hleypa öllu í bál og brennd að nýju og sögur herma að útsendarar Hins Gamla séu enn í landinu,

View
Auðnin og Frelsisherinn

Elstu mannvistarleifar Flanaess eru í Auðninni. Hirðingjarnir þar hafa verið þar lengur en sennilega nokkrar aðrar mannverur Flanaess. Þetta er ekki eiginlegt ríki, heldur samsafn ættflokka sem flestir starfa saman þegar þörf er á. Þjóðin hefur verið í hnignun lengi en ungur leiðtogi hefur valdið því að því að fólið er bjartsýnna en það hefur lengi verið. Þó er sótt að þeim af ómennum á sléttunni og mönnum frá Grossfort. Þá má ekki gleyma að Steinborg er alltaf ógn frá austri.

Ríkið er einangrað og afskekkt og þarf sárlega á samherjum að halda. Ef hægt er að styrkja ættflokkana og búa til landbrú yfir til Auðnarinnar má reikna með sterkum her reyndustu og bestu hestamanna Flanaess, auk hestanna sjálfra.

View
Skjaldlöndin og Frelsisherinn

Frelsisherinn á ekki viljugri samherja en Skjaldlöndin. Gallinn er að einungis brot þessa áður sterka ríkis er frjálst. Í suðvestri eru Critvellir og Scragholme eyja frjáls og Frelsisherinn er nýbúinn að hertaka Admundsvirki, þó eyjan sé ekki alveg laus við andstöðu.

Nærri allt landssvæði Skjaldlandanna er undir yfirráðum og kúgun herja Iuzar. Þeir fáu íbúar sem eftir lifa þurfa að rækta ofan í kúgara sína og þola daglegar hótanir, pyndingar og morð. Frelsað flóttafólk hefur sagt hræðilegar sögur af því að hafa séð ættingja og vini étna fyrir augum sínum eða myrta og svo vaktir upp sem uppvakningar til að halda áfram að sinna ökrunum.

Hátt hlutfall Frelsishersins eru Skjaldlendingar, þar með talinn leiðtogi hersins. Engir berjast harðar gegn Iuzi og herjum hans en Skjaldlendingar. Riddarar hins Skjaldar hafa sent hóp paladina til Admundsvirkis og Alhaster. Stuðningur við Frelsisherinn er nærri skilyrðislaus.

Það er yfirlýst markmið Frelsishersins að frelsa Skjaldlöndin. Það yrði ekki bara meiri háttar vandamál fyrir Iuz-veldið í hernaðarlegum skilningi heldur gríðarlegt áfall sem myndi senda sterk skilaboð til heimsins og stórauka stuðning við Frelsisherinn.

Skaldlöndin voru eitt sinn tákn um hroka og stolt, síðar um vanmátt gegn herjum Iuzar og Hyrndu Fylkingarinnar. Flestir hafa fyrirgefið dramb og hroka fyrrum leiðtoga ríkisins og nú gæti það orðið tákn um sigur hins góða gegn hinu illa.

View
Nyrond og Frelsisherinn

Nyrond er annað fjölmennasta ríki Flanaess, einungis Ahlissa er fjölmennari og Norðurveldið hefur afar svipaðan íbúafjölda. Ríkið er mikils metið víðs vegar um heim sem frjálst land með réttlæta og góða leiðtoga sem og íbúa. Nyrond þurfti hins vegar að upplifa sannkallaða vítisferð á stríðsárunum og eftir þau. Það var barist á öllum vígsstöðvum, gegn Iuz-herjum frá Norðri, Norðurveldinu frá austri, Ahlissu og Blóðrauða bræðralaginu frá suðri. Ríkiskassinn var algjörlega tæmdur, fólkið þurfti að þola gríðarlegt mannfall og hungursneyð og var lengi afar háð Urnst ríkjunum til að halda innviðum gangandi eftir stríðin. Það er eingöngu undanfarin ár sem Nyrond hefur náð að laga stöðuna og íbúarnir, háir sem lágir, upplifa von í fyrsta skipti í langan tíma.

Norðurveldið verður alltaf ógn og landamæragæslan er afar sterk. Ógn Iuzar var mjög lítil í samanburði við aðrar ógnir sem ríkið þurfti að þola á stríðsárunum og fáir hafa áhyggjur af atburðum í Norðri. Það gæti orðið mikið mál að sannfæra valdhafa um annað en ef það er hægt, þá er her Nyrond með fjölmennustu herjum heims þó hann sé enn nokkuð vængbrotinn eftir stríðin.

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.