Greyhawk - Norðið

Frelsisherinn og Stoink hafa myndað bandalag
Stórtíðindi í austurhluta Ræningjaríkjannna

26. dagur Kaldkveldu, Stoink.

Þau stóru og miklu tíðindi hafa borist frá Stoink að Renfus borgarmeistari hafi myndað bandalag við hinn nýja Frelsisher og sameinað afl beggja fylkinga muni spila lykilhlutverk í frelsun Ræningjaríkjanna undan oki Hins Gamla!

Að morgni dags ferðist þið út fyrir Járnborgina, yfir á sléttuna og bíðið eftir komu leiðtoga ykkar. Þó ekkert ykkar, utan Sonyu, hafið áður komið til Lóðréttu Borgarinnar þá blasir við að eitthvað liggur þar í loftinu. Sonya veit betur og skilur af hverju félagar hennar finna fyrir einhverju. Það er nefnilega frekar hljótt í borginni. Það gerist aldrei.

Engin hlátrasköll, drykkjulæti, hamraglamur, bardagahljóð eða yfirleitt nokkuð af þeim hljóðum sem maður mætti eiga von á.

Í fjarska má greina leiðtoga ykkar, sem hafa ferðast hingað alla leið frá Admundsvirki gegnum Alhaster. Þetta er tilkomumikill hópur, um hundrað manna herlið leitt af Tamrin sjálfum sem ekki fer frá Admundsvirki nema mikið liggi við. Hann er ekki einn. Anna Huron, Gaerolf Skjaldbrjótur, Polaria Gellor, Salim Kaz Al'Oahu og Skuggaliljan eru með í för. Hér verður breiðu spjótunum beitt.

Eftir að hafa tekið á móti leiðtoga ykkar og gefa skýrslu um ástand mála og hvað á daga ykkar hefur drifið er haldið inn í borgina.

Og þvílíkar viðtökur!

Þrjótar, þjófar, ræningjar, málaliðar og vígamenn Stoink eru uppi í öllum hæðum byggingana í kring og kalla til ykkar allir sem einn. Á jörðinni eru æðstu leiðtogar þjófaklíkunnar, foringjar málaliðahópanna, æðstu ráðgjafar Renfusar og loks hinn tröllvaxni borgarmeistari. Renfus æpir upp og yfirgnæfir hundruðir ef ekki þúsundir manna og kvenna í kringum sig og í kjölfarið þagnar borgin.

"VELKOMNIR LEIÐTOGAR FRELSISHERSINS! ÞÁ ER LOKS KOMIÐ AÐ ÞESSUM FUNDI SEM MUN MARKA UPPHAF ENDALOKAGUNAR HINNA FRJÁLSUNINGJARÍKJA! JÁRNBORGIN HEFUR NÓGU LENGI LÁTIРÁSTANDIРYFIR SIG GANGA EN NÚ ER KOMIРNÓG! SAMAN MUNUM VIÐ HREKJA BURT ÖFL HINS GAMLA OG AÐ ÞVÍ LOKNU MUN STOINK AÐSTOÐA VIÐ FRELSUN NORÐURSINS!" Að máli Renfusar loknu fagna borgarar ógurlega.

Að þessu loknu er haldið til hallarinnar. Renfus býður til veislu og það er vægt til orða tekið að segja að vel sé veitt. Þrátt fyrir að eftir móttökuna sé komið að samningaviðræðum sem gætu orðið strangar, þá hika Renfus og hans samherjar ekki við að drekka vel og það er einstök upplifun að sjá Renfus borða, maturinn nær sogast upp í hann og magnið sem hann torgar er gríðarlegt.

Að veislunni lokinni halda æðstu leiðtogar til samninga. Það er nokkuð yfir ykkar sess að taka þátt í þeim en þakklæti Tamrins dylst ekki hvað varðar hlutverk ykkar í að stuðla að fyrstu kynnum milli Stoink og Frelsishersins.

Viðræðurnar ganga fram á kvöld en það er létt yfir fólkinu þegar dyrnar opnast. Þegar Renfus hlær drynur í kring. "MEGI ÞESSIGULEGI FUNDUR LIFA Í SÖGUM OG KVÆÐUM ÞEGAR FRAM LÍÐA ALDIR, HÉR HÓFST FRELSUN NORÐURSINS OG NÚ SKAL DRUKKIÐ!"

Það er fagnað ógurlega í Þjófaborginni. Þið hafið séð ýmislegt en meira að segja Gaerolf hefur ekki séð annan eins drykkjuskap. Gleðin er í algleymingi - þar til að rétt um miðnætti heyrist hornblástur frá borgarmúrunum. Eitthvað steðjar að.

Þið hlaupið upp í múrana og sjáið óvænta sjón. Það er um hundrað manna herlið á leiðinni eftir sléttunni, allt klárlega vanir hestamenn í léttum herklæðum. Liðið stoppar stutt frá hliðinu og leiðtogi þeirra ríður fram. Þetta er ungur maður, tiltölulega myndarlegur en hann hefur klárlega þurft að berjast um ævina og er með stórt ör á kinninni og þykkt og mikið hár og skegg. Hann kallar upp með djúpri röddu. "Við erum Reyhu-menn, reiðmenn hinnar villtu sléttu, sendir hingað af hinum mikla og máttuga máttuga plar Gljúfursins, Durand Grossman, til að heiðra samkomulagið við Járnborgina og, ef svo ber undir, deyja til dýrðar Hins Marga. Megi næstu dagar baðaðir í blóði andstæðinga okkar!" Maðurinn færir stór tíðindi - stór orkaher frá Gjábörmum er á leiðinni með vígvélar og ætlar að berja aftur uppreisnina!

Viðauki: Þið komið innsigli Gellor kvíslarinnar til Polariu, sem fær Önnu til að staðfesta að það er ekta. "Artor Borval" er í raun Artor Gellor prins (eða öllu heldur hertogi, þar sem faðir hans er fallinn frá). Polaria er ólíkt venju frekar hvumsa og virðist ekki alveg vita hvernig skuli bregðast við, en hefur sent boð til skyldmenna sinna í Stórhéraðinu Urnst til að fá leiðbeiningar. Hin venjulega pollrólega og yfirvegaða Polaria er frekar vandræðaleg og feimin í kringum frænda sinn, Perille til umtalsverðrar skemmtunar. Hins vegar heitir hann liði sínu til stuðnings gegn orkahernum og er þegar farinn að ráðfæra sig við leiðtoga Reyhu mannana um hvernig þeir geti starfað saman. Málaliðar "Borvals" eru riddaralið, gráir fyrir járnum og nota áhlaup og treysta síðan á herklæði til varnar, Reyhu menn treysta á hraða og hreyfigetu. Leiðtogi þeirra er frekar fámáll, en þið veiðið upp úr honum að hann heitir Korunak. Það blasir við að þessir menn eru heitir tilbiðjendur Hins Marga og njóta sín best í bardaga og óreiðu og eru sannkallaðir Ræningjar. Þeir munu vafalítið verða hörkusamherjar á vígvellinum en þið getið ekki barið frá ykkur þá hugsun að þið mynduð helst aldrei vera andstæðingar þeirra.

View
Svik í Stoink

„Legðu nú frá þér bókina og drífðu þig, við erum alveg að verða komin!“ sagði Sonya við Perille. Í raddblænum mátti heyra eftirvæntingu yfir að vera nánast komin á heimaslóðir sínar.

Sonya var spennt að sjá upplifun félaga sinna á borginni sinni, Stoink. Öll virtust þau fremur hissa að sjá svona byggingar sem leituðu svona hátt í loftið. Þeim virtist líka bregða í brún þegar þau sáu ferðavenjur borgarbúa, en flestir virtust vera afbragðs klifrarar. Hávaðinn var mikill. Í fjarska heyrði Sonya í slagsmálum sem að endingu leystust upp í skellihlátur. Hún var sátt að vera komin heim, svo sátt að hún virtist um stund gleyma því að hún var þarna á vegum frelsishersins.

Hópurinn kvaddi Larn, Rúfus og þeirra fólk frá Salfray ökrum og fóru sinna leiða.

„Hvar ætluðum við aftur að hitta þau?“ spurði T‘sial
„Á blóðuga broddgeltinum“ svaraði Sonya „Eltið mig“

Þegar hópurinn kom á barinn fengu allir sér öl, nema Perille sem þyrsti í eitthvað kryddaðra og með meiri berjakeim. Meira að segja fékk Úa sér öl og virtist finna vel fyrir áhrifum þess. Eftir stutta stund var Úa farin að velta stéttaskiptingu fyrir sér, en henni þótti það merkilegt að „greifingi“ skildi vera einhver sem var mikils metinn innan samfélags manna. Einnig vakti það mikla furðu að „stétt“ skipti vel siðað fólk máli. Í fjöllunum var gangvegurinn ekki talinn mjög merkilegur nema þar væru góðir steinar.

Eftir drykklanga stund ákváðu þau að best væri að reyna að finna út hverja þau ættu að hitta. Fulltrúi borgarmeistarans gæti verið hver sem er. Í sameiningu ákváðu þau að best væri að Sonya reyndi að spyrja barþjóninn hvort hann vissi eitthvað. Þegar hún minnist á frelsisherinn við hann sá Sonya útundan sér unga stúlku.

„Við tókum frá herbergi uppi, komið“ sagði unga stúlkan sem virtist ekki vera eldri en 12 ára.

Hópurinn elti stúlkuna, sem kvaðst heita Smarla, upp á næstu hæð og inn í fremur lítið herbergi með stóru borði og sætum í kringum það. Þarna inni voru veitingar fyrir alla og Smarla sá til þess að ekki vantaði drykki á borðið. Innan skamms gengu inn tveir menn. Annar var fremur þögull en hinn kom vel fyrir og talaði fyrir hönd þeirra beggja.

„Ég heiti Ditmar og félagi minn er Arnoran“ Og stuttu eftir að hann sleppir orðinu er rýtingur félagans sokkinn djúpt í bringuna á honum. Sonya sá lífsneistann slokkna í augum Ditmars.

„Ég vissi það!“ hrópar Smarla „Ekki leyfa höggorminum að sleppa!“

Við þetta fór allt á háaloft inni í herberginu. Arnoaran, eða höggormurinn eins og hann var víst kallaður, hljóp að hurðinni. T‘sial, Euler og Sonya reyndu að halda honum inni en honum tókst að sleppa.

„Náið honum lifandi!“ æpti Smarla á eftir þeim er þau hljópu á eftir honum niður stigann. Áður en þau komust niður síðustu þrepin heyrðu meðlimir frelsishersins gríðarlegan skarkala á barnum. Við þeim tók heill hópur af mönnum sem allir börðust eins og sannir hrappar frá höfuðborg ræningjaríkjanna. Sonya og félagar börðust vel. Aðeins of vel því að á afar skömmum tíma fékk Arnoran spjót T‘sial aðeins of fast í gegnum sig. Hann tórði þó nógu lengi til að vera yfirheyrður í herberginu á efri hæðinni. Þegar upp var komið sást langar leiðir að Smarla var ekki ýkja ánægð með hópinn.

„Hver gerði þetta?“ spurði Smarla og leit yfir hópinn.

„Ég..“ svaraði T‘sial skömmustuleg

Smarla varð enn óánægðari með hópinn þegar hún sá hversu gagnslaus þau voru í yfirheyrslu. Sonya, sem hefði líklega átt að vera góð í þessu, virtist vera eitthvað utan við sig. Perille reyndi að yfirheyra manninn blíðlega á meðan Luiz og T‘sial hótuðu honum öllu illu. Á endanum skar Smarla Arnoran á háls og skipaði hópnum að fara í annað verkefni. Að ná í síðasta klerk Iuzar innan Stoink og færa Renfusi hann. Hún virtist ekki hafa mikla trú á frelsishernum eftir þessa slæmu tilraun til yfirheyrslu.

Það tók hópinn ekki langan tíma að koma sér á réttan stað. Við þeim tók hvert dýrið á fætur öðru, kölluð fram af manni að nafni Joskoa hinn svikuli. Bardaginn gegn honum var afar langdreginn, svona í ljósi þess að Sonya og félagar pössuðu sig að fara afar gætilega til að verða honum ekki að bana. Ekki vildu þau valda stúlkubarninu henni Smörlu vonbrigðum aftur. Að lokum gafst hinn svikuli upp, dauðþreyttur og farið með hann til Renfusar. Ekki fengu þau að njóta samvista hans lengi, en það eina sem hann gerði var að hrinda síðasta klerk hins gamla fram af hárri byggingunni. Að vísu kinkaði hann kolli til Sonyu, enda höfðu þau átt viðskipti áður.

„Renfus vildi gefa ykkur þetta sem þakkir fyrir þjónustu ykkar“ sagði Smarla við hópinn og rétti þeim snjáðan poka „Þetta getur verið erfið byrði en á sama tíma komið sér vel“ og hún flýtti sér í burtu.

„Hvað ætli sé í pokanum?“ spurði Úa og opnaði hann

„Hæ, hver eruð þið?“ heyrðist úr pokanum

Öllum brá heldur betur í brún og T‘sial svaraði. Að endingu var ákveðið að hún yrði umsjáraðili pokans, sem kallaði sig „blaðurskjóðuna“. Þrátt fyrir að þessi vera væri vafalaust gagnleg var Sonyu létt að T‘sial tók hana að sér.

Eftir atburði dagsins kom hópurinn sér fyrir í húsakynnum sem Renfus útvegaði þeim. Framundan biðu ýmis verkefni innan borgarinnar þannig að nú var kominn tími til að hvílast.

View
Salfray

Ræningjaríkin, ekkert sérstaklega heillandi. Luiz á í meiri erfileikum en flestir félagar sínir í sérsveitinni að vaða í þessari mýri, líklega að sökum hæðar, þó hann viðurkenni það ekki fúslega þá var hann mjög augljóslega pirraður á erfileikunum.

Úa, Euler, Luiz, T‘Sial, Perille og Sonya, sérsveit Frelsishersins, höfðu ferðast í dágóðan tíma  á leiðinni til Salfray-akra og voru augljóslega að nálgast miðað við umhverfið. Salfray jurtir dreifðar um blautt mýrlendi. Luiz var ekki lengi að grípa eina jurt.

Salfray jurtin. Hún er sögð hafa mikinn lækningarmátt ef unnið er úr henni rétt. Ég gæti nýtt hana til þess að hjálpa svo mörgum í frelsishernum. Perille benti á að Larn, græðara sérfræðingur svæðisins, væri kannski ekkert sérstaklega sáttur ef við tökum jurtirnar án leyfis. Ég setti jurtina á öruggan stað innan um brynjuna mína, það er ekki eins og hann telji allar jurtirnar á akrinum. Ég var varla búinn að koma jurtinni fyrir þegar Euler tók eftir bardaga um það bil 200 fetum frá okkur. Þarna var eldri maður sem seint væri kallaður veikburða umkringdur skrítnum verum sem væri lauslega hægt að líkja við mannveru. Við biðum ekki eftir því að hjálpa og réðumst að verunum. Sá gamli sló niður eitt af verunum. Ég sá núna að verurnar glönsuðu nánast eins og þær voru þaktar málmi. Ég reyndi að kasta frostsprengju í eina veruna og hitti en án árangurs. Örvar flugu af verunum og sverð skoppuðu af þeim en á endanum felldum við þær, eða réttara sagt hjálpuðum gamla manninum að fella þær. „Hvað eruð ÞIÐ að gera hér ?“ spurði gamli „eruð þið frá frelsishernum ?“. Við svöruðum játandi, kynntum okkur og báðum um nafnið hans. Rúfus hét hann og benti hann okkur á að tala við Larn inn í þorpi stutt frá okkur.

Við fórum til Larn og hann lýsti því slæma ástandi sem var í bænum. Margar verur og dýr hafa reglulega gert árás á fólkið í salfray ökrunum. Hann bað um okkar hjálp við að koma fólki salfray akra í öruggt skjól í Stoink. Hann var reyndur græðari en vildi helst ekki taka þátt í bardaga. Hann gaf okkur þó þær upplýsingar að það þurfi kaldunnið stál, eða eitthvað álíka, til þess að fella glans-verurnar. Ég fussaði bara, frostsprengjurnar virkuðu augljóslega ekki á þessi kvikindi afhverju ætti kalt vopn að gera það, mér var sagt að ég væri að misskilja, en mýrin hafði ekki góð áhrif á dómgreindina.  Við ákváðum að hjálpa salfray fólkinu, við gætum jafnvel fengið Larn til að hjálpa frelsishernum ef að við komum honum í skjól. Við fengum að gista hjá Rúfus um nóttina og ætluðum að halda af stað daginn eftir. Rúfus og hundurinn hans sýndu Úu mikinn áhuga og var hún sú eina sem fékk hlýtt viðmót. Við deildum húsi Rúfusar með Rúfus og dætrum hans og sváfum á meðan að hundur Rúfusar stóð á vakt.

Við vöknuðum við læti fyrir utan húsið og var þá Rúfus í miðjum bardaga. Við stukkum á fætur til að hjálpa við bardagan, skelfilegir úlfar með rauð augu tóku á móti okkur og ekki skánaði það því þúsundir köngulóa sprungu út úr úlfunum ef þeir fengu högg á sig. Við felldum úlfana og perille brenndi köngulærnar með stafinum sínum. Við færðum okkur að næsta heimili og héldum áfram bardaganum. Rúfus ákvað að skilja við okkur en ætlaði að kalla á okkur ef fleiri kvikindi réðust að bæjum salfray akranna. Við drápum fleiri verur þarr til við heyrðum kallið og var þá stór hópur úlfa og glans-vera að ráðast á bæjinn. Við náðum naumlega að fella öll kvikindin en Perille og T‘Sial lentu illa í köngulónum.

Við fundum Rúfus hvergi en sáum þegar hann breytti sér frá því að vera björn yfir í sitt kunnulega mannlega form. Hann gat breytt sér í Björn! Án þess að drekka nokkurn skapaðan hlut ? Úa virtist hafa mikinn áhuga á þessum hæfileika Rúfus eins og ég. Það væri ekki ósniðugt að eiga Rúfus að vin, að geta breytt sér í Dýr að vild er ekki algengur hæfileiki, við gætum jafnvel lært þennan hæfileika.

 

Larn hafði gefið okkur Salfray jurt sem hann hafði gert nothæfa, það er langt í Stoink og það væri mjög gagnlegt að vita hvernig hann vinnur úr plöntunni. Hann bað okkur um að sannfæra Rúfus um að koma með okkur til Stoink. Þrátt fyrir að vera mjög öflugur gamall maður, Björn ? Galdramaður, þá var mjög ljóst að Rúfus myndi deyja hér ef hann yrði hér eftir einn. Við báðum Úu um að sannfæra hann, því hann virtist líka best við hana. Hann vildi ekki yfirgefa heimilið sitt, illu öflin höfðu tekið of mikið af honum og Úa skildi það vel, of vel. Restin að Sérsveitinni þurfti að grípa inn í. Þrátt fyrir meðvirkni Úu þá gátum við sannfært Rúfus að koma með okkur svo dætur hans gætu einn daginn komist aftur í heimilið sitt, svo Luz myndi ekki vinna.

Það var nokkra daga leiðangur að komast til Stoink, vonandi komumst við þangað heil að húfi. Þetta var mjög atburðarík heimsókn í Salfray-akrana. Orkar, Drýslar og illir galdramenn er eitt, en verur sem virðast vera gerðar úr stáli er svo sannarlega önnur og athyglisverð ógn. Hvaða óvenjulegi og hugsanlega áhugaverði hryllingur ætli bíði okkar í næstu verkefnum frelsishersins ?

View
Fyrirmæli um Stoink

Meðan þið eruð á þessari hægu ferð milli Salfray-Akra og Stoink svífur að fálki og kemur sér fyrir hjá Úu. Hún er fljót að skilja að að þessi fugl kom ekki fyrir tilviljun, heldur hafa töfrar verið að verki. Fálkinn skilur eftir lítinn pappírssrenning með fyrirmælum, þiggur æti og heldur svo leiðar sinnar.

Rithöndin er frekar óvenjuleg, ekki sú skýrasta en málfárið er vandað. 

Kæru félagar.

Við vitum frekar lítið um hvað er í gangi í Stoink eins og er. Frelsisherinn á enga fulltrúa í Járnborginni og aðeins örfáir meðlima okkar koma þaðan. Við höfum þó það forskot að í hópi ykkar er einn Stoink-búi. Við höfum fengið boð um að hitta fulltrúa borgarmeistarans á krá, sem ku bera nafnið Blóðugi Broddgölturinn. Þar með er upp talið það sem við vitum á þessari stundu.

Farið varlega, verið með augu og eyru opin og ekki tala af ykkur við einn eða neinn. Það er afar mikilvægt að þessi fyrsti fundur gangi vel. Ekki lofa neinu, ekki neita neinu. Þegar sæmilegt samband hefur náðst mun ég, ásamt fleiri fulltrúum, mæta til samningaviðræðna.

Kærar kveðjur,

Tamrin Soldat.

View
Stund milli Stríða
Í Hardwyn

Perille struk fingri yfir svarta eikarstafinn sem hafði áður verið þakin rauðglóandi rúnum, hún fann fyrir rúnunum undir fingri sér, fínt skornar og flóknar, en bjarminn var farinn. Meðan ennþá var orka í stafnum hafði brunnið logi á höfði stafsins, rúnarnar glóið eldrauðar og hiti stafað frá honum, en núna var eins og stafurinn væri bara eins og hver önnur spýta og hún hafði enga leið sem hún gat séð til að hlaða stafinn aftur.

Hún hafði tekið meðvitaða ákvörðun um að nýta síðustu krafta stafsins í loka orustunni til að frelsa þrælana í Sarresh. Hádríslarnir voru fjölmennari en þau, og það kom ekki til greina að fórna öðrum meðlimi sveitarinnar til að frelsa þá, fyrr skyldu þessir hádrýslar brenna.

Gangan hafði verið dimm frá tjaldstæði þeirra að ánni. Einhvað kjaftaður hafði verið viðhaft en veðrið endurspeglaði skap flestra í sveitinni, blaut, dimmt og hvasst. Allir voru þó utan við sig, annars hugar, því það hafði hádrýsill náð að laumast að þeim með tvo hunda samferða. Hingað til hafði það verið öfugt, þau sátu fyrir þeim, en að þessu sinni var hádrýsill á veiðum eftir þeim.

Þó hann hafi verið einn á ferð með hundunum hélt enginn aftur af sér við að fella hann. Bæði hann og hundarnir voru högnir í spað.

Enginn var í neinu skapi fyrir miskun, þau höfðu öll séð útreiðina á þrælunum sem hádrýslarnir héldu, og þaðan af verra höfðu þeir drepið Aurum.

Sitjandi á frekar mjúku rúmi í tiltölulega hreinu herbergi í sæmilegr krá hinu megin við ánna degi seinna, handfjatladi stafinn og hugsi, þótti Perille það frekar ótrúlegt hversu mikil áhrif sorg Úu virtist hafa á hópinn. Jú, fólk gantaðist, og það gerði það sem það þurfti, en Perille fann að það var sem stórt gat hefði myndast í sveitinni með falli bjarnarins. Það var ótrúlegt hveru stór partur af Úu þessi litli bangsi hafði verið, og ótrúlegt hversu stórt partur Úa var af sveitinni.

Síðasti bardaginn fyrir frelsi þrælanna í Sarresh hafði verið snöggur. Það var barist af ofsa og það var engin miskun sýnd. Perille hafði gleymt að halda aftur af sér þegar hádrýsillinn hafði setið fyrir þeim, svo mikið var hún farinn að hata hádrýsla, að hún var að mestu búin með orkuna sína til að kasta göldrum þegar komið var að veginum. Eftir að hafa talið hádrýslana sem vöktuðu fangana þá var hún fljót að ákveða; líf sveitameðlima og fanganna var meira virði en að halda í orku stafsins. Í stað þess að reyna að sigra með áræðni og rælni hafði Perille ákveðið að drýslarnir skildu deyja, og það hið fyrsta. Eldhnötturinn sem hún kallaði fram með stafnum brendi þrjá þeirra til ösku og skildi eftir sig sviðna jörð frá þrælalínunni og innfyrir vegginn.

En þar með var orka stafsins búin.

Stafurinn hafði verið eign Waqounis áður en sveitin feldi hann. Perille hafði tekið stafinn ásamt galdrabókinnni hans. Þetta voru einu mestu fjarsjóðir sem Perille hafði handfjatlað. Bókin innihélt afurð margra ára rannsókna Waqounis og kæmi til með að flýta hennar eigin rannsóknum töluvert, svo mikið að bókin var varla metin til fjárs. Stafurinn sjálfur innihélt svo orku sem var langtum fjarri Perille að geta kallað fram sjálf. En eiðsla orkunnar hafði verið réttlætanleg.

Eftir að fangarnir höfðu verið frelsaðir þá dökknaði himininn ennþá meir en var þá þegar. Þau voru varla kominn frá ánni þegar örvahríð rigndi yfir ánna frá Hardwyn. Þar höfðu bæjarbúar greinilega beðið eftir þessu augnabliki, að mannlegi skjöldurinn yrði tekinn af hádrýslunum. Enginn sveitarmaðlimur beið til að sjá afdrif bæjarins. Þau vissu að innrás myndi hefjast strax en þau fylgdu þrælunum til skjóls og til að hvílast sjálf.

Sveitinn hafði fengið leyfi til að hvílast nokkra daga í Hardwyn áður en hún átti að halda áfram að Salfray-ökrum. Perille gerði lítið sem ekkert á þessum dögum nema að ráfa um, njóta þess að vera innan um fólk í bæ iðandi af lífi. Sveitin notaði þó tækifærið til að aflesta gripum sem höfðu verið frelsaðir frá orkum og öðrum ómennum, að fylla á byrgðir og ná andanum.

View
Frelsi
Hetja er fallin

Hetjurnar voru nokkuð lemstraðar og þreyttar eftir bardagann í Axarhöfn. Þær höfðu þurft á öllum sínum styrk, úthaldi og útsjónarsemi að halda til að sigra galdrameistarann. Marin og blá, með höfuðverk og andlega búin á því mættu þær til yfirboðara sinna í búðunum skammt frá borginni og fengu næstu fyrirmæli. Stríðið er rétt að hefjast, verkefni Frelsishersins eru ærin og lítill tími sem gefst til þess að sleikja sárin og fagna sigrum. Hver einasta orrusta, jafnvel lítilvæglegustu smáskærur, eru skref í átt að því að velta þeim gamla af stalli. 

Aurum elti Úu og fylgdist með henni þykjast lesa blöðungana sem þeim voru fengnir í hendur. Perille renndi fljótt yfir þá og afhenti Luiz áður en hún tók að spyrja flokksforingjana um verkefnið sem þeim hafði verið úthlutað, að frelsa þrælana við þorpið Sareesh og síðan þorpið sjálft. Ekki leið á löngu þar til þau höfðu öll lesið skilaboðin frá yfirboðurum Frelsishersins og voru í óða önn að skipuleggja hvernig þau kæmust á sem skemmstum tíma að borginni, sem stóð á Salfray sléttum við fljótið Artonsamay. Sonya lagði til að hópurinn myndi sigla, að minnsta kosti til Alhaster en það mætti ríða og þannig væru þau komin til Sareesh innan nokkurra daga. Varð sú tillaga að lokum ofan á. 

Siglingin tók tvo daga. Á meðan henni stóð sátu Úa og Aurum að mestu fram í stafni. T’Sial og Sonya spiluðu neðan þilja, en Luiz og Perille skeggræddu um galdra, seyði og þess háttar. Euler var hins vegar öllu uppteknari af því að skipuleggja sendiförina. 

“Þau eru svo klár,” sagði Úa við Aurum á seinni degi ferðarinnar. Það var kalt en stillt veður og sjólag gott. “Þau kunna á allt þetta,” bætti Úa við og benti í átt að Alhaster, sem grillti í við sjóndeildarhringinn. “Við erum bara einhverjir vitleysingar úr fjöllunum í þeirra augum,” sagði hún með eftirsjá í röddinni. “Stundum sakna ég hellsins okkar. Þar þurftum við ekki meira en hvort annað. Og kannski smá hunang öðru hvoru.” Aurum sperrti eyrun og þefaði af fingrum Úu. “Nei, ég er ekki með hunang núna, bjáninn þinn,” sagði Úa og skellti upp úr. Hún klóraði birninum á bakvið eyrun og lagði síðan enni sitt að höfði hans. “Ég veit ekki hvað ég gerði án þín. Ef þú værir ekki hér, væri ég alein innan um þau, sem hlæja að mér og finnst allt skrítið sem ég geri.”

Euler kom þá og rak þau á fætur, með þeim orðum að þau voru senn að koma a borginni. “Ég vil síður missa sjónar af ykkur tveimur, Alhaster er mun stærri en Admundsvirki og auðvelt að týnast þar.”

-

Framundan var Sarresh, vígvarin borg þar sem hádrýslar réðu lögum og lofum. Skammt frá rann fljótið Artonsamay letilega til sjávar en á hinum bakkanum var önnur borg, Hardwyn, og hafði á árum áður oft verið rætt um að brúa fljótið til að tengja borgirnar tvær, þó aldrei hefði orðið af því. Nú var Sarresh bæli þessa gengis hádrýsla og höfðu þeir m.a. tekið herskildi tvær námur skammt frá borginni, þar sem þeir níddust miskunnarlaust á þrælum sínum, sem flestir voru fyrrverandi íbúar borgarinnar. 
“Við skulum byrja á því að ráðast gegn kopanámunni og frelsa fyrst þrælana þar, því hún er nær borginni,” sagði Euler og benti að námunni, sem var sýnileg af hæðinni hvar hópurinn stóð. “Svo tökum við grjótnámuna og endum síðan á þrælavagnalestinni. Þá ættum við að vera búin að frelsa nógu marga þræla til að valda hádrýslunum nægilegum vandræðum.”

Hópurinn samþykkti þessa ráðagerð Eulers og hélt af stað. Eftir að þræða krákustíga meðfram fljótinu fundu hetjurnar innganginn í námuna. Þau læddust inn og sáu hvar tveir hádrýslar stóðu vörð, en virtust ekki hafa tekið eftir þeim. Perilla ákvað að leggja svefnálög á þá um leið og Sonya læddist nær með brugðinn hníf. Álögin svæfðu annan vörðinn en árás Sonyu geigaði. Sem betur fer voru bæði Aurum og T’Sial ekki langt undan. Aurum beit aftan í hnésbót varðarins, sem hrundi aftur fyrir sig um leið og T’Sial lagði til hans með spjótinu sínu. 

Um leið og hetjunum hafði tekist að fella vörðinn sáu þær inn í námuna, sem var gríðarstór. Þar voru nokkrir hádrýslar á verði sem og fjöldi þræla sem voru barðir áfram. Skarkalinn sem fylgdi orrustunni við verðina hafði bergmálað um hellinn og ekki leið á löngu þar til allir verðirnir ásamt leiðtoga þeirra, Kelvreek, hádrýsli með ógnvekjandi sverð, voru búnir að draga vopn úr slíðrum og bjuggust til orrustu. 

Eins og hendi væri veifað varð allt vitlaust í námunni. Þrælarnir réðust gegn hádrýslunum. Hádrýslarnir ásamt leiðtoga sínum réðust gegn hetjunum, sem reyndu eftir fremsta megni að tryggja að sem fæstir þrælar myndu slasast í æsingnum. Eftir að hetjurnar höfðu fellt tvo hádrýsla kom leiðtoginn aðvífandi og tókst að rota Sonyu og eyðileggja langspjót T’Sial. Luiz og Úa reyndu að lækna vini sína en um leið verða að gagni. Euler hélt sig þar sem hann gat mundað bogann sinn, þannig að það kom í hlut Aurums að standa fremstur og halda aftur af Kelvreek. Hann lét höggin dynja á birninum og tókst að opna slæmt sár á fremri fæti Aurums, en T’Sial kom þá birninum til aðstoðar, ásamt Luiz, og í sameiningu tókst hetjunum, með hjálp frá grjótkasti þrælanna, að fella Kelvreek tortímanda. 

Þegar hádrýslarnir voru sigraðir skiptu hetjurnar liði. Hluti þeirra rannsakaði námuna hátt og lágt, til að tryggja að hvergi væru fleiri óvinir, þó eflaust hafi einhverjir verið að vonast eftir að finna eitthvað verðmætt, en hinn hlutinn ræddi við þrælana og tryggði að þeir fengu vatn og mat, sem og að segja þrælunum frá Frelsishernum. 

Um nóttina lögðust hetjurnar til hvílu, enda þreyttar og særðar eftir bardagann. Flestar þeirra komu sér fyrir þar sem var að finna tiltölulega mjúkt undirlendi en Úa og Aurum lögðust á bert bergið og dæstu feginsamlega, enda langt síðan þau höfðu lagst til svefns í helli. 

-

Næsta dag var ákveðið að ráðast gegn hádrýslunum í grjótnámunni. Áður en þau fóru afhenti Úa T’Sial spjótið sitt. 

“Þú mátt fá það, ég get bara notað svona skaft,” sagði Úa og brosti til T’Sial, sem tók hikandi við spjótinu. 

“En ertu viss, þú ert þá ekki með neitt almennilegt vopn,” svaraði T’Sial. 

Úa yppti öxlum. “Jú, jú, þetta dugar alveg,” sagði hún og tók viðarskaft af haka einum sem lá þar skammt frá þeim. 

Þau lögðu síðan af stað og gengu nokkuð greitt. Það var froststilla og örlítil þoka yfir, en eftir því sem sólin hækkaði á lofti hlýnaði lítillega, svo brátt varð flestum hlýtt. 

Þegar þau komu að námunni sáu þau að þar, rétt eins og í koparnámunni, stóðu tveir hádrýslar vörð. 

“Ég er með hugmynd,” sagði T’Sial, “við Sonya getum dulbúið okkur sem hádrýsla og þóst vera að koma með tvo þræla. Þá getum við kannski komist nær og frelsað þrælana.” 

“Já, þetta er prýðishugmynd. Við getum kannski þá séð betur hvernig er umhorfs þarna og jafnvel vegið bara leiðtoga þeirra, þannig að það myndist algjör upplausn í flokknum.”

Euler kinkaði hugsi kolli. Aurum fylgdist með samræðunum, augun glennt og hann opnaði munninn, lokaði honum síðan, opnaði aftur en hristi síðan höfuðið. 

Ekki leið á löngu þar til að þær höfðu dulbúið sig sem forljóta og grimmúðlega hádrýsla og örkuðu af stað með Perille og Luiz í eftirdragi. 

“Hafðu ekki áhyggjur, Aurum, þær vita sko alveg hvað þær eru að gera,” sagði Úa við björninn þegar þau voru komin nokkuð áleiðis. Aurum leit upp til Úu, í brúnum augum hans blikaði vantrú. Hann rumdi eitthvað og lét sig falla í grasið, án þess að taka augun af hópnum sem fikraði sig nær hádrýslunum. 

“Hey, psst!” hvíslaði Luiz, “hvor ykkar talar drýslatungu?”

T’Sial og Sonya litu hvor á aðra. Síðan á Luiz. 

“Ekki segja mér að hvorug ykkar tali drýslatungu?” Þegar hvorug kvennanna svaraði bölvaði Luiz og vissi sem var í hvílíkan vanda þau voru komin. “Eigum við snúa við?”

“Karka eztu lam’ika?” kallaði annar varðanna til þeirra þegar þau áttu nokkur skref eftir að þeim, rödd hans var gróf og dimm og þeir voru báðir ágætlega vopnum búnir. 

T’Sial og Sonya litu hvor á aðra, eins og þær biðu eftir því að hin gerði eitthvað. T’Sial tók loks af skarið og reyndi að rymja eitthvað ógreinilegt um leið og hún gerði sig líklega til að arka framhjá verðinum. 

“Do mekra sta! Nie jamalerku hjantu,” sagði hinn vörðurinn og steig í veg fyrir T’Sial. 

“Jarka perli hitmunin, sor ti Marku bere,” var kallað neðan úr grjótnámunni. Þar voru nokkrir hádrýslar og einn þeirra vopnaður öflugu langspjóti. Hann virtist leiðtogi þeirra, Rugarvan, og af bendingum hans að dæma var hann ekki ánægður. 

Luiz, sem skyldi drýslatungu, hvæsti til T’Sial og Sonyu: “Þeir hafa séð í gegnum ykkur.”

Sonya dró hníf úr slíðri og T’Sial byrjaði samstundist að dansa stríðsdansinn sinn. Ásamt Perille og Luiz felldu þau hádrýslaverðina tvo. Aurum, Úa og Euler komu á harðaspretti. Aurum og Euler þutu í átt að bardaganum en Úa kom sér fyrir á brún námunnar og hóf að ákalla Fjallaföðurinn. 

Hún umbreytti hluta af námunni í leðju, svo að hádrýslarnir sem voru neðar í námunni, þar á meðal Rugarvan með spjótið sitt, sáu þann kostinn vænstan að reyna taka sér stöðu neðst í námunni og verjast þar. Euler lét örvum rigna yfir þá, Perille kastaði einnig göldrum sínum sem og Úa, sem særði bæði fram frumaflaveru úr eldvíddinni, ásamt því að kalla fram vígfætlu. Frumaflaveran olli miklu uppnámi meðal hádrýslanna, enda kviknaði í þeim einum af öðrum. 

Aurum og Sonya hlupu sem fætur toguðu niður í námuna. Þó að leðjan hægði á þeim tókst loks að komast að leiðtoganum. T’Sial stökk einnig niður til hádrýslanna og barðist við þá á sinn sérkennilega seiðandi hátt. Þeim tókst að særa Rugarvan og liðsforingja hans illilega ásamt því að fella aðra hádrýsla. 

Rugarvan hörfaði undan atlögum hetjanna og Aurum elti hann. Björninn gætti hins vegar ekki að sér og liðsforinginn náði góðu höggi í hann. Blóð vætlaði út stóru sári á hrygg Aurums sem reyndi að leggja til leiðtogans, en björninn var orðinn máttlítill. Rugarvan rak Aurum á hol með spjóti sínu. Björninn vældi ámátlega en hrundi svo niður. 

NEI!!” öskraði Úa, þegar hún sá að Aurum var fallinn. Hún fann tár þrýstast fram í augnkrókana. Í huganum sá hún augnablikið þegar hún fann húninn, þar sem hann lá undir móður sinni sem hafði verið margskotin með örvum. Hann hafði verið svo umkomulítill og bjargarlaus. Hún tók hann í fang sitt og hvíslaði í eyru hans. Þau dysjuðu hræið af móður Aurums en héldu síðan í helli Úu, þar sem hún eyddi kvöldinu í að finna nafn á hann. 

NEI, EKKI AURUM,” hrópaði Úa um leið og hún stökk niður í námuna. Andlit hennar var afmyndað af bræði, augun skutu gneistum og hún minnti einna helst á óða birnu að verja húninn sinn. 
Euler og Luiz létu örvum og sprengjum rigna yfir Rugarvan og liðsforingjann ásamt því að T’Sial og Sonya börðu og stungu þá.

Þegar Úa komst að Rugarvan var hann fallinn í valinn. Það hindraði hana þó ekki í að berja líkið svo mikið að það var fátt eftir sem minnti á hádrýsil. 

Loks rann æðið af Úu. Hún féll fram á hnén við Aurum og lagði höfuð sitt að höfði hans. Hún grét sáran og gróf andlit sitt í felldi bjarnarins.

-

Á meðan hetjurnar frelsuðu þá þræla sem voru í námunni útbjó Úa dys fyrir Aurum. Hún lagði húninn varlega í dysina og hlóð síðan steinum ofan á. 

“Nú er ég ein. Takk fyrir að vera vinur minn,” hvíslaði hún um leið og hún lagði síðasta steininn ofan á hauginn. “Hvíl í friði og far til heilögu fjallanna, hvar hunangið flæðir og allar ár eru fullar af laxi.” Hún leit um öxl og sá að þar stóðu hinar hetjurnar, daprar í bragði. Hún sneri sér aftur að dysinni. “Fjallafaðir, ég bið þig um að taka við Aurum og vernda hann betur en ég. Hann er stundum þrjóskur og vill alltaf fá meirihlutann af hunangskökunum, en hann er svo góður vinur.” Úa saug upp í nefið. “Vertu góður við hann þar til ég kem.”

“Við ættum að halda áfram,” sagði Euler lágt. Eitt af öðru tóku þó hetjurnar stein upp af jörðunni og lögðu í dysinna. “Komdu, Úa, við þurfum að halda áfram.”

View
Axarhöfn er okkar!
24. dagur þarfamánaðar

Luiz leit yfir niðurstöðu bardaga Axarhafnar og fann mikið til, holdið hans hreyfðist og beinin komu sér fyrir á rétta staði. Hann dróg eina tönn úr gómnum sem hafði greinilega villst á leiðinni í allri umferðinni, stökkbreytiefnið var horfið úr líkamanum og snerpan dafnaði. Það þarf að fínpússa uppskriftina, hugsaði hann og gleymdi í smá stund hversu heppin sérsveitin var að hafa drepið Waqounis og náð Axarhöfn. Þetta hefði getað endað mun verr.

Hvað ef Böðvar hefði ekki kramið heila orkasveit við fyrsta vegg virki Waqounis? Ég hafði gefið honum skjaldar-þykkni og þrátt fyrir að hafa verið sleginn niður í fyrri bardaga þá hljóp hann beint að Orkunum við vegginn og drap þá áður en þeir gátu gert nokkurn skapaðan hlut. Við hefðum auðveldlega getað slasast við að berjast við þá og verið veikari restina að bardaganum. Böðvar er ekki ljúfur við fylgjendur hins gamla, það er nokkuð ljóst.

Hópurinn fékk Reyksprengjur til þess að merkja hvert Harald ætti að varpa grjóti. Perille var með sprengjurnar og kastaði einni að fyrsta varnarveggnum, stuttu seinna flugu steinar að veggnum og innan skamms var komið brot í vegginn. Ég sá strax gleðina í augunum á Perille, hún var augljóslega að hugsa um aðra notkun sprengjanna. Bakvið vegginn voru tveir stæltir orkar og einn mennskur galdramaður. Böðvar var kannski aðeins of æstur eftir að hafa tortímt síðustu hersveit en þessir reyndust erfiðari, þeir virtust taka höggum eins og ekkert væri og ekki voru þeir heimskir. í stað þess að hlaupa út í gegnum þrönga opið þá biðu þeir rólegir eftir að við gerðum það, en með því að henda einhversskonar sleipiefni á jörðina við opið og með þungum höggum frá T'Sial, Böðvari og Aurum voru þeir loksins felldir eftir nokkrar misheppnaðar hreyfingar í olíunni. Hópurinn var núna særður og þá sérstaklega Böðvar og T'sial.

"Komið til mín" eða eitthvað álíka og kannski ögn ókurteisara boð barst handan við næsta vegg, Perille vildi augljóslega ekki láta tækifærið fram hjá sér fara og kastaði sprengju yfir vegginn í von um að hitta þennan óprúttna hrópara með sprengjunni. Reyksprengjan flaug yfir vegginn og eins og síðast byrjuðu steinar að rigna í reykinn. Sérsveitin gat náð andanum í smá stund þar til steinarnir hættu að fljúga yfir okkur og þá var næstu sprengju komið fyrir við vegginn. Ég veit ekki hvernig Harald getur verið svona hittinn með þessum steinum og ég veit ekki hvort hann vissi þegar veggurinn var brotinn, líklega ekki, en aftur tókst það samt og aftur beið okkar óvenju erfiður bardagi.

Við biðum með vopnin á lofti. T'Sial, eins og henni einni er líkt, dulbjó sig sem galdramaðurinn sem við höfðum drepið og þóttist vera alvarlega særð, við þurftum á öllum kostum að halda. Stór orki í sterkri brynju beið eftir okkur, hann hélt fast í vel notaða vopnið sitt reiður á svip, Mölvarinn. Annaðhvort trúði hann ekki dulargervi T'Sial eða honum var alveg sama en enginn var að taka óþarfa áhættu héðan af þannig að Úa kastaði mold í andlitið á T'Sial og sár hennar byrjuðu að gróa. Ég þarf að muna eftir að biðja Úu um svona mold. Dora gæti örugglega hjálpað mér að greina hana, moldina semsagt. Luiz sá að Frelsisherinn var aftur farinn að undirbúa næstu skref í barráttu sinni gegn hinum gamla, varla búinn að ná Axarhöfn áður en næsta verkefni er farið af stað. Hann var úrvinda og eftir seinasta verkefni þá sá hann að hann þarf að undirbúa sig betur og bæta uppskriftirnar sínar. Heppnin getur ekki alltaf verið með okkur eins og seinast, hugsaði hann.

Hvað ef moldin hennar Úu hefði ekki virkað ? Við nýttum okkur öll lækningar ráð sem voru í boði og Mölvarinn hefði líklegast drepið okkur áður en við komumst að Waqounis hefðum við verið mikið særðari. Bardaginn við mölvarann var erfiður, hann hljóp okkur niður eins og ekkert væri og braut exina hans Böðvars en einhvern veginn var hann felldur líka eftir nokkur góð högg, bit og galdra og aftur var stór veggur sem beið eftir steinum Haralds. Við vorum búinn með orkuna fyrir galdra, Böðvar var án exinnar góðu og við vorum dauð þreytt, við íhuguðum að hvílast til að safna orku en sáum strax að það var ekki góður kostur í miðri innrás. Perille tók upp rit og byrjaði að horfa á afrekið okkar hingað til eins og hún væri að telja líkin sem við höfðum skilið eftir, hún las upphátt af ritinu og líkin stóðu upp og mynduðu línu. Ég hélt að Perille yrði stoltari af afrekinu, en hún virtist vonsvikin og kastaði næst seinustu sprengjunni í hurðina á seinasta veggnum og við komum okkur í viðbragðsstöðu.

Hvað ef Harald hefði ekki hitt ? Hvað ef Perille hefði kastað annari sprengju yfir vegginn til Mölvarans ? Við biðum eftir að reykurinn hvarf og sáum þar Waqounis bíða eftir okkur, alls ekki ánægður með gestina. Áður en við gátum hlaupið að honum birtist eld veggur mitt á milli okkar og hans, hitin frá veggnum var svo sterkur að okkur hlýnaði þrátt fyrir að vera ágætis spöl frá veggnum. Það var gagnslaust að skjóta örvum eða kasta einhverju í gegnum vegginn. Waqounis galdraði fram ófreskju eins og við máttum búast við og eins gott að hreyfandi líkin voru þarna til þess að ná athygli ófreskjunnar. Böðvar, Úa og Aurum einbeittu sér líka að Ófreskjunni, hún var ekkert lamb að leika sér við. Uppvakningarnir voru farnir að fækka. Ég sá tækifæri að komast að Waqounis og kastaði skrímslaseyðinu sem við höfðum fengið í fyrra verkefni yfir eldvegginn og í vegginn hjá Waqounis. “Skrímslið sem myndast úr vökvanum mun sko meiða þennan andskota!”.. ugh, heimskulega vongóð tilraun. Á sama tíma þá hafði Perille kastað þögnunargaldri á T'Sial og hún var rokin af stað í átt að eldveggnum. Hún hljóp í gegnum eldvegginn, virtist ekki finna fyrir því og hélt áfram í átt að Waqounis. Waqounis flaug upp á þak áður en T'Sial náði til hans, en núna var enginn veggur á milli hans og okkar. T'Sial var búin að gefa okkur opnun. Waqounis byrjaði að kalla á aðra ófreskju en hún klifraði uppá þakið staðráðin í að fella kvikindið en hann var öflugri en við áttum von á. Waqounis sveiflaði eldstafnum sínum og T'Sial lá hreyfingalaus en ekki áður en hún náði að þagga galdur Waqounis. Úa, Aurum, Böðvar og uppvakningarnir héldu áfram að berjast við ófreskjuna og voru nú bara 3 af 7 uppvakningum enn standandi. Perille hvarf og birtist við T'Sial til þess græða hana á meðan að Waqounis flaug nær eldveggnum og kallaði á ófreskju sem leit út eins og froskur. Ég, Úa og Perille köstuðum öllu sem við gátum í Waqounis en það er eins og það var ekkert til staðar til að kasta á. Það virtist ekkert hafa áhrif á Waqounis sama hvað við gerðum. Ég sá Úu gefa Perille forvitnilega glaðan svip sem Perille skildi augljóslega eftir smá umhugsun. Perille tók upp seinustu reyksprengjuna og náði að festa hana við Waqounis! Grjót byrjaði að fljúga í Waquonis. Bamm. Fyrsta grjótið hitti! Waqounis var strax særður og reyndi að fljúga annað, en reykurinn elti. Búmm. Splaff. Waqounis var fallinn!

Ef Harald hefði ekki hitt í veggina þá hefðum við ekki getað þetta. Hvað ef Aurum hefði dáið! Við getum ekki alltaf verið svona heppin! Nöldraði Luiz með sjálfum sér. “Hæ!” Sagði Böðvar þegar hann sast við hliðina Luiz, Jörðin skalf svo mikið að Luiz þurfti að nota hendina til að liggja ekki killiflatur. Böðvar var mjög þreyttur en glaður á svipinn og mjög stoltur af afrekinu. “Hvað er að?” Spurði Böðvar, brosið búið að breytast í skeifu. “Við vorum bara heppin!”, sagði Luiz. “Við hefðum getað dáið! Hvað ef við lendum í jafn erfiðum bardaga og við erum ekki með Harald til þess að hálpa okkur. Það væri vonlaust”. Luiz leit á jörðina leiður á svipinn. Böðvar var mjög hissa á þessum viðbrögðum og leit forvitnilega á Luiz. “Ertu leiður afþví þú fékkst ekkert glansandi?” sagði Böðvar. Luiz hrökk upp, hann var að berjast við að ákveða sig hvort hann ætti að vera gáttaður eða reiður. “NEI!” öskraði Luiz á Böðvar og strunsaði í burtu. Böðvar leit á eftir honum brosandi út að eyrum, sáttur með afrek dagsins. Axarhöfn er okkar!


 

View
Fyrirmæli um Salfray-Akra og Larnsturn

Þið hafið í höndunum bókfell, innsiglað með vaxi og markað með tákni Somnablisar, þremur rúnum. Þá er önnur brúnin sviðin og það er undarlegur, súr fnykur af skinninu. Rithöndin er hárnákvæm en textinn er út um allar trissur og samhengislaus.

Þið þarna. Salfray-Akrar eiga sér langa og einstaklega leiðinlega sögu sem er ekki á nokkurn hátt áhugaverð. Hins vegar eru Vítisklettar skammt frá og þeir eru afar áhugaverðir og ég get ekki beðið eftir skýrslu um hvað er í gangi þær um þessar mundir. Vestan við eru Gjábarmar, sem eru morandi í orkum en stjórnandinn þar er Cranzer, viðustyggileg pungrotta og vont kykvendi sem á allt illt skilið og ég læt ekki bjóða mér þá fásinnu aftur að hann sé mér fremri í fróðleik um töfra, þvílíkt bull! Fyrir norðan er Hrókahreiður, mitt gamla heimili og helsta miðstöð menningar, fróðleiks og vitneskju í Norðrinu. Á Salfray-ökrum dvelst Larn ásamt einhverjum bændadurgum. Svæðið er óspennandi utan þess að búalýðurinn ræktar þar einhvern óskapnað sem er víst öndvegisráð gegn eitri. Larn er er annað hvort galdramaður eða alkemisti og væri forláta viðbót við lið okkar. Gerið hvað svo sem þarf til að sannfæra hann um að ganga í lið með okkur, hann hefur víst farið fram á aðstoð af einhverju tagi.

Somnablis

Yfirtöframaður Frelsishersins, stjórnandi fróðleiks- og gagnasafns Frelsishersins, alkemisti og lærlingur frá Sambrungsturni, lærisveinn Knastacs.

Með fylgir lítið bréf ritað með nettri rithönd sem virðist ekki oft vera notuð. Bréfið er þakið gullinbrúnum, stuttum hárum sem gera það augljóst hver ritarinn er.

Kæru vinir.

Vonandi hafið þið það gott. Við Hnoðri höfum það voða gott. Ég veit voða lítið um þennan Larn, en jurtin sem hann vinnur, Salfray-jurtin sem akrarnir heita eftir, er afar merk og verðmæt lækningajurt. Jafn góður samherji og Larn gæti verið, þá er ekki síður verðmætt að komast í jurtina. Jurtin er sérlega góð til að vernda gegn eitri og getur dregið úr áhrifum eða jafnvel drepið í eitri sem er í blóðinu.

Kærar kveðjur,

Dora Litharen

Með fylgir bókfell sem er kirfilega innsiglað á báðum endum með innsigli Gellor ættarinnar. Utan á það er ritað "Aðeins fyrir augu Larns". Það er augljóst að þetta er ritað af Polariu Gellor.

View
Sarresh Fyrirmæli

Þið hafið í höndunum snyrtilegt bókfell sem var lokað með vaxinnsigli. Rithöndin er fíngerð, falleg og hárnákvæm.

Skv. njósnum frá Hardwyn og útsendurum okkar eru þrjú svæði þar sem þarf að frelsa þræla eða ef það er ómögulegt, að koma þrælahöldurunum úr umferð. Syðst er vegur sem vagnalestir ferðast um og þar eru þrælar hlekkjaðir saman og teymdir með til að koma í veg fyrir örvadrífu frá Hardwyn. Hádrýsillinn Nerkasz mannaveiðari, sem mun vera meistaraskytta, sér um þessa grimmu iðju. Norðan við bæinn eru tvær námur. Önnur er grjótnáma, stórt og opið svæði á mörgum hæðum. Hádrýsillinn Rugarvan er þar með fjölmennu varðliði og þrælum. Hin er verðmæt koparnáma og það eru nokkrar gimsteinaæðar þar einnig. Hádrýsillinn Kelvreek stýrir þar og hann er í raun stjórnandi bæjarins. Hann er stórhættulegur, gífurlega sterkur og notar mikið sverð með miklum ofsa. Mér finnst verst að geta ekki tekið við höfði hans á silfurfati en læt tíðindi af dauða hans nægja.

Anna Huron

Inni í bókfellinu er örlítil orðsending með viðauka. Bréfið er á vönduðum pappír og rithöndin falleg.

Vinsamlegast gerið ykkar besta til að frelsa sem flesta þræla með sem minnstu mannfalli. Flestir þrælanna eru utan við bæinn í námunum eða á vegunum. Því miður er brot þeirra inni í bænum og það er lítið sem ekkert sem hægt er að gera fyrir þá nema bíða og vona en ef hinir eru frjálsir er von. Þakka ykkur kærlega fyrir þessa óeigingjörnu vinnu.

Andrea Kaisar

Þá fylgir með annað bókfell lokað með snærisspotta. Það er á krumpuðu skinni og það var byrjað að skrifa á aðra hliðina áður en eitthvað gerðist og ritarinn hefur hellt eða misst blek á bréfið. Ritarinn hefur hafið leik aftur á hinni hliðinni. Rithöndin er frekar gróf, óstöðug og textinn er morandi í villum.

Ástarpungar!

Þegarr þið hefið fellt (óljóst en klárlega fúkyrði) hárdýslanna sem stjóra yfir þrællunum þá er örrugt aðþað verði gjörð út sveitt af hárdýslum tilað veiða ukkur uppi. Þeir munu gjöra sitt besta til að dreba ukkur. Gjörrið svo vel að högga þá í þrjá partta. Og segja mömmum þeira fráþví. Þegar þrællarnir eru frelsir, þá munu herin gjöra árrás á bæin og frelsann.

Gang ukku vell.

Gaerolf Skjalldbrjótur af ætt Kezreg Ba'kum

View
Axarhöfn tekin, leiðin greið!
Fréttatilkynning #2

Frækileg herferð Frelsishersins til að endurheimta og frelsa Skjaldlöndin heldur áfram og stórum áfanga hefur verið náð!

Axarhöfn, leiðin inn í Skjaldlöndin úr suðri og besta hafnarlagið við Nyr Dyv, hefur lengi verið í höndum Hins Gamla og stýrt af brjálæðingnum Waqounis, lærlingi hins stórhættulega Vaynes.

Sérsveitir okkar undirbúðu jarðveginn rækilega til að gera okkur auðveldara fyrir að sigra bæinn:

- Brjálæðingurinn Waqounis iðkaði köllunargaldur og bæði kannaði og gerði tilraunir á vatnaskrímslum umhverfisins, orkunum til lítillar gleði. Öðru hvoru losnuðu þessar skepnur og gengu berserksgang í bænum. Sérsveitirnar lokkuðu til og hleyptu lausum skrímslum bæði í og utan við bænum.

- Klerkar Hins Gamla voguðu sér að safna saman hinum föllnu og særa upp sem hina lifandi dauðu. Þar sem ekki er hægt að hjálpa þeim að svo stöddu fór sérsveit og felldi stjórnandann og hleypti uppvakningahernum lausum á bæinn.

- Sérsveitirnar felldu nokkrar varðsveitir orkanna og ollu vandræðum í gæslu utan við bæinn.

- Sérsveitirnar felldu bæði Urugor, herforingja Kelbit orkanna á svæðinu, og H'ragathar, herforingja Jebli orkanna. Það var dýru verði keypt, einn sérsveitarmeðlimur féll fyrir hendi H'ragathars en á móti kom að fráfall höfðingjanna olli gríðarlega uppnámi í röðum orkanna.

Þar með var komið sóknarfæri. Herlið frá Alhaster kom ásamt tuttugu Riddurum hins Helga Skjaldar og gerði áhlaup á bæinn frá norðvestri. Lið orkanna var með sterkari stöðu en var vængbrotið og því reyndist tiltölulega lítið mál að sigra ómennin. Mannfall Frelsishersins var í lágmarki.

Það sem var þó veigameira var áhlaup sérsveitar úr suðri að setri Waqounisar. Gæsla í kring var í lágmarki en engu að síður hörð. Galdramaðurinn var annað mál, hann reyndist æði viðskotaillur og var nærri því að myrða stóran hluta árásarliðsins. Með kænsku og hugrekki tókst sérsveitinni með dyggri aðstoð stórskotaliðsins að ráða niðurlögum hins illa galdramanns.

Axarhöfn er frjáls og verið er að koma fyrir varanlegu setuliði og birgðastöðvum. Nú er öllu hægara um vik fyrir lið okkar til að athafna sig í Skjaldlöndunum og frelsa þau loks!

Meta: +150 Áhrif, +50 Skjaldlöndin, +10 Furyondy, +10 Urnst, +2 Ræningjaríkin, -15 Iuz

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.