Greyhawk - Norðið

Snælduhús Elíu
Fataverslun og Saumastofa

(Með fyrirvara um samþykki GMs)
Almennt:
Húsið sem T'Sial tók traustataki eftir að bærinn var hernuminn er í furðu góðu ásigkomulagi að utan. Og þó svo flest sem kalla mætti fémætt hafi verið fjarlægt, annaðhvort af upprunanlegum eigendum á flótta, eða orkum eða öðrum eftir að þau fóru, þá er merkilega mikið af fatnaði og saumadóti í lagi. 

Það er á tveimur megin hæðum, og það er niðurgrafinn kjallari. Að auki er lítið háaloft undir súð. Húsið er grannt en djúpt, hægra megin er þröngt húsasund, og stór vatns-safntunna undir þakrennu. Fyrir framan er skemmtilega litríkt viðarskilti sem á stendur 'Elia og Snældurnar', en það hefur fengið í sig töluvert af örvum og eina öxi, og jafnframt hefur verið skrapað af þannig að á annarri hliðinni stendur 'Elia og æl urnar'

Verslunin:

Útidyrnar eru úr þéttum við og upp hefur verið komið slagbrandi sem virðist ekki hluti af upprunanlegu uppstillingunni. Það er stór gluggi með rimlum sem þekur afganginn af framveggnum, og í gegnum hann má sjá útstillingargínur, en glerið hefur verið brotið. Einhver hefur þó byggt klaufalega hrákasmíð til að loka vindinn úti og þétt það með efnisströngum úr búðinni.

S1 er útstillingasvæði þar sem einfalt úrval af hversdagsfatnaði og saumavörum hefur einhvern tíma verið til sýnis, því hefur mestu verið hrúgað upp að einum veggnum, og á viðargólfinu er löngu þornaður blettur af dökku blóði, ásamt förum sem eru of dauf til að sjá hvert hafi legið. Þar er afgreiðsluborð með opnum og löngu tómum peningakistli, og undir afgreiðsluborðinu er (opinn) hleri sem einhver hefur tæmt, en það eina sem er þar eru bækur með bókhaldi verslunarinnar og frekar ógeðslegt uppþornað auga, sem virðist hafa verið úr manneskju. Það er Furðu mikið eftir af fötum og efni sem er ekki sérstaklega verðmætt, enda ekki þess eðlis að orkarnir hafi haft sérstakan áhuga á að hirða það.

S2 er vinnusvæði með nokkrum saumaborðum, þar eru snagar, þræðir og efnisstrangar og á gólfin eitthvað glingur eins og hnappar og nælur, en ekkert sem er sérstaklega litríkt eða fémætt.

S3 er baksvæði með öðru vinnuborði og hillum og kössum, þar sem í er að finna það sem eftir er af hráefni til fatavinnslu. Þar er stigi sem liggur upp, og undir honum annar og brattari sem liggur niður í kjallarann.

(Úr þessum svæðum sé ég fyrir mér að mætti safna saman í nokkur mismunandi fatasett, kannski í mesta lagi 1-2 þeirra eitthvað áberandi fallegt sökum skemmda og gripdeilda, það mætti líka safna í verkfærasett til klæðasaums (jafnvel masterwork ef maður leitaði vel og vissi hverju þyrfti að leita að, sem T'Sial kann þó ekki), og sennilega eitthvað af non-fancy hráefni í meiri saumaskap).

Kjallarinn:

Í kjallaranum er allt á rúi og stúi, þar eru tómar hillur sem einhvern tíma hafa geymt matarbirgðir, og raunar er enn örlítið eftir af þurrkuðu kjöti, krukkum af einhverju sem gætu verið sultur, og pokum af frekar illa skemmdum kartöflum. En það er ekki mikið. Þarna er líka frekar nýlegt lík af karlkyns orka sem blætt hefur út á gólfinu. Þetta er samt svæði sem hefur verið í rusli frá því áður en eigendur búðarinnar flúðu. Innst inni eru tvö herbergi, annað er fullt af skinnum og feldum af dýrum, flest þeirra mygluð, sennilega hefur átt að vinna þau frekar en ekki orðið úr því. Í hinu herberginu er lítið og fátæklegt rúm, undir litlum glugga. Þar eru nokkur fábrotin leikföng og föt sem gætu hafa tilheyrt dreng í kringum 8 ára. Hurðin er læst utanfrá með digri slá, og glugginn mattur. 

(Fyrir utan matinn fyrir þá sem eru desperate, og kannski skinnin, er ekkert nothæft þarna niðri, en mætti e.t.v. nota plássið í eitthvað)

Íbúðin:

 

A1 er eldhús og setustofa, þar er í horninu eldstæði undir reykháf, og matarborð ásamt nokkrum stólum. Þrátt fyrir að vera á rúi og stúi er samt ennþá einhver frekar heimilislegur andi yfir þessu rými. Í norðurhlutanum er hleri sem liggur upp á háaloftið.

A2 er svefnherbergi þar sem einhvern tíma hefur búið stúlka á táningsaldri, rúmið ber þess þó merki að eitthvað skelfilegt hafi gerst, þar sem það er brotið og gegnsósa af þornuðu blóði. Það er ýmislegt af smálegu dóti og fötum ennþá á víð og dreif um herbergið, eins og eftir annaðhvort slagsmál eða mjög örvæntingarfulla leit.

A3 er geymsla, þar er verkfærasett sem í vantar öll helstu verkfæri, en áður hefur það sennilega verið notað til viðhalds á húsinu. Þar er brotinn kústur, tuskur og skrúbbar, og stórt stykki af grófri sápu.

A4 er hjónaherbergi, með mjög fínu og góðu rúmi sem virðist þó hafa þolað ýmislegt, en er þó ennþá í lagi ef skipt er á því. Þarna eru tveir fataskápar, báðir tilheyra konum, en þær virðast hafa haft mjög mismunandi smekk. Þarna er líka saumavinnuborð, pappír og litir, en strigi og trönur sem voru þarna hafa verið mölvuð. Á rúminu liggja föt sem virðast hafa tilheyrt orka, mögulega kvenkyns, og þar er líka brotin steinöxi. Þarna hefur eitthvað gengið á, en engin lík eru sjáanleg. Þarna er líka snyrtiborð og vaskaskál.


(þarna er eitthvað prjál, hægt að safna saman í eldunargræjur í eldhúsinu og eitthvað af fötum úr herbergjunum, en ekkert sem væri fémætt nema með töluverðri vinnu, einhverjar matarbirgðir í eldhúsinu, en flestar virðast hafa komið frá orkum eða öðrum úr setuliðinu og er ekki kræsilegt)

Háaloftið
Uppi undir ráfri eru nokkur gömul koffort og kassar, en allt mjög rykfallið. Þarna er að finna eins og lítið virki úr gömlum teppum og skáp, þar er lík af ungum mennskum dreng, en hann hefur væntanlega falið sig þarna og á endanum dáið úr hungri. Á háaloftinu er líka hleri sem leiðir upp á þakið.

View
Orkar Norðursins

Orkar eru hin stóra ógn í Norðrinu. Þeir eru sterkir, miskunnarlausir og það er alþekkt að þeir berjist fram yfir þau mörk sem myndu fella aðra. Þeir fjölga sér gríðarlega hratt þar sem þeir lifa stutt og eignast mörg afkvæmi í einu – það er fullkomlega eðlilegt að orkakona beri fjórbura tvisvar á ári. Þeir eru kjötætur og hafa veiðieðli.

Þó hafa þeir ýmsar takmarkanir. Þeir eru andlega veikburða samanborið við aðrar mannlegar verur, eiga erfitt með að tileinka sér nýja hluti og tækni og eiga almennt afar erfit með töfranotkun.

Það er afar hættulegt að vanmeta þá. Hópur orka myndi ávallt sigra jafngildan hóp manna í hefðbundnum bardaga þar sem högg þeirra eru afar þung og í samanburði er afar erfitt að fella þá.

Tungumál þeirra er hart og einkennist af lokhljóðum og löngum sérhljóðum. Allt hljómar eins og ógnun og flest er það. Það er frekar erfitt fyrir flesta aðra að tala málið en það er fremur einfalt að læra að skilja það. Nokkrir frasar eru þess eðlis að allir kunna þá, sérstaklega viðskeitið-'tar sem er skeytt aftan við nöfn öflugra orka. Merking þess er erfið fyrir aðra en gróflega mætti segja að það sé blanda af 'drápari' og 'sigurvegari', enda er það nokkurn veginn það sama í augum orka. Sá sem hefur hlotið þennan titil er sérlega varasamur því þarf að vinna sér inn þessa viðbót.

Þegar talað er um orka Norðursins er yfirleitt talað um eftirfarandi ættflokka. Fleiri eru til og innan hvers ættflokks eru fjöldi minni hópa eða brota.

 

Kelbit: Kelbit flokkurinn er langfjölmennastur allra ættflokka Flanaess. Því ætti það ekki að koma á óvart að hugmyndir flestra um orka mótast af þeim. Þeir álíta sig vera hina útvöldu þjóð Iuzar og eru algjörlega hliðhollir Hinum Gamla. Þeir áttuðu sig fyrir löngu á kostum þess að blanda kyni og fyrir vikið eru bæði orogar og hálf-orkar algengari meðal þeirra en hinna ættflokkanna. Kelbit orkar fara stundum í ránsferðir til þess að ræna mannakonum sem þurfa að upplifa gríðarlegan hrylling eftir. Þeir þykja ívið hugaðri en aðrir orkar og eru líklegri til að berjast til síðasta blóðdropa en aðrir.

 

Urzun: Urzun orkar eru sterkari en gengur og gerist og dýrslegri í hegðun. Þeir þykja líka minni greindir. Þeir eru algengastir í kringum Ýlfurhæðir. Þeir hafa mikið dálæti á að brjóta bein og nota því barefli fram yfir önnur vopn. Þeir skera sig til að mynda ör og mála hvítar höfuðkúpur á andlit sín þegar þeir ætla sér að berjast. Þeir tilbiðja ekki allir Hinn Gamla - töluvert margir þeir tilbiðja sérstaklega dauðagoðið Yurtrus og klerkar hans eru gjarnir á að nota hina lifandi dauðu í bardögum. Hálf-orkar eru sjaldgæfir meðal Urzun orka, þeir hafa aldrei deilt löndum með mönnum og eru líklegri til að éta fanga en þvínga þá til undaneldis.

 

Jebli: Jebli orkar eru aðallega í og umhverfis Vesve skóg. Meðal þeirra finnast bestu bogmenn orka og spjótið er einkennisvopn þeirra. Þeir eru líklegri til að ráðast úr launsátri og ferðast laumulega en aðrir orkar. Þeir þykja minna hugaðir en margir aðrir orkar en það er varasamt að treysta á það, heigulskapur þeirra birtist gerir þá lævísa. Þeir hafa unun af að eyðileggja hluti og uppáhald þeirra er að pína og afskræma fórnarlömb sín. Það eru heilmiklar innbyrðis erjur meðal Jebli orka sem stundum hafa verið nýttar gegn þeim. Hlutfall blendinga er frekar lágt meðal þeirra.

 

Kazgund: Kazgund orkar eru greindari en aðrir orkar og að miklu leiti frábrugðnir frændum sínum. Til að mynda byggja þeir hús og báta og eru einu orkarnir sem er vitað til að sigli. Þeir búa til og nota gildrur og virðast almennt skipulagðari en aðrir orkar. Þeir eru engu minna grimmir hins vegar og ræna fólki til þrælkunar og undaneldis. Þeir eru nokkuð drambsamir og töluvert margir þeirra nota einkenni eða sambærilegan búnað til að merkja flokk sinn.

 

Uroz: Uroz ættflokkurinn, eða svartorkar, finnast aðallega í Hornlöndunum. Það er sagt að engir orkar séu sterkari. Þeir eru auðþekktir því húð þeirra er mun dekkri en annarra orka, svo dökkgræn að hún er nærri svört. Það er ekki út af engu sem þeir þykja hættulegastir allra orka – þeir eru afar grimmir og flýja aldrei. Þeir þurfa að berjast. Þegar þeir hafa enga andstæðinga leita þeir þá uppi og það hefur valdið miklum vandræðum í herjum Iuzar. Þeir eiga efitt með að hemja sig og ráðast oft á hádrýsla Hornlandanna sem þeir þurfa að deila landi með. Leiðtogar þeirra þurfa að vera sérlega af sér til að lifa lengur en nokkra mánuði.

 

Eiger: Eiger ættflokkurinn er lítill en skiptir töluverðu máli. Þeir dvelja í Hamarhæðum og hafa algjörlega hafnað Iuzi og tilbiðja sín fornu goð. Þeir gjörþekkja hinar stórgrýttu hæðir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur aldrei tekist að buga þá.

 

Dazark: Dazark ættflokkurinn er ekki fjölmennur en skiptir töluverðu máli. Þeir finnast í Fellreev skógi og eru í raun hirðingjar. Þeir fyrirlíta Uroz orka og reyna ávallt að drepa þá en forðast aðra nema þeir geti örugglega bugað þá. Þeir eru afar sérstakir í útliti, þeir klæðast eingöngu feldum, húð þeirra er dökk og grænbrún (afar gagnlegur felulitur) og þeir bera feiti í hár sitt sem þeir hnýta í langa og þykka fléttu. Þeir er afar færir að lifa af landinu og frekar trúræknir. Luthic er mikið tilbeðin meðal þeirra sem gæti skýrt hví konur þeirra hafa mun stærri sess en hjá nánast öllum öðrum orkum. Þeir kunna að nota umhverfið og jurtir skógarins. Loks hafa þeir eina sérstöðu - þeir rækta og temja skepnur sem kallast losel. Enginn veit hvort þessar furðuverur voru skapaðar af óðum töfranotanda eða eru hluti af undarlegri náttúru Arðar en þeir líkjast blendingum orka og bavíana.

View
Úa og Aurum
Dagur í görðunum

Aurum rak á eftir Úu, sem gekk eftir stórri breiðgötu í átt að görðunum. Björninn andvarpaði þegar Úa staldraði við bás þar sem áður hafði mátt finna ýmsan varning ættaðan frá fjalllendinu í Ratik. Hún beygði sig niður og tók upp silfurslegna leirskál, skreytta kubbslegum rúnum. Skálin var brotin og Úa leitaði að brotunum í ruslinu við básinn, en án árangurs. Aurum hristi höfuðið og settist. Þessi ganga eftir götunni hafði þegar tekið lengri tíma en hann hefði kosið og sú athygli sem hann vakti þarna á miðju strætinu fór í taugarnar á honum. 

"Sjáðu þetta, Aurum," sagði Úa. Rödd hennar var gróf en orðin ómþýð, næstum eins og þegar vindur leikur um stórar laufkrónur trjánna í neðri hlíðum Rakers fjalla. Hún rétti skálina að birninum. "Ég held að ég hafi séð svona dót áður. Manstu eftir flökkumanninum sem við fundum við hvíta fallvatnið? Hann var með svona. Hann jós vatni upp í sig með þessu. Ég held að hann hafi ekki kunnað að lepja vatn eins og á að gera."

Aurum skildi hrafl í máli drúíða en gólin og gjammið í mannfólkinu voru honum framandi. Hann hallaði undir flatt og rak trýnið síðan að skálinni. Hún angaði af berjum, kvenmannshöndum og ýrviðarrót. Björninn sleikti brúnina á skálinni. Bragðið var þungt og brann á tungunni. Svartber. Allir birnir í Ratik þekktu svartber og að þau bæri að forðast, enda einstaklega bragðvond og slæm í maga. Einhver hafði sett saman ýrviðarrót og svartber í skálinni. Aurum leit hugsi á Úu, sem enn hélt á skálinni. 

"Eigum við að halda áfram?" spurði hún og stakk skálinni ofan í pyngjuna sína. "Drífum okkur í garðana, ég held að okkar sé vænst þar." Úa rölti af stað.

Aurum sat enn um stund og leyfði bragðinu af berjunum liggja á tungunni. Hann hafði illan bifur á svartberjum og enn verra þótti honum að vita af því að einhver væri að nýta þau í einhverjar blöndur. Að lokum stóð hann á fætur og elti Úu. 

- – -

Þau settust í garðinum og nutu þess að vera innan um tré og blóm. Úu fannst óþægilegt að vera í þéttbýlinu og hún saknaði fjalllendis Ratik, hvar hún þekkti söng vindsins og vissi hvar var bestu hellana að finna. Hún beygði sig og tók upp litla steinvölu og velti henni milli handa sér. Hún naut þess að finna hvernig blábergið nam við fingurgóma hennar, hún fann mýktina í steininum, þrautseigjuna og þolinmæðina. Hún lagði völuna að vanganum og ímyndaði sér að hún lægi í helli heima, að hún fyndi hægan andardrátt fjallsins og Aurum hrjóta við hlið sér. Hún lokaði augum og gat næstum heyrt hroturnar í birninum. Hún andvarpaði, hve gott það væri að vera aftur heima, en ekki umkringd öllu þessu sérkennilega og ókunna fólki. Hún opnaði augun á ný og sá hvar Aurum lá við fætur sína og hraut. 

"Svona, vaknaðu, bjáninn þinn," sagði hún og skellti upp úr. Hún ýtti við Aurum með fætinum og strauk yfir kollinn á honum. Björninn opnaði augun og leit upp til hennar. "Komdu nú, við skulum finna þessa konu sem bíður eftir okkur."

Úa stakk steinvölunni í vasann, ákveðin í að setja hana í grjóthrúguna sem hún hafði hlaðið inni í litla herberginu þeirra Aurums og hún svaf á. Hún hafði valið hvern stein vandlega og látið sig engu skipta þó að einhver maður í málmbúningi hafi hótað henni öllu illu fyrir að hirða stein upp úr götuhleðslunni. Það var sérlega góður steinn. 

Aurum andvarpaði og reis hægt á fætur. 

"Láttu ekki svona, bollan þín! Ég er viss um að erkidrúíðinn eigi smá dreitil af hunangi."

Aurum sperrti eyrun og fylgdi í flýti á eftir Úu.

- – -

Aurum rankaði við sér. Hann hafði sofnað. Hann geispaði og leit í kringum sig.

Úa sat skammt frá og ræddi við einn af mönnunum sem hélt sig í garðinum og angaði alltaf af brómberjum. Hún hafði vanið komur hingað á daginn og ræddi við þá sem höfðu gert garðinn að heimili sínu. Á kvöldin leitaði hún ýmist uppi mennina í flokknum sem hún hafði verið sett í, eða fylgdist úr leyni með konunni með hvítu fléttuna æfa sig að sveifla og dansa í kringum stafinn sinn. 

"Hvernig veit ég hvort berin séu orðin rétt? Hvort Obad-hai hefur blessað þau?" spurði hún. 

Maðurinn hóstaði og þurrkaði blóð úr munnvikunum í ermina á kuflinum sínum. 

"Þú verður að borða þau," svaraði hann mæðulega og andvarpaði. 

"Borða þau!" hváði Úa. "En, ef þau eru súr?"

"Þá gefurðu þau bessa þínum þarna," svaraði brómberjamaðurinn og benti á Aurum. 

Aurum sperrti eyrun. Berin sem brómberjamaðurinn gaf honum daginn áður voru góð, ekki súr. Hann leit vongóður á Úu. 

"Og loka berin sárum?"

"Já, Úa, berin lækna. Þú finnur þau, kallar fram blessun Obad-Hai og þau lækna þá sem borða þau," svaraði brómberjamaðurinn, augljóslega orðinn frekar pirraður. 

"Það er frábært, finnst þér ekki?" svaraði Úa, algjörlega ómeðvituð um hve takmörkuð þolinmæði brómberjamannsins var orðin. Hún stakk tveimur berum upp í sig og tuggði þau. "Og mér líður núna miklu betur," hrópaði hún loks upp fyrir sig. "Hvað geturðu kennt mér meira?"

"Kennslunni er lokið í dag," svaraði maðurinn og stóð á fætur. Hann gekk á brott án þess að kveðja.

Úa leit á Aurum og brosti. 

"Finnst þér þetta ekki sniðugt? Ber sem geta læknað. Hversu oft hefði það nú komið sér að gagni heima?" sagði Úa og stóð á fætur. "Komdu, við skulum skoða hvað T'Sial er að gera."

View
Ket og Frelsisherinn

Ket er langt í suðri og vestri frá Norðrinu og við fyrstu sýn myndi maður ætla að það hefði litla merkingu fyrir Frelsisherinn eða baráttuna í Norðri. Staðan er allt önnur. Fyrrum leiðtogi ríkisins gerði samkomulag við Iuz sem hann notaði til að hefja innrás í nágrannaríkið Bissel. Mullahrnir (prestar) voru ekki hlynntir þessu og stór hluti herforingjanna ekki heldur. Hernámið skyldi eftir djúp sár í báðum ríkjum sem hafa ekki gróið.

Þá er staðan í Ket viðkvæm. Leiðtoginn deilir bæði við herinn og mullahna. Ríkið er gríðarmikilvægt fyrir verslun þar sem það er nær eina greiða leiðin til vesturveldanna. Þó Bissel sé aftur sjálfstætt þarf lítið að gerast til að hleypa öllu í bál og brennd að nýju og sögur herma að útsendarar Hins Gamla séu enn í landinu,

View
Auðnin og Frelsisherinn

Elstu mannvistarleifar Flanaess eru í Auðninni. Hirðingjarnir þar hafa verið þar lengur en sennilega nokkrar aðrar mannverur Flanaess. Þetta er ekki eiginlegt ríki, heldur samsafn ættflokka sem flestir starfa saman þegar þörf er á. Þjóðin hefur verið í hnignun lengi en ungur leiðtogi hefur valdið því að því að fólið er bjartsýnna en það hefur lengi verið. Þó er sótt að þeim af ómennum á sléttunni og mönnum frá Grossfort. Þá má ekki gleyma að Steinborg er alltaf ógn frá austri.

Ríkið er einangrað og afskekkt og þarf sárlega á samherjum að halda. Ef hægt er að styrkja ættflokkana og búa til landbrú yfir til Auðnarinnar má reikna með sterkum her reyndustu og bestu hestamanna Flanaess, auk hestanna sjálfra.

View
Skjaldlöndin og Frelsisherinn

Frelsisherinn á ekki viljugri samherja en Skjaldlöndin. Gallinn er að einungis brot þessa áður sterka ríkis er frjálst. Í suðvestri eru Critvellir og Scragholme eyja frjáls og Frelsisherinn er nýbúinn að hertaka Admundsvirki, þó eyjan sé ekki alveg laus við andstöðu.

Nærri allt landssvæði Skjaldlandanna er undir yfirráðum og kúgun herja Iuzar. Þeir fáu íbúar sem eftir lifa þurfa að rækta ofan í kúgara sína og þola daglegar hótanir, pyndingar og morð. Frelsað flóttafólk hefur sagt hræðilegar sögur af því að hafa séð ættingja og vini étna fyrir augum sínum eða myrta og svo vaktir upp sem uppvakningar til að halda áfram að sinna ökrunum.

Hátt hlutfall Frelsishersins eru Skjaldlendingar, þar með talinn leiðtogi hersins. Engir berjast harðar gegn Iuzi og herjum hans en Skjaldlendingar. Riddarar hins Skjaldar hafa sent hóp paladina til Admundsvirkis og Alhaster. Stuðningur við Frelsisherinn er nærri skilyrðislaus.

Það er yfirlýst markmið Frelsishersins að frelsa Skjaldlöndin. Það yrði ekki bara meiri háttar vandamál fyrir Iuz-veldið í hernaðarlegum skilningi heldur gríðarlegt áfall sem myndi senda sterk skilaboð til heimsins og stórauka stuðning við Frelsisherinn.

Skaldlöndin voru eitt sinn tákn um hroka og stolt, síðar um vanmátt gegn herjum Iuzar og Hyrndu Fylkingarinnar. Flestir hafa fyrirgefið dramb og hroka fyrrum leiðtoga ríkisins og nú gæti það orðið tákn um sigur hins góða gegn hinu illa.

View
Nyrond og Frelsisherinn

Nyrond er annað fjölmennasta ríki Flanaess, einungis Ahlissa er fjölmennari og Norðurveldið hefur afar svipaðan íbúafjölda. Ríkið er mikils metið víðs vegar um heim sem frjálst land með réttlæta og góða leiðtoga sem og íbúa. Nyrond þurfti hins vegar að upplifa sannkallaða vítisferð á stríðsárunum og eftir þau. Það var barist á öllum vígsstöðvum, gegn Iuz-herjum frá Norðri, Norðurveldinu frá austri, Ahlissu og Blóðrauða bræðralaginu frá suðri. Ríkiskassinn var algjörlega tæmdur, fólkið þurfti að þola gríðarlegt mannfall og hungursneyð og var lengi afar háð Urnst ríkjunum til að halda innviðum gangandi eftir stríðin. Það er eingöngu undanfarin ár sem Nyrond hefur náð að laga stöðuna og íbúarnir, háir sem lágir, upplifa von í fyrsta skipti í langan tíma.

Norðurveldið verður alltaf ógn og landamæragæslan er afar sterk. Ógn Iuzar var mjög lítil í samanburði við aðrar ógnir sem ríkið þurfti að þola á stríðsárunum og fáir hafa áhyggjur af atburðum í Norðri. Það gæti orðið mikið mál að sannfæra valdhafa um annað en ef það er hægt, þá er her Nyrond með fjölmennustu herjum heims þó hann sé enn nokkuð vængbrotinn eftir stríðin.

View
Perrenland og Frelsisherinn

Perrenlendingar hafa ávallt metið sjálfstæði sitt og hlutleysi ofar öllu. Þjóðin er þrjósk, þver og skiptir sér afar lítið af málefnum utan sinna landamæra.

Hins vegar er ástandið í ríkinu óvenjulegt um þessar mundir. Fyrrum formaður landsins gerði samkomulag við Iuz sem var vægast sagt illa liðið af Perrenlendingum og hann fékk sögukega slæma kosningu þar eftir. Nýja forkonan hefur reynst bitlaus og slakur leiðtogi sem þorir ekki að rugga bátnum. Það styttist í kosningar og nýr leiðtogi gæti skipt sköpum fyrir framtíð Norðursins.

Perrenlendingar skammast sín mikið fyrir þátt sinn í tilvist Iuzar. Móðir hans, nornin Iggwilv, er frá Perrenlandi og það er afar líklegt að Iuz hafi fæðst í þeirra löndum.

Ein helsta auðlind Perrenlands eru málaliðar og takist að ná samkomulagi við sterkari málaiðafélög Perrenlands væri það ómetanlegur stuðningur við baráttu í Norðri. Þó þarf að hafa í huga að það er meira en að segja það, þar sem lög Perrenlands banna málaliðum að hafa afskipti af milliríkjadeilum nema með undanþágu frá Kantónuþinginu.

View
Nýja heimilið
Og skrítna fólkið þar

T'Sial taldi sig hafa náð að fela ágætlega hve óróleg hún hefði verið allra fyrstu dagana í herbúðunum. Innan um hermenn af öllum mögulegum þjóðum, hafði hún haldið sig til hlés að mestu. Í leðurbrynjunni sem hún komst yfir og með spjótið tókst henni að falla sæmilega inn í hópinn, dökka húðin var svosem ekki svo algeng, en nægilega. Það var frekar hvítt hárið sem dró að henni athygli, þó hún hefði skorið af því mestu lengdina.

Eftir áhlaupið á virkið, sem hafði verið erfiðara en hún hafði ímyndað sér, blasti þó við að nú myndi hún þurfa að koma sér fyrir upp á nýtt og sennilega aðeins varanlegar í þetta sinnið. Núna myndi hún þurfa að umgangast fólk nánar og reglulegar en í herbúðunum og hún var ekki viss um að hún væri tilbúin til þess.

Hún var ekki villimaður, þó hún kæmi frá sléttunum, hún vissi hvað hús var, þó hún hefði hingað til bara búið í tjaldi. Tigris hirðingjarnir áttu hús, þau voru bara ekki mörg, og ekki endilega búið í þeim varanlega nema þau væru á sérstaklega mikilvægum stað.

Hún leit svo á að þar sem hún hefði staðið sig einstaklega vel í innrásinni á virkið, þá ætti hún sama rétt og hver sem er á að slá eign sinni á eitt af húsunum, mögulega myndi hún þurfa að láta undan ef einn af hershöfðingjunum hefði auga á sama bústað og hún, en hún gæti virt það, þeir höfðu líka staðið sig vel og án þeirra hefði þetta ekki gengið.

Eftir að jafna sig sæmilega eftir slagsmálin og eftir að fullvissa sig um að nýju vinir hennar væru amk. á lífi og á batavegi, fór hún ein og rölti eftir bænum. Hún hafði náð að grípa sér nýtt spjót af einum af birgðavögnunum, eftir það sem orka-foringinn braut, en fannst pínulítið skrítið að vera með nýtt spjót, úr ókunnuglegum viði og með einföldum en grimmilegum spjótsoddi, frekar en viðhafnarspjótinu sem hún hafði eytt löngum tíma í að kynnast og skreyta og venja sig við. En það myndi duga, allt það dót var bara viss hégómi…gagnlegur, en það sem skiptir máli í spjóti er að það sé beitt og langt, nógu sterkt til að þola smá fimleika og í sæmilega góðu jafnvægi.

Hún velti fyrir sér að eigna sér eitt af húsunum eins og virki eða varðstöð eða turn, en ákvað að sennilega myndu yfirstjórnendurnir vilja að þau væru nýtt sem fyrst aftur til að verja virkið gegn fyrri eigendum. Sama gilti um járnsmíðaverkstæði, sem hana langaði skyndilega að eignast, það væri spennandi að læra að smíða vopn, en hún vissi að það væri færni sem hún byggi ekki yfir og gæti ekki kennt sjálfri sér, frekar að leyfa öðrum að slá eign á það og fá þá kannski að fylgjast með.

Að endingu fann hún hús sem var frekar stæðilegt og vel smíðað, engar áberandi skemmdir, og fullt af litríkum fatnaði þar, sennilega hafi það verið fataverslun og saumaverkstæði með íbúð á efri hæðinni. Þó það virtist hafa verið yfirgefið í skyndi, fann hún engin áberandi verðmæti, en samt nóg af alls konar pjáldri sem var forvitnilegt og hún hafði ekki séð áður, og ýmis konar föt til að prófa, svo hún ákvað að byrja bara að koma sér fyrir þar.

Þó var að vera inni í húsi í langan tíma pínu skringilegt, svolítið eins og að vera inni í helli og þó hún vilji ekki hleypa fólki inn á sig, er einveran í slíku húsi þrúgandi. Hún upplifði sig því eirðarlausa. og sést oft á gangi bæði um virkið og herbúðirnar, fylgist með fólki vinna og virðist hafa áhuga á hinum ólíklegustu hlutum, frá gömlum skruddum og sögum, matargerð, smíðum og skemmtunum. Hún fylgist með vopnasmiðum og birgðastjórum smíða, hún fylgist með þegar Ontran biður til Procan af áhuga og þegar aðrir prestar stunda bænir á opinberum vettvangi fylgist hún með því líka. Hún hefur áhuga á störfum galdrafólksins, og seyðabruggaranna, en hefur ekki mannað sig upp í að tala við þau, eða fylgjast með þeim nema álengdar. Ef þeir sem hún fylgist með virðast taka eftir henni, eða virðast sem hún fari í taugarnar á þeim er hún snögg að hverfa. 

Reyndar segir hún almennt ekki mikið, nema þá helst við fólkið í kjarnahópnum sem hún barðist með. Hún myndi reyna að gefa sig á tal við Cedric foringja Rhenne fólksins, ef hann byði upp á það, en er ekki nægilega forvitin til að pressa á það ef hann vill það ekki. Hún telur að mögulega eigi hún einhvern andlegan skyldleika með vatnafólkinu, þó sléttan sé ekki sama og vatnið, en bæði þekki þau að vera á flakki.

Á morgnanna vaknar hún yfirleitt snemma og þrífur sig til, áður en hún tekur flóknar æfingar í dansi og spjótfimi á næsta bletti sem henni líst vel á, hvort sem það er torgið í bænum, grasflötur fyrir utan, eða þakið á nærliggjandi húsi.

Hún fylgir beinum skipunum hersins, en þess á milli virðist ekki líta fyllilega á sig sem hermann, meira eins og hún sé þarna af því hún sé tilbúin að hjálpa og taka þátt, en er ekki að eltast við það að fyrra bragði, hún virðist ekki hafa almennilegan skilning á 'hermennsku' sem einhverju aðskildu því að lifa lífinu.

Á kvöldin kemur hún oft á kránna þar sem bruggmeistarinn hefur opnað aftur, en drekkur lítið og talar minna, en fylgist með mannlífinu og virðist fyrst og fremst vera að venja sig við að vera innan um svona skrítið fólk, og að gera upp við sig hvort hún geti treyst því. Önnur kvöld er hún úti fyrir, kannski á virkisvegg, eða fyrir utan virkið, eða uppi á þakinu á nýja húsinu 'sínu' að teikna eða mála eitthvað.

Eftir því sem á líður fer hún þó að klæðast skrautlegar, eftir grams á nýja heimilinu og brosa oftar.

p.s. Ég fann svo góða mynd að ég ákvað að retconna hárlitinn, en hún er með hvítt hár með smá blágráu ívafi, hvort það er litað eða náttúrulegt eða afleiðing galdurs er ekki eitthvað sem hún hefur upplýst.

View
Uppbygging Admundsvirkis

Á þeim stutta tíma sem hefur liðið síðan Frelsisherinn tók yfir Admundsvirki hefur margt gerst. Það er búið að byggja varanlegt víddarhlið milli borgarinnar og Alhaster. Ronson leiðir stóra flokka í uppbyggingu og lagfæringum á heilu hverfunum og allan daginn heyrast hamarshögg.

Ronson er prestur Heilags Cuthberts og margir leita til hans þess vegna, en hann er umfram allt einn af leiðtogum Frelsishersins. Aðrir aðilar sem hafa komið sér fyrir í Admundsvirki henta betur til sálgæslu þó þeir séu afar ólíkir. Ontran Stormbiðill hefur hafið endurreisn á fornu musteri Procans og hann má ávallt finna á bryggjusporðinum þegar hvessir, þar sem hann æpir bænir sínar yfir vindinn. Margir óttast hann og goðið en blóta til hans fyrir góðu veðri eða siglingum. Stríðsklerkurinn Ferengar er óopinber leiðtogi Reyhu- og Gljúfrabúa í Frelsishernum. Áköll hans og fórnir til Hins Marga heyrast víða en hvaða myrku athafnir eru framkvæmdar á sama tíma er á huldu fyrir óviðkomandi en það er vel þekkt að blóðfórnir eiga sér stað. Margir í Admundsvirki tilbiðja Olidammara og Skuggaliljan er prestur hrappagoðsins. Hún er dularfull og sést aldrei án grímu. Loks er afar hátt hlutfall hersins frá Furyondy auk þess sem Skjaldlöndin hafa sent sérsveit Paladina. Mikið af þessu fólki tilbiður Heironeous og Solandus Lovrak er andlegur leiðtogi þeirra og tók þátt í frelsun Critvalla.

Stór hópur Rhennee fólks hefur komið sér fyrir á vatninu rétt utan við borgina og bundið saman báta sína í fljótandi þorp eins og þeirra er venja. Rhennee fólk er afar dult og hefur sama og engin samskipti við aðra á svæðinu. Aðeins skipstjóri þeirra, Cedric, ræðir við meðlimi hersins. Tortryggnin er mikil. Háværir orðrómar segja að ein af hinum kynngimögnuðu og rammgöldróttu seiðkonum Rhennee fólksins dvelji í bátaþorpinu en ef svo er, þá hefur það ekki verið staðfest.

Tveir fulltrúar launmorðingjaklíku Abbarra hafa komið í Admundsvirki og komið sér fyrir. Annars vegar eiturbruggarinn Dougal sem bruggar og selur eitur ásamt því að veita ráðgjöf um notkun þeirra. Flestir óttast þennan ógnvekjandi mann og hann hefur óþægilega nærveru. Hinn fulltrúinn er hálfálfurinn Lollobrigida. Hvað hún gerir er algjör ráðgáta en mörgum hefur brugðið við að líta upp á síðkvöldi og sjá hana sitjandi á þaki, brosandi sínu blíðasta.

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.