Greyhawk - Norðið

Dagatal Frelsisbaráttunnar
Áætlanagerð

17. í Þarfamánuði

Frelsisherinn kemur saman og leiðtogar hans lýsa áformum í grófum dráttum, þar sem fram koma mikilvægi þess að frelsa Skjaldlöndin, sætta stríðandi fylkingar í Tenh undir einhverjum sem geti beint þeim gegn Iuzi, og sameina uppreisnaröfl í Ræningjaríkjunum og fá þau með í baráttuna

View
Af ferðasögum, tilkynningum og tvískynnungi, seinni hluti.
...er oft máttugra en það sem er satt.

Fyrri hluti.

Myrk á svipin starði Perille á þessa fréttatilkynningu og velti henni fyrir sér. 

Hún hafði verið hluti af þessum 'ungu og bráðefnilegum fulltrúum' sem höfðu verið sendir af Polariu og Önnu Huron með launmorðingjanum Lollobrigidu til að 'hefna morðsins á Nestor' eins og tilkynningin hélt fram.

Það sem kom ekki fram í tilkynningunni var að Nestor var sprelllifandi þegar hópurinn kom að búðum hádrýslanna, en skorinn á háls þegar þau yfirgáfu þær.

Eftir á að hyggja kom raunverulegt markmið sendifararinnar Perille ekki vitund á óvart, það sendir enginn launmorðingja til vinna heiðarlegt verk, það að njósnameistarinn sýndi verkefninu áhuga gæti verið afsakanlegt en hún hálf skammaðist sín ennþá fyrir barnaskapinn í sér fyrir að hafa ekki áttað sig á því strax.

Þeim hafði verið sagt að sendiförin væri björgunarleiðangur, að féð væri ekki til sem hádrýslarnir færu fram á, svo þetta væri það eina sem væri í stöðunni. Að brjóta hann úr prísundinni undir stjórn Lollobrigidu því hún væri svo góð í að laumast og komast um óséð. En samt vorum við ekki undir stjórn Lollobrigidu, þó áttum við að hlýða Lollobrigidu, ekki það að Lollobrigida væri leiðtogi hópsins, Lollobrigida var bara svo reynd að það væri 'gott' ef við myndum hlýða á ráð hennar um skipulagningu árásarinnar.

Perille dró andann djúpt og rétti úr sér meðan hún kreppti hnefann ósjálfrátt þegar hún hugsaði til baka til fundarins með Polariu og Önnu.  Ósamræmið og asinn á öllu saman hefði átt að vera enn eitt merkið sem Perille hefði átt að taka eftir. Þau gátu ekki einu sinni sýnt sóma sinn í því að samræma sögur sínar áður en þau sendu hópinn út til að styðja við morð. Þau báru ekki einu sinni nógu mikla virðingu fyrir meðlimum sveitarinnar til að leggja sig fram við að ljúga á sannfærandi máta, heldur létu nægja hálfan sannleik og ósagðar lygar meðan þau bulluðu sitt á hvað um hvert markmiðið væri og hver stjórnaði förinni. Perille fannst hún vera svikin af Polariu, notuð af henni og útsendurum Abbarra til að sinna erindum þeirra. Það að njósnameistarinn hagaði sér svona var kannski skiljanlegt en þessi fréttatilkynning gerði ekkert nema ýta undir þessa tilfinningu.

Önnur merki voru jafn skýr. Þegar hópurinn komst yfir mýrina, steinsnar frá býlinu þar sem hádrýslarnir höfðu hreiðrað um sig, hafði Lollobrigida strax heimtað að hún fengi að fara fyrst. Hópurinn átti að bíða með að leggja til atlögu hátt í mínutu eftir að hún lagði af stað eða þá ef hávaði úr búðunum gæfi til kynna að hún hefði sést. Hópurinn setti sig strax á móti áætluninni, við vildum halda hópinn til að við gætum brugðist við sem hópur eins og við höfðum hingað til gert, en Lollobrigida nánast hunsaði allt mótlæti. Hún drakk seyði sem gerði hana ósýnilega og hélt ein inn meðan hópurinn taldi og beið.

Um það leiti sem tíminn var liðinn og hópurinn byrjaði að færa sig nær sveitabýlinu byrjaði Lollobrigida að berja á hádrýslunum. Hópurinn hraðaði sér eins og hann gat til að veita henni stuðning en bardaginn var langur og erfiður, fátt virtist ganga hópnum í vil. T'sial spratt fram, hreyfigeta hennar studd með töfrum en varð umkringd sig og var tvísýnt um afdrif hennar um tíma, Sonya færði sig nær, ásamt Luiz, til að veita henni stuðning en endaði með að ráðast á hádrýslana með boganum sínum frekar en sverði. Úa og Aurum fóru lengri leið að hópnum svo hópurinn var ekki bara tvístraður í tvo, heldur fjóra hluta um tíma. Perille hafði hraðað sér eins og hún gat og stutt T´sial með göldrum sem herjuðu á viljastyrk hádrýslanna en skipulag þeirra á móti óskipulagi hópsins gerði hópnum mjög erfitt fyrir. Ekki hjálpaði til að hádrýslarnir voru leiddir af mjög færum alkemista og hádrýsli sem bar skjöld, sem hann kunni svo sannalega að nota og var líkari vegg en skildi.

Baráttan var hörð en hópurinn hafði betur á endanum.

Það síðasta sem Perille mundi eftir, áður en hún vaknaði með drullu í andlitinu og Úu glottandi yfir sér, muldrandi um þennan 'föður fjallsins' enn einu sinni þó Perille ætti greinilega lækningaseyði að þakka að hafa verið vakinn aftur, var að hádrýsillinn með skjöldinn kastaði að henni spjóti. Perille man eftir að hafa litið upp frá því að lesa galdraþulu upp af bókferli og sá einhvern glampa bregða fyrir augum, skurðurinn á enni hennar bar skýrt vitni um hvar spjótið hafði lent. Til allra lukku hafði spjótið ekki brotið á henni höfuðkúpuna þó það hafði slegið hana út og valdið heljarinnar höfuðverk.

Þegar hún kom til var hópurinn að berjast við alkemistann, Perille lagði sitt til og skaut að honum sýruskoti. Hún hæfði hann að hliðanverðu í andlitið. Sýran var of mikil fyrir hádrýsilinn, en hann hneig niður af sársaukanum. Óp hádrýsilsins var skerandi og greypt í minningu Perillar þegar hann gafst upp, hrokinn í röddu hans vor svo mikill að hún gat ekki haldið aftur af sér að skjóta. Hann átti ekki grið skilin eftir framgang sinn.

Með falli alkemistans var bardaginn unninn en Lollobrigida var eins og andsetin, hún hljóp á eftir þeim sem lifðu enn og veitti enga miskun. Hróp hennar á hópinn að gera slíkt hið sama var hlýtt en með semingi. Í hamagangnum hvarf Lollobrigida um stund. Þegar ró sló á stóð hópurinn eftir með tvo fanga, einn fótgönguliða og alkemistann, sem var meðvitundarlaus en úr lífshættu, og fór þá hópurinn að líta inn í húsin.

Það var þarna sem Perille hafði mætt Lollobrigidu labbandi með blóðugt sverð út úr húsinu. Hún sagði Perille að hér væri ekkert að finna en þegar Perille gekk samt inn og sá Nestor í einu horninu, einu hreyfingarnar blóð sem ennþá lak ferskt frá hálsi hans og einstaka dauðakippur. Lollobrigida sagði að þetta væri fyrir bestu. Perille hafði ekki áttað sig strax á því hvað hefði gerst en óttaðist strax viðbrögð Polariu við þessari útkomu 'björgunarinnar' þegar hún lagði saman tvo og tvo.

Hún hefði betur haft áhyggjur af því hvort krákur borði orma. Hópurinn hafði látið uppi hávær mótmæli við því að vera send í sendiför með aðeins hluta af upplýsingunum. Engum virtist sérstaklega órótt um verknaðinn, það að vera notuð sem óupplýstir skósveinar strauk hópnum aftur á móti vitlaust. En Perille hafði skipað fyrir um að lík Nestors, ásamt tveimur föngum, væru tekin með aftur til Admundvirkis. Það var sá verknaður sem vakti helst skömm hjá Perille. Hversu vitlaus gat hún verið?

Anna Huron var ísköld, en æf, þegar hópurinn snéri aftur. Þau höfðu snúið aftur með sönnun um verknaðinn ásamt tveimur vitnum. 'Svo augljóst.' Eftir á að hyggja í það minnsta.

'Sem betur fer hentar þessi niðurstaða mér alveg ágætlega.' hugsaði Perille með sér og andvarpaði. Qvint ættin var gömul en ekki valdamikil innan Furyondy, í raun óttaleg peð þegar litið var á heildarmyndina. Þar ofan á var Furyondy varla að fara að senda herlið til Tenh, þeir voru of fjarlægir og uppteknir af ógnum á eheimahögum svo Abbarra var mun líklegra til að aðstoða rétmæt yfirvöld þar. Gegn gjaldi að vísu, en það myndi hjálpa ef ráðamenn Abbarra hugsuðu ekki til Perillar með kala.

Þar fyrir utan var það þess virði að ver í náðinni hjá Önnu ef Perille ætti að takast að Frelsishernum að því að frelsa Tenh. 

Eitt sem olli Perille nokkrum áhyggjum var aðkoma Polariu. Polaria var hvað líklegust til að styðja frelsun Tenh ef einhver var að fara að gera það, svo það að halda sér í góðum metum hjá henni var mikilvægara en strákhvolpur sem öllum var sama um, hugsaði Perille með sér, en hvort hún studdi þessa niðurstöpu var eithvað sem Perille efaðist stórlega um.

Perille vissi allt þetta en samt gat hún ekki hrist frá sér samviskubit vegna örlaga Nestors. Dauði hans var synd, og það að hún átti óbeinan þátt í honum vakti hjá henni ónotatilfinningu. Þó hún reyndi að berja þessar tilfinningar niður með rökum þá fylgdu þær henni síðan verkið var unnið.

Vinnan hjá Somnablis og kvöldlesturinn dró athygli frá beiskum hugsunum þegar hún sökkti sér í það, en það sem var gert var gert.

Hún hvessti augun einu sinni enn á tilkynninguna, fann reiðina kræla á sér aftur, og snéri sér heim á leið að nýju. Fólk mátti trúa því sem það vildi, þau voru fífl, rétt eins og fólk sem dýrkar guði án þess að gera sér grein fyrir því að það eru tilbiðjendurnir sem gefa goðunum mátt. Án trúar væru goðin ekkert. Það eru goðin sem ættu að verðlauna tilbiðjendur sína, ekki öfugt.

Perille hraðaði sér heim, einbeitt á svip, hún var með bók sem hún þurfti að lesa.

View
Drýslingar Norðursins
Drýslar, Hádrýslar, Bjarndrýslar og Norkar

Í Norðrinu eru ekki færri en hundrað þúsund vígfærir orkar og satt að segja veit enginn raunverulegan fjölda. Orkarnir eru burðarstykkið í herjum Iuzar og hans helsta ógn.

En þeir eru ekki einir.

Í Norðrinu eru einnig tugir þúsunda af drýslingum af ýmsu tagi, sérstaklega hádrýslum, og þá skyldi ekki vanmeta.

Afar góð leið til að móðga orka er að rugla þeim við hádrýsla og öfugt. Þessir kynþættir eiga ekkert sameiginlegt þó það sé hægt að ruglast á þeim fljótt á litið. Orkarnir eru skepnur sem þrá eyðileggingu og dráp umfram allt annað, þeir eru villtir og ana fram og er nokk sama um sitt líf eða nokkurs annars. Hádrýslar eru hins vegar afar agaðir, skipulagðir og vel færir um að læra og tileinka sér nýja hluti. Þeir leggja mikið upp úr þjálfun, ólíkt orkunum sem reiða á hrátt afl. Þá er vel þekkt að hádrýslar eru einkar færir að leynast og sagt er að ef þú sjáir hádrýsil sé nánast öruggt að tuttgu til leynist í kring.

Hádrýsill er svipað stór og maður en öllu þreknari. Þeir eru hraustari og fimari en menn. Hádrýslar eru loðnir, með mjög snöggan feld sem er nær alltaf í sama lit og húð þeirra, sem getur verið fölgrá, gulbrún eða rauðbrún. Þeir eru alltaf með aðeins þéttari feld á höku og kjálkum en karlarnir geta látið sér vaxa skegg. Hádrýslar hafa öllu lengri handleggi en menn. Þeir hafa rauð augu og þeir hafa afar smá hnappanef, eins og raunar allir drýslingar, sem oft eru samlit húð en eru ekki síður oft með bláleitum tón. Þá hafa þeir skögultennur sem rísa úr neðri kjálkum en þær eru ekki jafn stórar og áberandi og tennur orka.

Hádrýslar leggja áherslu á hernað og nærri allir leiðtogar þeirra eru stríðsmenn. Hádrýslar eru þarutþjálfaðir frá blautu barnsbeini og eru orðnir harðir af sér við kynþroska. Því má gera ráð fyrir að jafnvel óreyndasti hádrýsill á vígvellinum sé bardagamaður. Það er lagt kapp á að meta styrkleika allra efnilegra hádrýsla og þeir eru oft afar sérhæfðir í vígfimi sinni.

Hádrýslar mynda ættflokka sem oft sameinast í herlið. Búðir þeirra eru víggirtar. Það er misjafnt milli flokka hver sess kvenna er, það er nokkuð jafnt hvort þær hafa jafnan sess eða eru kúgaðar. Það er ekki sérlega mikill munur á körlum og konum hádrýsla, þær eru örlítið lægri, barmmeiri og feldurinn er örlítið frábrugðin en annars er erfitt fyrir óvana að þekkja kynin í sundur. Fjölmennasti flokkur hádrýsla í Norðrinu er hinn gríðarstóri Hargrak flokkur í Hornlöndum, sem inniheldur meira en 9000 vígfæra meðlimi. Þá er Gerregak flokkurinn sennilega næst stærstur, einnig í Hornlöndum og með um 4000 vígfæra meðlimi. Það eru ekki færri en 30.000 hádrýslar í Hornlöndunum.

Hádrýslar Norðursins eru mun færri en orkarnir, helsta miðstöð þeirra er í Hornlöndunum og þeir voru áður dyggir meðlimir Hyrndu Fylkingarinnar. Nú hlýða þeir, eins og orkarnir, boðum Iuzar en af allt öðrum ástæðum. Orkarnir tilbiðja Iuz og trúa heitt á málstað hans. Þeir þurfa enga hvatningu og lifa til að þjóna. Hádrýslarnir hlýða Iuzi vegna þess að þeir eygja von um landvinninga og auðlindir. Hádrýslar hafa takmarkaðan áhuga á annarri vinnu en hernaði og eru þrælahaldarar. Iuz hefur lofað þeim ótakmörkuðu magni af þrælum. Þeir sækjast einnig eftir öflugum leiðtogum og engir eru öflugri en hálfgoðið. Þá eru fylkingar hádrýsla í herjum Iuzar sem fá beinlínis greitt fyrir að vera í hernum. Orkum og hádrýslum semur alls ekki og erjur eru tíðar sem og víg. Báðir kynstofnar óttast Iuz og æðstu leiðtoga hans, sem er sennilega eina ástæða þess að ekki hefur komið til stríðs milli þeirra.

Drýslar eru hinir litlu, grimmu frændur hádrýslanna. Þeir eru mun minni, á stærð við hálfling, og hafa græna, gulgræna eða grágræna húð. Þeir eru hárlausir með öllu, hafa rauð augu, risavaxinn munn og hvassar tennur. Þeir eru einstaklega eigingjarnar verur og hafa þráhyggju fyrir eyðileggingu og eldi. Þeir eru frekar aumir og vitlausir en mjög fimir og slóttugir. Vígamenn þeirra eru ekki sérlega hættulegir en meðal þeirra finnast hrappar og launmorðingjar sem eru gríðarlega hættulegir.

Það hefur enginn nokkra minnstu hugmynd um fjölda drýsla. Þeir mynda ættflokka sem búa í hellum eða neðanjarðar og geta verið mjög fjölmennir en einungis brot þeirra eru vígfærir. Þeir hlýða ekki boðum nokkurs yfirboðara nema í undantekningartilfellum en þeir færustu hafa verið kallaðir til að þjóna Iuzi. Hvar sem hádrýlsar finnast má gera ráð fyrir að einhverjir drýslar fylgi með.

Bjarndrýslar eru stærstir drýslinga. Þeir eru mun hærri og breiðari um sig en menn en hoknir. Eins og aðrir drýslingar hafa þeir stór, útstæð eyru. Þeir eru kafloðnir með dökkan feld, jafnvel svartan og eru annað hvort með feld á öllum líkamanum eða með bera bletti í andliti. Þrátt fyrir stærð sína og styrk, þá eru þeir alveg jafn laumulegir og aðrir drýslingar og gera í raun mikið úr því að setja upp launsátur. Ólíkt hádrýslum, sem mynda stóra og agaða flokka, og drýslum, sem mynda lítil gengi og eru eigingjarnir, þá ferðast bjarndrýslar einir eða í örlitlum hópum og beinlínis gera í því að valda usla. Þeir eru mun fátíðari en bæði drýslar og hádrýslar og láta illa að stjórn. Fyrir vikið er ekkert sérlega mikið af þeim í liði Iuzar en töluvert af stökum einstaklingum eða litlum sveitum.

Loks er til fjórða gerð drýslinga, sem er fágætust þeirra allra - Norkar. Það er á huldu hvort þeir þróuðust út frá hádrýslum eða eru afsprengi töfra eða tilraunamennsku. Þeir eru afar líkir hádrýslum en hafa gífurlega þykka og harða húð sem hefur sömu áferð og steinn. Húð þeirra er í raun eins og brynja. Norkar eru minna greindir en hádrýslar og vanþróaðri en geta tileinkað sér nýja hluti og tækni furðuhratt. Flestir norkar nota vanþróuð steinvopn og klæðast engu nema lendaskýlum eða feldum en nokkrir meðal þeirra hafa verið teknir upp á arma hádrýslanna og eru þá þjálfaðir og fá góðan útbúnað sem gerir þá mun hættulegri.

View
Af ferðasögum, tilkynningum og tvískynnungi, fyrri hluti.
Það sem fólk trúir að sé satt...

Það var þungskýjað og pollar stráðu göturnar þegar Perille gekk um götur Admundsvirkis, eins og svo oft áður, með augun föst á steinunum sem lögðu strætið og hettuna vel yfir höfðinu, djúpt hugsi. Að þessu sinni þó var meiri asi í spori hennar en venja var fyrir á leið hennar frá vinnustofu Somnablis og heim.

Undir skikkju hennar strauk hún fingri um enn aðra bókina sem hún hafði tekið úr hirslum Somnablis. 'Ferðasaga Fjórdáns af Héraðshöfðum, hefti VII: Af Ís og Úlfum' hét þessi. Fjórdán hafði, að sögn, verið drykkfelldur aðalsmaður frá einhverju óþekktu ríki sem hafði verið sviptur tign fyrir að vera almennt óhæfur til að sjá um lönd sín og þegna. Sögur af honum lýstu honum sem illþenkjandi mannfrekju sem var það uppfullur af eigin ágæti að eina fólkið sem þoldi að vera í kringum hann var fólkið sem var á launum við það. Verandi landlaus og illa liðinn ferðaðist Fjórdán miklar vegalengdir þar til hann kafnaði i eigin ælu, einn og eignarlaus, í einhverri holu í Greyhawk borg. Eins fegin og Perille var að hafa engin persónuleg kynni af þessum manni var hún jafn fegin skáldinu sem hann hafði ráðið til sín. Skáldgreyið, einn Pendor Fín-Fjöður, hafði þurft að elta fylliraftinn á röndum í ferðalögum hans og rita svo ferðasöguna niður og binda hana í bók að henni lokinni, og þessi bók sagði söguna af því þegar Fjórdán hafði ferðast norður til að skoða Svartajökul, svæði sem Perille hafði sjálf ferðast til í leit sinni.

Svo skref Perillar voru hraðari en venjulega að þessu sinni og hún var meira utan við sig en hún var vön.

Það sem Perille kallaði heimili var húsið sem T'sial hafði söðlað um sig í, húsið var þó fullt af fólki. Sveitin sem hún hafði barist með daginn sem Freslisherinn tók Admundsvirki hafði nánast öll, ef ekki öll, hreiðrað um sig í þessari þriggja hæða fyrrum saumastofu. Perille var stundum ekki viss hver bjó þarna, það var alveg víst að hún, T'sial, Úa og Luis bjuggu þarna, en hún var ekki viss með Sonyu, nýju viðbótina í flokkinn, og Euler. Perille sá stundum til þeirra en fann sjaldan fyrir návist þeirra á heimilinu. Vistarverurnar sem Perille hafði fengið voru kannski ekki þær bestu sem í boði voru en hún hafði þær þó útaf fyrir sig og fékk, að mestu, að fá að vera í friði við rannsóknir sínar. Hún hafði komið sér upp litlu skrifborði til skrifta og góðum stól til lestrar, þar var eldstæði, gluggi til að lofta út og gott rúm. Heimilislífið var ekki sem verst, Perille lét hina vera og fékk að mestu að vera í friði sjálf. Erfiðast virtist vera að fá Dvergkonuna, Úu, til að skilja það að vera ekki að bera drullu upp á loft eða inn í hús. Merkilegt nokk þá virtist bjarnarhúnninn vera þrifalegri, hann sleikti allavega á sér loppurnar. Perille fann þó til einhverra tauga til Úu og hafði velt því fyrir sér hvort hún ætti að kenna Úu að lesa, lestrarkunnátta er grunnurinn að siðmenntun af nokkru tagi, sama hvaða ættfloki eða menningu menn tilheyra. Meira að segja Úlfa-hirðingjarnir þekktu þetta myndmál sem þeir kalla skrift innan ættflokka sinna en Úa virtist helst vera alin upp af dýrum. En lexíurnar hættu þegar Úa hafði rifið blaðsíðu úr bók, krumpað hana saman og stungið inn á sig. Hún hafði muldrað eitthvað um 'einangrun fyrir veðrum' en Perille hafði verið svo reið að hún hafði ekki reynt aftur, bækurnar sem hún var að safna höfðu allar tilgang, og mögulega leyndarmál.

Niðursokkin í eigin hugrenningar hrökk Perille við þegar hún klessti nánast á annan vegfaranda. Illa til hafðan mann, gegndrepa af rigningu dagsins. Perille starði illilega á manninn sem hafði orðið á vegi hennar og hélt störunni á honum þegar hann leit undan, skömmustulegur, muldraði 'Afsakið', hálfhneigði sig og flýtti sér leiðar sinnar. Horfandi á eftir honum setti Perille aðra höndina á bókina og hina á þurrkuðu álfahöndina sem hún hafði smurt með varðveitingarsmyrslinu til að koma í veg fyrir að hún færi að lykta. Gott, hvort tveggja var á sínum stað. 

Róleg yfir því að hún hafi ekki verið rænd snéri Perille aftur til að halda áfram heimförinni en snarstansaði þegar hún sá fréttatilkynninguna hangandi á vegg.

Hún las hana yfir einu sinni, og svo aftur. Að því búnu las hún hana í þriðja sinn til að vera viss að augu hennar væru ekki að svíkja hana.

'Flón,', hugsaði hún reiðilega. 'Það er verið að ljúga að ykkur!'.

Seinni hluti.

 

View
Leiðtogar Frelsishersins

Frelsisherinn samanstendur af afar fjölbreyttum og ólíkum einstaklingum sem allir hafa eitt markmið – að koma í veg fyrir Iuz steypi Norðrinu (ef ekki Flanaess í heild sinni) aftur í stríð. Þar með er í raun upptalið það sem meðlimir hersins eiga sameiginlegt.

Flestir meðlima hersins eru gott fólk en alls ekki allir. Margir vilja reglu og telja koma þurfi á varanlegu skipulagi eða nýju ríki sem kemur í veg fyrir stríðsbrölt ómenna Norðursins. Margir eru á öndverðum meiði og telja að sjálfstæði skipti mun meira og að frelsisbaráttan og andspyrnan sé fyrir öllu. Þá er ekki lítill hópur sem er slétt sama og vill bara tortíma liði Iuzar – hvað sem það kostar.

Það ætti því ekki að koma mikið á óvart að það er töluverð togstreita innan hersins og það er vandasamt verk að halda öllum fylkingum sáttum – hva' þá hindra ríg eða innbyrðis átök. Ýmsir hafa þurft að kingja stoltinu í þágu samheldni.

Það er í raun ótrúlegt hversu þungt farg hvílir á herðum leiðtoga hersins. Afar fáir vita af tilvist og enn færri taka hann alvarlega ennþá. Helstu leiðtogar hersins vinna baki brotnu.

Tamrin Soldat er leiðtogi hersins. Hann er fæddur Skjaldlendingur og lifði tímana þegar Skjaldlöndin töpuðust. Hann var í framvarðarsveitinni þegar Critvellir voru endurheimtir og missti nærri lífið. Hann missti vinstri höndina og hægra augað í áhlaupinu en það breytti honum á fleiri vegu. Tamrin getur ekki lengur notað skjöld en notar vinstri handlegginn þess í stað til að fipa og trufla andstæðinginn. Hann reiðir ekki lengur á styrk, heldur fimi og kænsku og það sama gildir um viðhorf hans. Tamrin telur að Frelsisherinn þurfi að gera snöggar leiftursóknir í litlum hópum, mynda bandalög og nota vitið fremur en hörku. Allir eru velkomnir svo lengi sem markmiðin eru þau sömu. Norðrið skal frelsað undan oki Hins Gamla.

Tamrin er hálf-fimmtugur, með grásprengt brúnt hár og yfirskegg. Tamrin rakar sig ekki oft. Það er augljóst að hann sé af Suloískum ættum þó hann sé útitekinn. Tamrin á glæsilegt sverð, Hrímtungu. Sagt er að hann sé einstaklega hugaður og óttalaus en einkunnarorð hans eru að það sé betra að flýja, sleikja sárin og undirbúa betri sókn en ana út í dauðann.

Illkvittnir einstaklingar segja að Ronson sé vinstri hönd Tamrins en þó brandarinn sé smekklaus, þá er hann ekki vitlaus. Ronson sinnir stærstum hluta af daglegri stjórn Frelsishersins og sérstaklega Admundsvirkis. Ronson er hraustlegur og sterkur maður með afar takmarkaða þolinmæði fyrir leti og tímasóun. Hann er einn af hattprestum Heilags Cuthberts og er ævinlega með ryðrauðan hattkúf á höfði. Eins og flestir hattprestar er hann mun meira en bara sálusorgari, heldur sinnir mörgum hlutverkum og hvetur alla til góðra verka. Hann er forláta smiður og ýmsum þykir undarlegt að sjá þegar hann notar kylfuna sína sem hamar, naglbít eða til ýmissa annarra verka. Honum hundleiðist þegar hann hefur ekkert að gera. Ronson er með frekar stuttan þráð, strangur og þver en hann er sanngjarn, réttsýnn og góður maður.

Sagt er að Ronson sé að vissu leiti samviska Frelsishersins og hann er helsti ráðgjafi Tamrins. Svo mikið er víst að miðað við hina leiðtoga hersins er viðmót hans til heildarmyndarinnar nokkuð frábrugðið. Ronson fyrirlítur Hinn Gamla og öll hans handbendi, rétt eins og goðið sem hann þjónar.

Ronson er Oeridískur, hár og kraftalega vaxinn. Það sést langar leiðir að hann hefur unnið alla ævi erfiðisvinnu. Ronson er með dökkt, rauðbrúnt hár og skegg, bláeygður, ævinlega með hatt og klæðist einföldum og praktískum fötum. Ronson forðast allan íburð og tilgerð.

Fyrir utan Tamrin og Ronson eru þrír aðrir meðlimir Frelsishersins sem mynda ráðið sem stýrir aðgerðum og stefnu hersins. Að auki stjórnar hvert þeirra sínum mikilvæga og sérhæfða armi.

Gaerolf Skjaldbrjótur er hóldvergur. Hann er mikill vígamaður og ekki minni drykkjurútur og hermt er að bæði efli hvort annað. Í það minnsta er hann ekki feiminn við að draga upp heljarinnar flösku í miðjum baradaga og sturta vel í sig, ásamt því að ausa formælingum yfir andstæðingana. Í Admundsvirki heldur hann til á kránni þegar hann er ekki að sinna skyldum eða steinsofandi – hrotur hans berast víða. Gaerolf stýrir sérsveitum Frelsishersins þegar þær taka að sér bardagaverkefni. Það er auðvelt að vanmeta eða taka Gaerolf ekki alvarlega og það væru mistök. Þó hann sé nánast alltaf vel í því er hann einnig þaulreyndur og slóttugur og æðisköst hans eru gríðarhættuleg.

Gaerolf er með brúna, veðurbarða húð, dökkbrúnt hár, mikið skegg og gráleit augu. Hann er vægast sagt hávær og ævinlega með vínbelgi eða flöskur á sér. Öxi hans er svaðalegt vopn.

Anna Huron er hálf-álfur. Hún er njósnameistari Frelsishersins og netið hennar stækkar á hverjum degi. Margt í hennar verkahring eru miður falleg verk til viðbótar við njósnir og upplýsingaöflun. Fjárkúgun, þjófnaður, launmorð og margt fleira af því tagi eru hlutir sem eru daglegt brauð í hennar heimi. Útsendarar hennar gætu verið hvar sem er og hún fréttir flest afar fljótt. Það sést hins vegar lítið til hennar sjálfrar – eða hvað? Hún er sjálf frábær njósnari og uppruni hennar er óþekktur með öllu meðal hina almennu hermanna. Hún stýrir sérsveitunum þegar þær eru sendar í viðkvæmari aðgerðir.

Anna er af kyni gráálfa. Hún er frekar há, tággrönn og með mjög ljóst hár. Hún er með fjólublá augu sem þykja einstaklega fögur. Hún talar lítið en skorinort og felur engan veginn hvað henni liggur á hjarta. Hún vinnur dag og nótt og það er nærri stanslaus umferð sendiboða og fugla inn í turninn hennar.

Somnablis frá Hrókahreiðri er sá leiðtogi Frelsishersins sem flestir meðlimir óttast. Hann var rekinn frá a.m.k. tveimur galdraskólum fyrir tilraunir sínar. Somnablis er allt í senn – öflugur galdramaður, sprengjuvargur og afar hæfur fræðimaður. Hann leiðir töfranotendur hersins en stýrir einnig bóka- og gagnasafninu og þrátt fyrir að vera talinn brjálaður er hann gríðargreindur og hefur sett upp stórkostlegt bókasafn. Somnablis er einn hinna afar fágætu einstaklinga sem sérhæfa í sprengjuskólanum og fórnar því töluverðri galdrafærni í skiptum fyrir að geta búið til sprengjur á svipaðan hátt og alkemistar. Þess utan stýrir Somnablis sérsveitunum þegar verk þeirra snúast um töfra, hvort sem það þarf að finna gripi eða fróðleik.

Somnablis er hreinræktaður Suel maður. Hann er náfölur, rauðhærður og þvengmjór. Hann man nærri aldrei eftir að nota augnhlífar svo augabrúnir hans eru yfirleitt ekki til staðar. Hann er oftast í þykkri olíusvuntu yfir kufli sínum og það veitir ekki af. Það er oft skrautlegur fnykur af klæðum hans vegna efnanna sem hann vinnur með en utan tilraunastofunnar er hann hreinlætisóður.

View
Sorg norðan við Admundsvirki, hefndum náð!
Fréttatilkynning #1

Á tilkynningartöflum og stöku götuhorni má finna eftirfarandi tilkynningu:

"15 dagur Þarfamánaðar, mánadagur.

Sorgartíðindi að norðan. Nestor Qvint fólskulega felldur af hádrýslum. Hugaður flokkur náði fram hefndum.

Á frídegi hinum 13. sl. hélt hinn ungi barónssonur til norðurs á villisvínaveiðar. Hann og föruneyti hans varð fyrir fólskulegri árás hádrýsla, sem er meðal hinnu síðustu sem enn halda til á eyjunni. Þeir kröfðust lausnargjalds, en njósnir hermdu að þeir hefðu þegar myrt hinn unga og bráðefnilega mann.

Sendur var flokkur til að veiða upp hina viðurstyggilegu morðingja og fjarlægja ógn þeirra frá eyjunni svo þeir gætu aldrei aftur skert hár af höfði saklausra samherja. Lollobrigida frá Abbarra var send með ungum og bráðefnilegum fulltrúum sem háðu harða baráttu en höfðu samt betur á endanum. Ekkert þeirra féll í valinn en óaldarlýðurinn er allur.

Qvint barón og föruneyti hans hefur dregið sig í hlé til að syrgja. Til að fylla í skarðið hefur huldustjórn Abbarra sent fleiri fulltrúa.

Lengi lifi minning hins unga lávarðar! Hafið hann í huga næst þegar þið sjáið til hádrýsla."

Meta: +10 Áhrif, -1 Furyondy, +3 Abbarra, +1 Ræningjaríkin.

View
Á eftir Hundrax Hálfmanni
Fyrsta sendiförin

Dagur reis kaldur og grár í Admundsvirki. Einhvers staðar gelti hundur og var fljótlega sagt að þegja. Eftir því sem birtan jókst fóru sífellt fleiri á ferli innan borgarmúranna. Ungur dökkhærður drengur hljóp á milli nokkurra húsa og bar skilaboð til nokkurra vel valinna aðila. Ekki leið á löngu þar til hann hafði lokið erindi sínu og sneri aftur til Feryons þursabana og tjáði rekkanum að þeir sem hann lét senda eftir myndu koma innan skamms. Hann fann koparmynt í leðurpyngju sem hékk í belti hans og kastaði henni til drengsins.

Eftir nokkra stund voru allir meðlimir flokks Feryons samankomnir við búðirnar. Af útliti þeirra að dæma var mislangt síðan þeir höfðu farið á fætur. Perille var enn að nudda stírur úr augum, T‘Sial enn móð eftir dansæfingu morgunsins og virtist bjarnarhúnninn Aruum sá eini sem var eins og hann átti að sér að vera. Þau söfnuðust saman fyrir miðjum garðinum, en ekkert þeirra virtist vita um hvað var að vera. Á meðan þau biðu þess að Feryon segði þeim hvað væri í gangi, ræddu þau saman í hálfum hljóðum um það sem hafði drifið á daga þeirra frá því að árásin á virkið var gerð. Úa rak þá augun í dökkklædda rauðhærða konu sem sat á hækjum sér við vegg þar skammt frá. Hún var leðurklædd og hékk stuttsverð í slíðri í belti hennar. Konan fylgdist grannt með flokknum.

„Hver er þetta?“ spurði Úa Luiz og benti á konuna.

Áður en hann náði að svara, hóf Feryon upp rödd sína.

„Góðan dag,“ sagði hann og leit yfir hópinn. „Við höfum fengið fyrsta verkefnið okkar.“ Hann þagnaði og lagaði strenginn á boganum sem hékk um öxl hans. Feryon þursabani bar nafn með rentu og af honum fór það orð að vera bæði sérlega illa við orka og þursa og eins einstaklega laginn við að fella slíkar verur. Örvamælir hans var fullur og við fætur hans var útroðinn bakpoki. Augun voru einbeitt og ekki fór á milli mála að alvaran var nú að taka við. „Við vorum að fá fregnir af því að hópur Jebli orka hefði setið fyrir herflokki okkar. Því miður höfum við ekkert heyrt frá flokknum og við óttumst hið versta. Sérstaklega þar sem Sadra liðsforingi fór fyrir flokknum. Sú fregn hefur auk þess heldur borist okkur að Hundrax hálfmaður hafi farið fyrir orkahópnum. “

T‘Sial og Perilla gripu báðar andann á lofti. Úa gerði slíkt hið sama skömmu síðar. Augu Aurums kviku til Úu og björninn dæsti.

Ástæðan fyrir viðbrögðum kvennanna var einföld. Jebli orkar voru þekktir fyrir að myrða karlkyns andstæðinga sína með grimmilegum hætti en konur nutu ekki slíkra gæða af þeirra hálfu. Þeirra biðu hvers kyns pyntingar, afskræmingar og aðrar pínslir. Líklega væru Sadra og konurnar í flokknum hennar enn á lífi en þeirra biðu hræðileg örlög, nema þeim yrði bjargað. Hundrax hálfmaður var auk þess þekktur vígaorki, grimmur og harðskeyttur.

„Við þurfum að finna hvar fyrirsátin fór fram og rekja slóð orkanna, með það fyrir augum að bjarga þeim sem enn eru að lífi,“ sagði Feryon alvarlegur á svip. „Gerið ykkur klár, við höldum héðan ekki síðar en um hádegisbil. Ég bíð ykkar við borgarhliðin með hesta.“

„En er skynsamlegt við förum? Ég meina, það vita allir hvernig Jebli fara með konur og við konur eru nú meirihluta í flokknum okkar,“ spurði T‘sial og leit á Perille, síðan á Úu sem brosti sínu breiðasta.

„Það er vissulega áhætta, en yfirmenn okkar eru tilbúnir að taka hana,“ svara Feryon. „Fleiri spurningar?“ Hann beið í örfá augnablik án þess að nokkur tæki til máls. „Fínt. Þá sjáumst við um hádegisbilið í borgarhliðunum.“

*

Eftir að flokkurinn hafði verslað lækningaseyði sem og eitur, svona ef í harðbakkann slægi, komu þau saman við borgarhliðin, þar sem Feryon beið þeirra með hesta. Um leið og T‘Sial sá hrossin var sem hún hefði séð draug, því hún varð skyndilega hljóð og vildi ekki koma nær klárunum.

„Megum við snerta hestana?“ spurði hún hljóð.

Luiz leit á hana, undrandi á svip.

Úa sem var í óða önn að losa hnakkinn af hestinum sínum, sneri sér að henni og var í þann mund að fara svara T‘Sial, þegar Perilla sagði:

„Já, ertu hrædd við hesta? Því ég get alveg teymt hestinn undir þér.“

T‘Sial hristi höfuðið.

„Nei, hrædd, nei, ekki hrædd,“ svaraði hún og færði sig varlega nær hrossinu. Eftir nokkrar tilraunir tókst henni loks að koma sér fyrir í hnakkinum.

„Eru þið að verða klár?“ spurði Feryon og sneri sér við í hnakknum. Augu hans leituðu yfir hópinn. „Við megum engan tíma missa.“ Hann flautaði hvellt. Fálki sem sat á mæni húss þar skammt frá svaraði og hóf sig til flugs. „Af stað, flokkur, af stað.“

Við það reið hann út um borgarhliðið og flokkurinn fylgdi í kjölfarið. Það var fyrst þá sem Úa tók eftir að rauðhærða konan sem hafði verið í garði búðanna var þarna með þeim. Úa rak hestinn sinn inn í lestina og Aurum skokkaði við hlið hennar.

„Það er eitthvað við þessa konu, Aurum,“ hvíslaði Úa á máli drúíða til bjarnarins. „Ég held að þú ættir að fylgjast vel með henni.“ Björninn svaraði engu en stökk hins vegar af stað á eftir gráleitu fiðrildi, sem honum tókst ekki að fanga þrátt fyrir margar heiðarlegar tilraunir.

Þau höfðu ekki riðið lengi þegar Aurum stóð skyndilega upp á afturfæturna og þefaði í allar áttir. Skyndilega tók hann á rás. Úa stökk af baki og elti húninn, þar til hún fann hann á kafi í drullupolli.

„Góð hugmynd, Aurum,“ sagði Úa og klappaði saman höndum. Hún lagðist á magann og renndi sér ofan í pollinn við hlið Aurums. Hún makaði leðju á hendur, andlit og í hár sitt, um leið og björninn velti sér upp úr pollinum.

Hinir meðlimir flokksins höfðu stoppað og fylgdust gáttuð með aðförunum. Þegar Úa varð þeirra vör stóð hún á fætur.

„Ykkur er velkomið að bera á ykkur líka,“ sagði hún glaðlega.

„Nei, takk, sama og þegið,“ svaraði Luiz og skellti upp úr. „Hvað ertu að spá?“

„Ég verð að minnsta kosti ekki bitin af flugum, en þið ráðið sjálf,“ sagði Úa og kom aftur upp á slóðann og settist aftur á bak.

„Það er svo flott á þér hárið svona,“ sagði T‘Sial, skaut augum að Perille og glotti.

„Er það? Takk,“ svaraði Úa og brosti innilega. Hún starði um stund á T‘Sial með aðdáun í augum.

„Mér finnst þú ógeðsleg,“ sagði rauðhærða konan ískaldri röddu um leið og hún reið framhjá Úu.

Úa urraði að henni. Síðan sneri hún sér að Aurum, sem sat enn brosandi út að eyrum í drullupollinum, brúnt vatn lak úr munnvikum hans.

„Hvað sagði ég? Áttir þú ekki að fylgjast með henni?“ spurði Úa og sneri upp á sig, um leið og hún rak hælana í lindar hestsins. 

Þegar hún var komin nokkuð á leið, dæsti Aurum og hristi sig. Hann leit til Luizar með órætt blik í augum en trítlaði svo af stað á eftir drúíðanum.

Feryon rak hópinn aftur af stað. Þau riðu það sem eftir lifði dags og þegar sól tók að setjast var ákveðið að slá upp búðum, enda ekki viturlegt að eltast við flokk orka í myrkri. Vöktum var skipt milli allra og eftir kvöldmat leið ekki á löngu þar til að hrotur tóku að berast frá búðunum, enda allir þreyttir eftir langan dag.

*

Næsti dagur átti eftir að reynast langur og afdrifaríkur. Eftir að flokkurinn hafði snætt fremur kaldan og ólystugan morgunverð var rætt hver næstu skref ættu að vera. Skammt undan var skóglendi þar sem orkarnir voru taldir halda sig og því betra að fara að öllu með gát. Sýndist sitt hverjum en Feryon hafði lokaorðið og ákvað að þau skyldu ríða lengra en hann ætlaði að senda fálkann sinn á undan hópnum, til að kanna hvort eitthvað sæist til orkanna. Þau voru þó ansi stirð eftir reiðtúr gærdagsins og flest áttu því erfitt með að finna góða stellingu í hnakknum, enda verkjaði þeim nærri um allan líkama.

Þau riðu af stað undir gráum, þungbúnum himni. Þó var veður stillt og Úa dró þá ályktun að líklega gæti ýmis gert þoku eða rignt á þau. Hún gekk vandlega frá svefnsteininum sínum í bakpokann sinn áður en þau héldu aftur af stað og áminnti Aurum um að fylgjast vel með rauðhærðu konunni.

Eftir nokkra stund sneri fálkinn aftur með blóðuga brjóstnælu.

„Fyrsta vísbendingin,“ sagði Feryon og rétti Perillu næluna, sem síðan lét hana ganga áfram. Feryon skipaði fálkanum að leiða þau þangað sem hann hafði fundið næluna. Þar fundu þau rústir vagns og augljós merki um átök. Eftir stutta rannsókn uppgötvaði flokkurinn að líklega hefðu orkar setið fyrir þeim sem voru með vagninn og af ummerkjum að dæma var ljóst að einhverjir höfðu verið dregnir á brott, inn í skógarþykknið skammt frá.

Áður en hópurinn náði að ákveða hvað ætti næst til bragðs að taka, réðst þurs fram úr skógarþykkninu. Nokkur kastspjót flugu einnig innan úr skóginum og hæfði eitt þeirra rauðhærðu konuna í öxlina, en hún hafði reynt að fela sig fyrir aftan vagninn. Feryon hrópaði samstundis skipanir til flokksins, sem reyndi að bregðast við fyrirsátinni.

Á meðan Feryon, Luiz, Perille og T‘Sial börðust við þursinn fór Úa að rauðhærðu konunni og gerði að sárum hennar. Hún makaði leðju í andlit konunnar og dró tákn fjalls í drulluna.

„Ó, Faðir fjallsins, lít með velþóknun á þetta barn þitt,“ bað hún um leið og hún reyndi að opna flösku með lækningaseyði, en gekk illa að losa tappann. Aurum missti þolinmæðina og beit tappann af. Úa hellti þá innihaldinu upp í rauðhærðu konuna. Sárið sem kastspjótið hafði skilið eftir sig lokaðist og rauðhærða konan opnaði augun.

Í þann mund tókst Feryon að fella þursinn, svo T‘Sial og Luiz gátu einbeitt sér að orkunum. T‘Sial kom dansandi framhjá Úu, rauðhærðu konunni og Perille, sem hafði slegist í hóp þeirra í skjóli fyrir aftan vagninn. T‘Sial lagði með langspjótinu sínu til orks sem var skammt frá þeim. Rauðhærða konan tók upp boga og skaut að orkanum, sem hafði dregið fram flösku. Örin small í flöskunni, svo hún sprakk. Flaskan innihélt eld alkemista, og kviknaði því samstundis í orkanum.

Úa ákvað að leika eftir T‘Sial og tók nokkur lítt æfð dansspor með spjótið sitt. Dansinn gekk ekki betur en svo að henni skrikaði fótur og þurfti að kasta spjótinu sínu, en það flaug víðs fjarri orkanum. Aurum hristi höfuðið og dæsti.

Feryon, með hjálp hinna hetjanna, tókst að fella einn ork og T‘Sial sá um þann sem logaði. Þau heyrðu hvar sá sem eftir lifði hljópst á brott.

Eftir að þau höfðu kastað mæðinni og drukkið nokkur lækningaseyði héldu þau förinni áfram. Þegar þau höfðu gengið nokkra stund og fylgt slóð orkans sem flúði komu þau að búðum orkanna, en þær samanstóðu af þremur tjöldum og einum bjálkakofa.

Rauðhærða konan, sem hafði loksins sagt hinum að hún héti Sonja, læddist nær ásamt Feryon og þau sáu að tveir orkar skemmtu sér við að pynta mann í búri milli tveggja tjalda. Þá voru tveir aðrir orkar á vakt og sinnti annar þeirra skyldu sinni ekki betur en svo, að hann lá sofandi fyrir framan eitt tjaldið.

Hópurinn læddist nær.

„Dragið fram vopn,“ hvíslaði Feryon. „Við ráðumst að þeim handan við bjálkakofann.“ Hann læddist nær og hópurinn fylgdi í kjölfarið.

Úa sá að aðstæður voru þannig að orkarnir gætu þannig umkringt þau og dró sig aðeins frá hópnum. Hún gróf hendurnar í jarðveginn í rjóðrinu þar sem búðirnar voru og hvíslaði nokkur orð á máli drúíða. Um leið óx grasið og vafðist um annan orkinn í búrinu.

Aurum fylgdi í humátt á eftir Úu en virkaði hálffúll yfir því að fá ekki að taka þátt í árás hinna á búðirnar.

Feryon leiddi hópinn gegn orkunum. Hann skaut nokkrum örvum að orkanum á vakt. Sonja hjó til hunds sem gætti bjálkakofans og Luiz drakk eitt af sérkennilegu seyðunum sínum. Perille fylgdi hópnum og sendi sýruskeyti í hundinn, um leið og T‘Sial dansaði með langspjótið sitt um vígvöllinn.

Úa hljóp að bakhlið bjálkakofans.

„Er einhver þarna?“ hrópaði hún og bankaði á bjálkana.

„Já, ég er hér. Færðu mér sverð og hleyptu mér út,“ svaraði ákveðin kvenmannsrödd.

Í þann mund barst mikið og ógurlegt öskur úr einu tjaldanna.

„Það er Hundrax,“ hvæsti Feryon milli samanbitinna tanna um leið og tjaldinu var svipt upp. Þar stóð hrikalegur vígamaður, vopnaður stórri öxi. Hann grýtti þrumustein í miðjan hóp Feryons, um leið og steinvalan lenti kvað við mikill hvellur. Sonja og T‘Sial gripu fyrir eyrun og heyrðu lítið annað en suð. Öðrum tókst að skýla sér undan galdrahvellinum.

Hundrax stökk inn í miðjan hópinn og hjó til Feryons. Hetjurnar lögðu hver á fætur annarri til Hundraxar. Luiz, sem var orðinn að heljarmenni fyrir sakir bruggs síns, reyndi að ýta Feryon til hliðar svo hann kæmist að óvininum. T‘Sial lagði til Hundrax með landspjótinu og Perille sendi sýruskeyti í hann, enda hafði Hundrax séð við feitiálögum hennar.

Eftir stutta en harða orrustu tókst hetjunum að fella Hundrax. Sadra liðsforingi þakkaði þeim fyrir björgunina og hið sama gerði maðurinn sem orkarnir voru að pynta í búrinu.

„Hver ert þú?“ spurði Feryon manninn.

„Ég heiti Radan Mort, prestur í reglu Hextors,“ svaraði Radan um leið og hann klæddi sig í svarta brynju.

„Ertu úr Admundsvirki?“ spurði Perille.

„Nei, ég kem frá Alhaster, en þar er ekki lengur vært að vera, enda staðurinn á hraði leið til helvítis,“ svaraði Radan og hrækti.

Aurum urraði og sneri sér undan Radan. Björninn gekk á brott og Úa fylgdi fordæmi hans.

Á meðan þau gengu aftur sem leið lá í gegnum skóginn og þangað sem hestarnir biðu þeirra ræddi Úa við björninn.

„Veistu, þau eru ekki alveg sem verst, þetta fólk. Fyrir utan þessu Sonju. Hún er ábyggilega með stein í rassinum.“

Björninn hnussaði og leit upp til drúíðans.

„Kannski verður þetta ekki svo slæmt, að koma úr fjöllunum. Sérstaklega ef við fáum af og til að yfirgefa virkið. Miklu betra að vera svona úti. Sofa á góðum steini við logandi eld. Ekki inni á gömlu og illa lyktandi grasi. Hugsaðu þér, sum þeirra sofa jafnvel undir eins konar húð. Geturðu ímyndað þér það? Hversu óþægilegt hlýtur það að vera. Af hverju ætli þau leggi þetta á sig? Og tókstu eftir, þau reyndu ekki einu sinni að verja sig fyrir flugunum?“

Úa hélt áfram að ræða við björninn á leiðinni í búðirnar, meðan hún hélt að enginn heyrði til þeirra. Aurum virtist hætta að gefa einræðu hennar gaum.

*

Næsta dag sneru þau aftur til Admundsvirkis, reynslunni ríkari. Eftir að þau höfðu fylgt Radan og Södru í búðirnar og gefið skýrslu til yfirmanna sinna kom hópurinn saman fyrir framan búðirnar. Eftir stuttar samræður sagði T‘Sial:

„Ef þið hafið enn ekki komið ykkur upp samastað, þá er ykkur velkomið að gera ykkur heimakomin hjá mér. Það er nóg pláss í húsinu sem ég fann.“

Úa klappaði saman höndum og brosti út að eyrum.

„Já, en gaman. Ég ætla að sækja steininn minn eins og skot.“

Hún hljóp í áttina að görðunum. Aurum drúpti höfði og andvarpaði. Síðan tölti hann á eftir drúíðanum.

View
Fyrstu dagarnir í Admundsvirki
Perille kemur sér fyrir

Ekki vitandi hvert annað hún ætti að fara eftir að orustan um Admundsvirki var unnin rataði Perille aftur í varðstöðina sem hún hafði tekið með sveitinni sem hún hafði verið send inn með og hreyðraði um sig þar. Daunninn af orkunum lá yfir allri varðstöðinni en Perille leið eins og hún væri dregin þangað aftur. Þó hún sé að Tehnískum aðalsætum og alin upp í lystisemdum þá hafa ferðalög síðustu ára kennt henni að komast af án hluta sem hún áður taldi sjálfsagða. Hún lét sér nægja illa lyktandi tjald til að breyða úr teppi og ábreiðu og kveikti upp eld í köldu eldstæði þar fyrir utan til hita og eldamensku.

Þegar nóttin sótti á hóf Perilla að ráfa um varðstöðina og gramsa í eigum orkana, mest var fúllt og illa viðhaldið, teppin rök og illa lyktandi, búnaðurinn ryðgaður og slitinn og myglaðar mataleyfar í pottum en allt átti það sameiginlegt að Perille hafði engann áhuga á því. Í einu horniunu var rekki undir berum himni sem dro athyggli hennar, þar héngu í böndum afhoggnar líkamsleifar mennskra vera ásamt kjöti af dýrum sem Periille kunni ekki skil á, fætur, hendur og innyfli, við nánari skoðun komst Perille að þeirri niðurstöðu að þetta væri matarbúr orkanna þar sem sumir líkamspartarnir voru greinilega makaðir með einhvjerjum jurtum og þetta hékk þarna til þerris. Nöguð og brotin bein úr mannlegum verum í bland við dýrabein studdu líka þessa kenningu. Perille gekk á milli þessara líkamsparta og skoðaði gaumgæfilega eins og dáleidd þar til hún sá fíngerða hendi, þornaða, með hring á baugfingri hangandi aftarlega á rekkanum. Hringurinn var grannt, silfurgert band með laufmynstri og einhverri áletran á tungumáli sem Perrille skildi ekki, en eftir að hafa starað á þetta í dágóða stund og velt fyrir sér afdrifum og sögu eiganda handarinnar dró hún fram hníf, skar hendina lausa og stakk henni inn á sig.

<meta />

Rjúkandi rústir og hrúgur af dauðum orkum og hádríslum stráðu göturnar fyrsta daginn eftir að herinn tók aftur Admunds virki. Perille ráfaði hljóðlát um göturnar og fylgdist með fólki vinna, lík voru dregin út úr húsum, hlaðið í stafla og brend, eldar voru slökktir í húsum og fólk hreynsaði út úr húsum. Fólkið sem Perille fylgdist með gekk ákveðið til verka, talandi sín á milli, en yfirbragðið á þeim var alvarlegt. Þegar hún sá að hún hafði dregið að sér athyggli snéri hún sér undan og héllt annað. Hún hafði ekki áhuga á samskiptum, en dauðinn sem fólkið vann við að hreynsa út úr virkinu heillaði hana.

Á einhverjum tímapunkti fann hún sig stadda á staðnum þar sem dverg konan, Úa, hafði fallið og nánast dáið í bardaganum um virkið. Hún stóð þar lengi og velti fyrir sér atburðarás bardagans, hvernig orkurinn hafði slegið hana niður, hvernig blóð hennar hafði flætt yfir steinana í götunni og hversu reið hún hafði verið orkinum sem sló hana niður, og hugsandi til þess fann hún að hún var ennþá reið orkinum þó hann væri nú dauður. Þessi reiði vakti hana til umhugsunar. Dauði var ekki eithvað sem var nýtt fyrir henni, hún hafði séð hann margoft í leit sinni að upplýsingum um Ur-Flan seyðskrattana og hún hafði séð hann heima í Tehn undir ofríki þeirra sem hersátu heimalandið en það var langt síðan hann hafði vakið hjá henni slíkar tilfinningar. Perille var ekki viss um að henni líkaði þessi tilfinning, kannski ætti hún að halda sig til hlés frá sveitinni.

Þegar rútína fór að kræla á sér í virkinu gaf Perille sig fram við Somnablis, sem lærður galdramaður hjálpar hún honum að halda utanum skruddur og skjöl, að flokka þau og finna ef upplýsinga úr þeim er þörf. Þar starfar hún með þeim Somnablis og Andreu þó hún hafi sín eigin markmið þar, en hún leitar en upplýsinga um Ur-Flan og grunar að einhverra vísbendinga gæti verið að finna í skruddunum hans Somnablis sem hún nýttir hvert tækifæri til að lesa úr.

Ásamt því að gefa sig fram við Somnablis þá hafði Perille líka fyrir því að klæða sig upp, setja um skart og smeigja hringnum með skjaldamerki fjölskyldu sinna á fingur sér áður en hún fór á fund Pelloriu Gellor. Hún kynnti sig fyrir henni með fullu nafni ættar, lands og borgar og var þægilega brugðið þegar hún fékk móttökur sem hæfðu tign hennar. Eftir að vera boðið til setu og veitinga áttu þær langt spjall um stöðu heimsmála sem leiddi af sér fliss yfir vínsopa og slúðri um sameiginlega vini og kunningja. Þó Perille hefði gengið í burtu frá lystisemdum fyrra lífs til að kynna sér forboðna þekkingu þá var það notarlegt að fá smjörþef af fyrri lífi og endurtóku þær þessa fundi all oft. Hvort vinátta sé tekin með þeim eða hvort önnur sé bara að umbera hina til að ná einhverju fram er erfitt að segja.

View
Luiz Grell í Admundsvirki

Luiz Grell hafði ekki búist við því að finnast stríð svona skemmtilegt. Hann hafði búist við því að finnast það áhugavert, en ekki skemmtilegt. Hann hélt hann yrði feginn eftir bardagann en hann varð bara eirðalaus, ráfandi um admundsvirki í leit að einhverju áhugaverðu.


 Somnablis var mjög áhugaverður náungi, fljúgandi og varpandi sprengjum í bardaganum. Það væri kannski áhugavert að spjalla við hann. Luiz rölti núna um virkið með meiri tilgang, þegar hann sá hálfálf sitja uppi á þaki og gat ekki sleppt því að rannsaka það frekar.
Þetta var fulltrúi launamorðingjaklíku Abbarra og með henni var annar fulltrúi sem var að brugga! Hann var að brugga! Dougal var að brugga, selja og fræða fólk um eitur og Luiz var hæstánægður að finna brugg aðstöðu og sameiginlegt áhugamál, eða svona næstum sama áhugamál. 
Dougal ákvað að leyfa Luiz að nota brugg aðstöðu sína með því skilyrði að Luiz hjálpi honum að búa til eitur. Dougal gat með þessu móti einbeitt sér meira að því að selja eitrið, eða einhverju öðru og Luiz fann sér eitthvað að gera. Hann hafði ekki mikinn áhuga á því að búa til eitur en það gæti verið mjög gott að læra að gera móteitur. Verst að það er erfitt að vita hvort móteitur virkar án þess að prófa það. 


Það væri kannski sniðugt að reyna að læra af græðurunum í virkinu, Margir særðust í bardaganum en græðararnir virtust mjög færir. Kannski er einhver hæfur alkemist græðari á svæðinu sem væri til í að kenna honum.
Luiz fann Doru Litharen, alkemist, drúid og stjórnanda græðara. Hún var mjög hjálpsöm en upptekin og gat ekki talað né kennt honum lengi í einu. Hann fór á hverjum degi til hennar í leit að vitneskju um lyf og læknisfræði, og í hvert sinn labbaði hann framhjá þeim sem slösuðust í bardaganum, hann skoðaði þá slösuðu mikið og leitaði að ummerkjum eiturs. Ef einn þeirra væri veikur eða slasaður vegna eiturs gæti hann prófað mótefnin sín. Hann fann engan í dag.
Kannski á morgun.

View
Snælduhús Elíu
Fataverslun og Saumastofa

(Með fyrirvara um samþykki GMs)
Almennt:
Húsið sem T'Sial tók traustataki eftir að bærinn var hernuminn er í furðu góðu ásigkomulagi að utan. Og þó svo flest sem kalla mætti fémætt hafi verið fjarlægt, annaðhvort af upprunanlegum eigendum á flótta, eða orkum eða öðrum eftir að þau fóru, þá er merkilega mikið af fatnaði og saumadóti í lagi. 

Það er á tveimur megin hæðum, og það er niðurgrafinn kjallari. Að auki er lítið háaloft undir súð. Húsið er grannt en djúpt, hægra megin er þröngt húsasund, og stór vatns-safntunna undir þakrennu. Fyrir framan er skemmtilega litríkt viðarskilti sem á stendur 'Elia og Snældurnar', en það hefur fengið í sig töluvert af örvum og eina öxi, og jafnframt hefur verið skrapað af þannig að á annarri hliðinni stendur 'Elia og æl urnar'

Verslunin:

Útidyrnar eru úr þéttum við og upp hefur verið komið slagbrandi sem virðist ekki hluti af upprunanlegu uppstillingunni. Það er stór gluggi með rimlum sem þekur afganginn af framveggnum, og í gegnum hann má sjá útstillingargínur, en glerið hefur verið brotið. Einhver hefur þó byggt klaufalega hrákasmíð til að loka vindinn úti og þétt það með efnisströngum úr búðinni.

S1 er útstillingasvæði þar sem einfalt úrval af hversdagsfatnaði og saumavörum hefur einhvern tíma verið til sýnis, því hefur mestu verið hrúgað upp að einum veggnum, og á viðargólfinu er löngu þornaður blettur af dökku blóði, ásamt förum sem eru of dauf til að sjá hvert hafi legið. Þar er afgreiðsluborð með opnum og löngu tómum peningakistli, og undir afgreiðsluborðinu er (opinn) hleri sem einhver hefur tæmt, en það eina sem er þar eru bækur með bókhaldi verslunarinnar og frekar ógeðslegt uppþornað auga, sem virðist hafa verið úr manneskju. Það er Furðu mikið eftir af fötum og efni sem er ekki sérstaklega verðmætt, enda ekki þess eðlis að orkarnir hafi haft sérstakan áhuga á að hirða það.

S2 er vinnusvæði með nokkrum saumaborðum, þar eru snagar, þræðir og efnisstrangar og á gólfin eitthvað glingur eins og hnappar og nælur, en ekkert sem er sérstaklega litríkt eða fémætt.

S3 er baksvæði með öðru vinnuborði og hillum og kössum, þar sem í er að finna það sem eftir er af hráefni til fatavinnslu. Þar er stigi sem liggur upp, og undir honum annar og brattari sem liggur niður í kjallarann.

(Úr þessum svæðum sé ég fyrir mér að mætti safna saman í nokkur mismunandi fatasett, kannski í mesta lagi 1-2 þeirra eitthvað áberandi fallegt sökum skemmda og gripdeilda, það mætti líka safna í verkfærasett til klæðasaums (jafnvel masterwork ef maður leitaði vel og vissi hverju þyrfti að leita að, sem T'Sial kann þó ekki), og sennilega eitthvað af non-fancy hráefni í meiri saumaskap).

Kjallarinn:

Í kjallaranum er allt á rúi og stúi, þar eru tómar hillur sem einhvern tíma hafa geymt matarbirgðir, og raunar er enn örlítið eftir af þurrkuðu kjöti, krukkum af einhverju sem gætu verið sultur, og pokum af frekar illa skemmdum kartöflum. En það er ekki mikið. Þarna er líka frekar nýlegt lík af karlkyns orka sem blætt hefur út á gólfinu. Þetta er samt svæði sem hefur verið í rusli frá því áður en eigendur búðarinnar flúðu. Innst inni eru tvö herbergi, annað er fullt af skinnum og feldum af dýrum, flest þeirra mygluð, sennilega hefur átt að vinna þau frekar en ekki orðið úr því. Í hinu herberginu er lítið og fátæklegt rúm, undir litlum glugga. Þar eru nokkur fábrotin leikföng og föt sem gætu hafa tilheyrt dreng í kringum 8 ára. Hurðin er læst utanfrá með digri slá, og glugginn mattur. 

(Fyrir utan matinn fyrir þá sem eru desperate, og kannski skinnin, er ekkert nothæft þarna niðri, en mætti e.t.v. nota plássið í eitthvað)

Íbúðin:

 

A1 er eldhús og setustofa, þar er í horninu eldstæði undir reykháf, og matarborð ásamt nokkrum stólum. Þrátt fyrir að vera á rúi og stúi er samt ennþá einhver frekar heimilislegur andi yfir þessu rými. Í norðurhlutanum er hleri sem liggur upp á háaloftið.

A2 er svefnherbergi þar sem einhvern tíma hefur búið stúlka á táningsaldri, rúmið ber þess þó merki að eitthvað skelfilegt hafi gerst, þar sem það er brotið og gegnsósa af þornuðu blóði. Það er ýmislegt af smálegu dóti og fötum ennþá á víð og dreif um herbergið, eins og eftir annaðhvort slagsmál eða mjög örvæntingarfulla leit.

A3 er geymsla, þar er verkfærasett sem í vantar öll helstu verkfæri, en áður hefur það sennilega verið notað til viðhalds á húsinu. Þar er brotinn kústur, tuskur og skrúbbar, og stórt stykki af grófri sápu.

A4 er hjónaherbergi, með mjög fínu og góðu rúmi sem virðist þó hafa þolað ýmislegt, en er þó ennþá í lagi ef skipt er á því. Þarna eru tveir fataskápar, báðir tilheyra konum, en þær virðast hafa haft mjög mismunandi smekk. Þarna er líka saumavinnuborð, pappír og litir, en strigi og trönur sem voru þarna hafa verið mölvuð. Á rúminu liggja föt sem virðast hafa tilheyrt orka, mögulega kvenkyns, og þar er líka brotin steinöxi. Þarna hefur eitthvað gengið á, en engin lík eru sjáanleg. Þarna er líka snyrtiborð og vaskaskál.


(þarna er eitthvað prjál, hægt að safna saman í eldunargræjur í eldhúsinu og eitthvað af fötum úr herbergjunum, en ekkert sem væri fémætt nema með töluverðri vinnu, einhverjar matarbirgðir í eldhúsinu, en flestar virðast hafa komið frá orkum eða öðrum úr setuliðinu og er ekki kræsilegt)

Háaloftið
Uppi undir ráfri eru nokkur gömul koffort og kassar, en allt mjög rykfallið. Þarna er að finna eins og lítið virki úr gömlum teppum og skáp, þar er lík af ungum mennskum dreng, en hann hefur væntanlega falið sig þarna og á endanum dáið úr hungri. Á háaloftinu er líka hleri sem leiðir upp á þakið.

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.