Greyhawk - Norðið

Fyrirmæli um Salfray-Akra og Larnsturn

Þið hafið í höndunum bókfell, innsiglað með vaxi og markað með tákni Somnablisar, þremur rúnum. Þá er önnur brúnin sviðin og það er undarlegur, súr fnykur af skinninu. Rithöndin er hárnákvæm en textinn er út um allar trissur og samhengislaus.

Þið þarna. Salfray-Akrar eiga sér langa og einstaklega leiðinlega sögu sem er ekki á nokkurn hátt áhugaverð. Hins vegar eru Vítisklettar skammt frá og þeir eru afar áhugaverðir og ég get ekki beðið eftir skýrslu um hvað er í gangi þær um þessar mundir. Vestan við eru Gjábarmar, sem eru morandi í orkum en stjórnandinn þar er Cranzer, viðustyggileg pungrotta og vont kykvendi sem á allt illt skilið og ég læt ekki bjóða mér þá fásinnu aftur að hann sé mér fremri í fróðleik um töfra, þvílíkt bull! Fyrir norðan er Hrókahreiður, mitt gamla heimili og helsta miðstöð menningar, fróðleiks og vitneskju í Norðrinu. Á Salfray-ökrum dvelst Larn ásamt einhverjum bændadurgum. Svæðið er óspennandi utan þess að búalýðurinn ræktar þar einhvern óskapnað sem er víst öndvegisráð gegn eitri. Larn er er annað hvort galdramaður eða alkemisti og væri forláta viðbót við lið okkar. Gerið hvað svo sem þarf til að sannfæra hann um að ganga í lið með okkur, hann hefur víst farið fram á aðstoð af einhverju tagi.

Somnablis

Yfirtöframaður Frelsishersins, stjórnandi fróðleiks- og gagnasafns Frelsishersins, alkemisti og lærlingur frá Sambrungsturni, lærisveinn Knastacs.

Með fylgir lítið bréf ritað með nettri rithönd sem virðist ekki oft vera notuð. Bréfið er þakið gullinbrúnum, stuttum hárum sem gera það augljóst hver ritarinn er.

Kæru vinir.

Vonandi hafið þið það gott. Við Hnoðri höfum það voða gott. Ég veit voða lítið um þennan Larn, en jurtin sem hann vinnur, Salfray-jurtin sem akrarnir heita eftir, er afar merk og verðmæt lækningajurt. Jafn góður samherji og Larn gæti verið, þá er ekki síður verðmætt að komast í jurtina. Jurtin er sérlega góð til að vernda gegn eitri og getur dregið úr áhrifum eða jafnvel drepið í eitri sem er í blóðinu.

Kærar kveðjur,

Dora Litharen

Með fylgir bókfell sem er kirfilega innsiglað á báðum endum með innsigli Gellor ættarinnar. Utan á það er ritað "Aðeins fyrir augu Larns". Það er augljóst að þetta er ritað af Polariu Gellor.

View
Sarresh Fyrirmæli

Þið hafið í höndunum snyrtilegt bókfell sem var lokað með vaxinnsigli. Rithöndin er fíngerð, falleg og hárnákvæm.

Skv. njósnum frá Hardwyn og útsendurum okkar eru þrjú svæði þar sem þarf að frelsa þræla eða ef það er ómögulegt, að koma þrælahöldurunum úr umferð. Syðst er vegur sem vagnalestir ferðast um og þar eru þrælar hlekkjaðir saman og teymdir með til að koma í veg fyrir örvadrífu frá Hardwyn. Hádrýsillinn Nerkasz mannaveiðari, sem mun vera meistaraskytta, sér um þessa grimmu iðju. Norðan við bæinn eru tvær námur. Önnur er grjótnáma, stórt og opið svæði á mörgum hæðum. Hádrýsillinn Rugarvan er þar með fjölmennu varðliði og þrælum. Hin er verðmæt koparnáma og það eru nokkrar gimsteinaæðar þar einnig. Hádrýsillinn Kelvreek stýrir þar og hann er í raun stjórnandi bæjarins. Hann er stórhættulegur, gífurlega sterkur og notar mikið sverð með miklum ofsa. Mér finnst verst að geta ekki tekið við höfði hans á silfurfati en læt tíðindi af dauða hans nægja.

Anna Huron

Inni í bókfellinu er örlítil orðsending með viðauka. Bréfið er á vönduðum pappír og rithöndin falleg.

Vinsamlegast gerið ykkar besta til að frelsa sem flesta þræla með sem minnstu mannfalli. Flestir þrælanna eru utan við bæinn í námunum eða á vegunum. Því miður er brot þeirra inni í bænum og það er lítið sem ekkert sem hægt er að gera fyrir þá nema bíða og vona en ef hinir eru frjálsir er von. Þakka ykkur kærlega fyrir þessa óeigingjörnu vinnu.

Andrea Kaisar

Þá fylgir með annað bókfell lokað með snærisspotta. Það er á krumpuðu skinni og það var byrjað að skrifa á aðra hliðina áður en eitthvað gerðist og ritarinn hefur hellt eða misst blek á bréfið. Ritarinn hefur hafið leik aftur á hinni hliðinni. Rithöndin er frekar gróf, óstöðug og textinn er morandi í villum.

Ástarpungar!

Þegarr þið hefið fellt (óljóst en klárlega fúkyrði) hárdýslanna sem stjóra yfir þrællunum þá er örrugt aðþað verði gjörð út sveitt af hárdýslum tilað veiða ukkur uppi. Þeir munu gjöra sitt besta til að dreba ukkur. Gjörrið svo vel að högga þá í þrjá partta. Og segja mömmum þeira fráþví. Þegar þrællarnir eru frelsir, þá munu herin gjöra árrás á bæin og frelsann.

Gang ukku vell.

Gaerolf Skjalldbrjótur af ætt Kezreg Ba'kum

View
Axarhöfn tekin, leiðin greið!
Fréttatilkynning #2

Frækileg herferð Frelsishersins til að endurheimta og frelsa Skjaldlöndin heldur áfram og stórum áfanga hefur verið náð!

Axarhöfn, leiðin inn í Skjaldlöndin úr suðri og besta hafnarlagið við Nyr Dyv, hefur lengi verið í höndum Hins Gamla og stýrt af brjálæðingnum Waqounis, lærlingi hins stórhættulega Vaynes.

Sérsveitir okkar undirbúðu jarðveginn rækilega til að gera okkur auðveldara fyrir að sigra bæinn:

- Brjálæðingurinn Waqounis iðkaði köllunargaldur og bæði kannaði og gerði tilraunir á vatnaskrímslum umhverfisins, orkunum til lítillar gleði. Öðru hvoru losnuðu þessar skepnur og gengu berserksgang í bænum. Sérsveitirnar lokkuðu til og hleyptu lausum skrímslum bæði í og utan við bænum.

- Klerkar Hins Gamla voguðu sér að safna saman hinum föllnu og særa upp sem hina lifandi dauðu. Þar sem ekki er hægt að hjálpa þeim að svo stöddu fór sérsveit og felldi stjórnandann og hleypti uppvakningahernum lausum á bæinn.

- Sérsveitirnar felldu nokkrar varðsveitir orkanna og ollu vandræðum í gæslu utan við bæinn.

- Sérsveitirnar felldu bæði Urugor, herforingja Kelbit orkanna á svæðinu, og H'ragathar, herforingja Jebli orkanna. Það var dýru verði keypt, einn sérsveitarmeðlimur féll fyrir hendi H'ragathars en á móti kom að fráfall höfðingjanna olli gríðarlega uppnámi í röðum orkanna.

Þar með var komið sóknarfæri. Herlið frá Alhaster kom ásamt tuttugu Riddurum hins Helga Skjaldar og gerði áhlaup á bæinn frá norðvestri. Lið orkanna var með sterkari stöðu en var vængbrotið og því reyndist tiltölulega lítið mál að sigra ómennin. Mannfall Frelsishersins var í lágmarki.

Það sem var þó veigameira var áhlaup sérsveitar úr suðri að setri Waqounisar. Gæsla í kring var í lágmarki en engu að síður hörð. Galdramaðurinn var annað mál, hann reyndist æði viðskotaillur og var nærri því að myrða stóran hluta árásarliðsins. Með kænsku og hugrekki tókst sérsveitinni með dyggri aðstoð stórskotaliðsins að ráða niðurlögum hins illa galdramanns.

Axarhöfn er frjáls og verið er að koma fyrir varanlegu setuliði og birgðastöðvum. Nú er öllu hægara um vik fyrir lið okkar til að athafna sig í Skjaldlöndunum og frelsa þau loks!

Meta: +150 Áhrif, +50 Skjaldlöndin, +10 Furyondy, +10 Urnst, +2 Ræningjaríkin, -15 Iuz

View
Klerkar Hins Gamla

Þó að herir hins gamla séu gríðarstórir, fullir af orkum, drýslingum, ómennum, þursum, risum og illum mönnum, þá er hið sanna afl í ríkjum Hins Gamla klerkarnir.

Æðstu herforingjar, ættflokkahöfðingjar og töfranotendur Hins Gamla þurfa oft að bugta sig og beygja fyrir klerkunum. Upp til hópa eru klerkar Hins Illa menn, jafnvel þó heitustu tilbiðjendur hans séu oftast orkar. Styrkur orka er líkamlegur, ekki andlegur.

Klerkar Hins Gamla nota umfram allt ótta og ógnun til að stjórna. Þrælar, menn, ómenni og jafnvel árar óttast klerkana ekki eingöngu vegna afls þeirra, heldur aðferða.

Efst í metorðastiganum eru tvær konur – Althea og Halga. Sú var tíð að æðstuklerkarnir voru þrír, en klerkurinn Patch féll í krossferðunum. Althea og Halga eru báðar í æðra Beinhjartanu og eru í raun stjórnendur ríkja og herja Iuzar, enda er dagleg stjórnun eitthvað sem hálfgoðið nennir einfaldlega ekki að skipta sér af nema honum finnist það nauðsynlegt.

Hátt settir klerkar Hins Illa eru afar öflugir einstaklingar sem geta hvenær sem er ekki bara ógnað með sínu eigin valdi, heldur hótað því að tíðindi af því sem þeim fellur illa muni berast til Dorakaa.

Klerkar sem eru nokkuð lægra í metorðastiganum eru í viðkvæmari stöðu - flestir óttast þá, réttilega, en þar sem faðmur þeirra nær ekki alla leið til Hins Gamla þurfa þeir frekar að reiða á æðri klerka og það er tæp staða. Það getur verið æði erfitt að vera í skuld við öflugri klerk og virðast veikur fyrir. Lægst settu klerkarnir hafa mikið vald yfir óbreyttum hermönnum og þrælum, en foringjar hlusta ekki á þá nema þeir þurfi.

Ótta- og ægivald klerkanna er lykillinn að því að skilja valdataflið í ríkjum Iuzar. Allir eru hræddir – ekki bara þegnar og þrælar, heldur klerkarnir líka. Mistök og klúður eru ekki liðin og refsingar eru harðar. Allir óttast þann næsta fyrir ofan í metorðastiganum. Þetta er ástæðan fyrir grimmdinni og ofsanum meðal klerka og herja Hins Gamla - ef andstæðingar eru stráfelldir eða híbýli þeirra gjörsamlega jöfnuð við jörðu minnka líkur á að einhverjir sleppi. Þar sem klerkarnir eru færri eða ítök Hins Gamla eru ekki jafn sterk af öðrum sökum, þá aukast verulega líkur á klofningi og innbyrðis deilum. Þar sem svo er, þá eru víg og svik algeng og þetta má vel sjá í Ræningjaríkjunum, sér í lagi eftir því sem lengra er farið í austur.

Klerkar

Klerkar Hins Gamla eru rotið og skemmt fólk. Rétt eins og gildir um goðið sjálft, þá eru morð, ofbeldi og þjáning kenniorð þeirra. Mannfórnir, pyndingar og svívirðingar (oft með hjálp ára) eru daglegt brauð. Þeir hafa tileinkað sér sérstaka töfra og muni sem eru blessaðir af goðinu og aðrir hafa ekki aðgang að. Dauðagaldur er í miklum metum meðal klerkanna og þó hálfgoðið sé ekki dauðagoð, þá er til sérstök fylking meðal þeirra sem hefur hlotið blessun til að vekja upp og stýra hinum lifandi dauðu.

Klerkarnir hafa aðgang að ýmsum bænum sem aðrir kunna ekki, til að mynda bæn sem framkallar hvassar og eitraðar klær á þeim og samherjum og einnig töfragripum, svo sem nákuflum, beinsprotum og hinum gríðarhættulegu svartnættisstöfum.

Meta: Klerkar Iuzar eru alltaf Chaotic Evil. Þeir hafa aðgang að Chaos, Destruction, Evil og Trickery Domainum, en viss hluti þeirra er með Undead Lord archetýpuna og eru þar af leiðandi með Death Domain en ekkert annað. Vopn Iuzar er Greatsword. Almennt eru klerkarnir ekki með Heavy Armor Proficiency en geta verið stórhættulegir vígamenn engu að síður.

View
Atlagan að Axarhöfn heldur áfram.
26. dagur Þarfamánaðar

Úrvinda eftir athafnir síðustu daga þrjóskaðist Perille samt við að halda uppteknum hætti og lesa sem mest öll kvöld. Það var erfitt að halda einbeitingu í kertaljósinu, sitjandi á kaldri jörðinni inni í þessu litla tjaldi þar sem Perille hafðist við en hún þrjóskaðist við. Hún hafði haft rétt fyrir sér, leyndardóma Ur-Flan seiðskrattanna var að finna í þessum ritum sem hún var að safna að sér, þessar teikningar sem könnuðir gerðu af veggmyndum og endurskriftir úr gömlum handritum geymdu mátt sem fáir utan við Perille vissu af, hvað þá trúðu á, en hún hafði uppskerið eftir erfiðið, hún hafði lært tvö Ur-orð. Samsetning orðanna var skrítin og óskiljanleg í samhengi við nútíma málýskur en einhvernvegin hafði hún náð að púsla þessu saman og fundið kraftinn þegar hún hafði mælt orðin. Það var inni í þessu tjaldi þar sem hún hafði verið svefni næst að tuldra eithvað við sjálfa sig, hokin yfir bók, þegar hún fann kraftinn seitla frá orðinu og hún hafði risið upp frá jörðu og svifið í smá stund. Sagt er að Ur-Flan seiðskrattarnir hafi verið illir dauðatöfranotendur. Perille hugsaði að svo mætti vel hafa verið, en þeir vissu hvað þeir sungu. Máttur var ekki ætlaður goðunum einum og ekki þeirra einna að veita, dauðlegir menn gátu vel tekið sér þennan mátt án þeirra. Eftir að hafa fundið þetta orð hafði hún glaðvaknað og stuttu síðar fundið annað sem lék eftir dáleiðandi mynstri í loftinu. Fílefld eftir þessar uppgötvanir gat hún ekki annað en að halda áfram að lesa, það var of mikið í húfi til að hún gæti leyft sér að gera það ekki.

Atburðir síðustu daga hjálpuðu heldur ekki til við að halda einbeitingu, þar var svo margt í gangi og svo margt sem þau höfðu aðhafst í og við Axarhöfn. Þar fyrir utan átti innrásin að hefjast fyrir alvöru í fyrramálið.

Það var þó helst tvennt sem sat í Perille. Fyrir það fyrsta hafði hún horft á sveitarmeðlim falla og deyja  fyrir sverði H'ragathars, foringja Jebli orkanna. Hún hafði ekki haft mikil samskipti við Miru og Max, en hún virtist skipta um nafn eftir því hverju hún klædist, hann…? Hún? Perille var ekki einu sinni viss hvors kyns hún var.. hann var? Perille dæsti og hristi hausinn þegar hún hugsaði til þess, þetta var kannski gott merki um hversu lítið hún þekkti viðkomandi. Þau höfðu farið í eina sendiför saman áður en þetta gerðist, þau höfðu smyglað einhverju krabbaferlíki inn í bæinn undir þeim formerkjum að Waqounis hefði pantað það frá þjófaklíkunni í Stoink. Til allrar lukku er Sonya frá téðri klíku svo það var ekki erfitt að ljúga til um uppruna hópsins sem mætti á Rhennee bátnum með ferlíkið. Þau fjögur, hún, Sonya, Mira-Max og Euler höfði tekið að sér hlutverk varðmanna úr þjófaklíkunni undir leiðsögn Sonyu og Mira-Max meðan Luiz og Úa höfðu verið dulbúin af Mira-Max sem burðarþrælar. Sendiförin gekk furðu snurðulaust fyrir sig þar sem þau komust nánast óáreitt með kassann inn í bæinn inn á skrifstofu klerks hins gamla, sá hafði heimtað gull eins og sönnum spilltum áhrifamanni sæmir og hópurinn hafði skilið hann eftir með krabbaskrímslið laust inni á skrifstofu hjá honum. Það að hraða sér sömu leið til baka var lítið mál, erfiðast var að hlaupa ekki svo til að forðast grunsemdir, en báturinn sigldi svo út í skjóli þoku sem Úa kallaði til.

Þá var það hitt sem sat í Perille, Úa. Þessi ómenntaði, illa gefni villidvergur hafði einhvern veginn gert tengingu milli þess að lesa og að vera illur! Hvernig greyið hafði komist að þessari niðurstöðu var alveg hafið yfir allann skilning Perillar. Jú, vissulega hafði Perille kallað til uppvakning frá undirheimavídd, en að halda því fram að það væri bara á færi illra manna var ekkert nema þvættingur. Þetta var einfaldur galdur sem virkaði á sama hátt og aðrir köllunar galdrar, sem Perille hafði sjálf séð Úu beita, en þegar Perille hafði reynt að útskýra það fyrir henni var eins og hún hefði bara hætt að hlusta og tuldraði bara eithvað um "ljótt" og "ógeðslegt" og "ekki gera þetta aftur" eins og það sem hún gerði blessuðum dýrunum sem hún kallaði til eithvað væri eitthvað betra. Það var ekki eins og dýrin sem hún kallaði til kæmu af fúsum og frjálsum vilja! Ekki var það heldur eins og Perille væri að særa upp sálir frá dauðum. Nei! Hún einfaldlega hafði kallað þau úr annarri vídd, rétt eins og Úa gerði sjálf. Þó Perille væri að kalla veru úr annari vídd en Úa hafði aðgang að þá gerði það ekki verknaðinn neitt verri en það sem hún gerði sjálf. Það að Úa skildi halda því fram að dýrin væru bara þarna í kring og kæmu hlaupandi þegar hún kallaði var náttúrlega bara bull og og vitleysa, eins og hundurinn sem hún væri að kalla til væri bara einhverstaðar þarna í skugganum að bíða færis alla tíð. Perille þótti það merkilegt, og enn eitt merki þess hvað sumir voru tilbúnir að trúa í blindni, að Úa tæki ekki eftir því að þetta sem hún kallaði til birtist bara upp úr engu og hlýddi henni í einu og öllu. Þessi dýr voru í huga Perillar greinilega úr annarri vídd þó þau líktu eftir útliti og hegðun samsvarandi dýra úr þessari vídd, það gat bara ekki annað verið.

Perille andvarpaði og reyndi að snúa athyglinni aftur að blaðsíðunum sem hún var að lesa. Hún mátti ekki láta þetta ná svona til sín. En þegar hún reyndi að halda lestrinum áfram gat hún ekki annað en hugsað aftur til Miru-Max.

Sendiförin var hættuleg, það vissi hópurinn fyrirfram. Njósnir hermdu að <meta />H’ragathar, leiðtogi Jebli orkanna,  væri fær spjótkastari og að hann ætti það til að kasta hnullungum á stærð við búa. Það var búið að finna út staðsetningu hanns og hópurinn fékk að skoða frekar nákvæma teikningu af aðsetri hanns og nærumhverfi þess, það var lagt á ráðin og hópurinn var tilbúinn. Þau fengu seyði sem varði þau gegn árásum frá örvum og öðrum skeytum og skiptu hópnum í þá sem mundu ráðast að honum og hina sem myndu reyna að halda honum uppteknum með örvahríð.  Allt gekk eins og lagt hafði verið á ráð um. Luiz og Euler skutu að honum örvum og sprengjum meðan Perille, Úa og Aurum, Sonya og Mira-Max unnu sig upp virkisvegginn og lögðu til H'ragathars. Mira-Max náði fyrst til hans, Perille hugsaði ekki mikið til þess að Mira-Max stóð ein við hann, hún hafði sannað getu sína í fyrri sendiför. Nema áður en aðrir náðu að komast í færi til að styðja hana þá rak H'ragathar hana á hol, reif sverðið svo aftur úr henni og hjó hana í herðar niður. Hún var látin áður en hún skall á stéttina. Hópurinn átti í mestu erfiðleikum með að fella H'ragathar án Miru en það hafðist þó á endanum. Hópurinn hafði þá vafið hana í klæði og borið hana heim að búðum. Perille fann sig aftur í þeirri stöðu að þurfa að færa rök fyrir því af hverju hópurinn ætti að burðast til baka með lík úr sendiför en henni fannst ástæðurnar vera þess virði að þessu sinni. Mira-Max átti það að lágmarki skilið að vera greftruð sómasamlega eftir framlag hennar til stríðsins, þar að auki velti Perille því fyrir sér hvort hún þyrfti endilega að hafa stigið sín síðustu skref í þessum heimi. Það var margt í rannsóknum hennar sem gaf til kynna að svo þyrfti ekki að vera.

Luiz hafði ákveðið að fara ekki með í næstu sendiför, þess í stað hafði verið sendur með riddari frá Furyondy sem Perille gat ómögulega munað hvað hét, einhver 'heilagri-en-þú' riddari sem gat ekki klárað heila setningu án þess að nefna Pelor á nafn. Einnig hafði fylgt með vígprestur frá Steinborg, Krista Ostrage. Það kom Perille á óvart að kona frá Steinborg bæri vopn og ákallaði annað goð annan en Erythnul en þegar hún komst að því að hún hefði strokið þaðan ung þá skildi hún málið betur. Kannski væri hún brúkhæf til að berja eitthvert vit í þetta feðraveldi steinhausanna sem réðu þar ríkjum. Perille hafði heyrt fátt heimskulegra en að banna konum aðgang að einhverjum störfum bara fyrir að vera konur, það að heil þjóð skildi takmarka getu sína sem samfélag við helminginn af samfélaginu var bara eithvað sem hún gat ekki skilið hvernig nokkrum gæti fundist góð hugmynd. 

Sendiförin sem slík var engu síður hættulegri en sú fyrri því þessi fól í sér að lokka Urugor, foringja Kelbit orkanna út úr bænum og drepa hann. Sá gekk um þungbrynjaður og var nógu fær vígamaður til að hafa hemil á hundruðum Kelbita. Til að ná Urugor út úr Axarhöfn hafði hópurinn setið fyrir einni varðsveit, fellt hana, stungið út annað augað og strengt upp til að líkja eftir fórn til Grumsh, æðsta orkagoðinu sem Urugor þoldi ekki, verandi heitur tilbiðjandi Hins Gamla. Eins og spáð hafði verið fyrir kom Urugor askvaðandi til að virða fyrir sér uppstillingu hópsins, sem lá í fyrirsát. Euler bakaði sér vandræði með því að losa ör af streng full snemma, en hann stóð einn nærri honum þegar hann ákvað að rjúfa launsátrið. Hópurinn hraðaði sér að honum með en hann veitti kröftuga mótspyrnu þrátt fyrir að vera afvopnaður strax í byrjun bardagans. Hann óð í gegnum og yfir mannskapinn, berjandi fólk niður eins og þyngd stærrstu hópameðlima væri engin. Þessi tækni hans dugði þó skammt en Perille átti lokahöggið á hann með sýruskvettu líkt og hafði gerst með tvo aðra mótherja.

Með falli beggja leiðtoga orkanna mat yfirstjónin sem svo að nú væri kjöraðstaða í Axarhöfn til að hefja innrásina fyrir alvöru og gera áhlaup á bæinn og fella Waqouinis. Atlagan hefst í fyrramálið.

Perille leggur frá sér bókina og reynir að festa svefn fyrir morgundaginn, hvíld var mikilvæg ef hún átti að hafa orku til að kasta göldrum og nýta hæfileika sína, en hún átti erfit með að festa svefn vegna vangavelta um það hvort Mira-Max þyrfti endilega að hafa tekið sín síðustu skref í þessum heimi.

View
Dagur 2 í Axarhöfn: Dauðinn gengur laus
20. dagur Þarfamánaðar

Síða dags 19. dags þarfamánaðar þykist sérsveitin frækna nokkuð viss um að hafa búið svo um hnútana að Jelbi orkarnir virtust hafa verið drepnir af einhvers konar sýru-tengdu óargadýri. Sennilega kölluðu fram af Waqounis. Og vissulega höfðu þeir slegist við slíkt skrímsli, en þau höfðu líka fjarlægt sönnunargögn og brennt með sýru þar sem örvar þeirra eða spjót höfðu gert orkunum miska, og að endingu voru þau þess fullviss að vettvangs-rannsóknardeild orkahersins, væri hún til staðar, myndi ekki sjá í gegnum þessa blekkingu, hvað þá aðrir.

Þau voru þó nokkuð ráðvilt, þar sem upp rann fyrir þeim að þó svo þau vissu að næstu markmið væru að koma fyrir beitu til að lokka vatnaskrímsli í árás á bæinn, og hleypa út uppvakningum og drepa meistara þeirra, áður en farið væri með dularfullan pakka til Waqounis, en þau uppgötvuðu skyndilega að í flýti sínum að koma sér af stað hafði þeim láðst að grennslast fyrir um það nákvæmlega hvar uppvakningarnir væru, eða staðurinn sem þau ættu að koma beitunni fyrir. Þegar þau fóru að íhuga þetta áttuðu þau sig á því að auki að ekkert þeirra hafði munað eftir að taka beituna með.

Enginn hafði átt von á því að Úa eða Aurum myndu muna eftir þessu, en Perille, Sonya, Luis og T'Sial vory nokkuð kindarleg þegar þau viðurkenndu hvert fyrir öðru að þau hefðu öll haldið að eitthvert hinna væri með þetta á hreinu.

Með ekkert betra að gera ákváðu þau að kanna afganginn af svæðinu í kringum bæinn og fóru á leiðinni eins með annan hóp af orkum. Þar tókst þeim þó að drepa orkana of snemma og valda því að slímskrímslið missti áhuga á þeim og sneri sér að hópnum sjálfum, en það var þó stórslysalaust.

Þau gengu líka fram á stóreflis orka, sem hafði sennilega ellt þau uppi, en þar sem hann var orki einsamall tókst þeim einnig að ráða niðurlögum hans og földu líkið svo vandlega, þar sem þeim þótti útbúnaður hans of freistandi til að skilja eftir.

Þau komust aftur að lendingarsvæðinu og ákváðu að best væri að bíða liðsauka, svo þau settu upp búðir í rjóðri sem var í ágætis vari frá bænum.

Daginn eftir afgangur framvarðasveitanna og bættust í búðirnar.  Ásamt Gorobnar liðþjálfa.

Þeim var ekki skemmt af því hvað hópurinn hafði gleymt að kanna stöðu mála, en þar sem þau höfðu þó náð að ganga siðsamlega frá orkunum var ákveðið að gera ekki mikið mál úr því og Gorobnar gat að minnsta kosti sagt þeim upp og ofan frá legu landsins og hvar markmiðin væru staðsett.

Það varð þó úr að þau sem voru send áfram að klára verkefnið voru að mestu aðrir sérsveitarmenn, sem töldu sig hafa nærtækari hæfileika til málanna að leggja.

Luis og Euler ákváðu þó að koma með í för, en með þeim voru risavaxinn hálfþurs að nafni Böðvar, undarlegur og nokkuð fjarrænn maður að nafni Carel, Cormack, sem hafði enn minna um sjálfan sig að segja, en var augljóslega með skörp augu og snögg viðbrögð, og Max, sem sagðist ætla að koma með því hann gæti svo augljóslega þóst vera orki og talað þeirra máli, en hann var með stórt sverð á bakinu og annars mjög týpískan orka-útbúnað.

Þegar átti að ferðbúast stóð hópurinn þó nokkuð lengi og horfði vandræðalega á Böðvar hinn risavaxna, sem horfði vandræðalega á þau hin til baka. Þau reyndu að koma því til skila að þetta þyrfti að vera leyniför og kannski þyrftu þau að geta læðst sæmilega og komist óséð um. Böðvar kinkaði kolli vingjarnlega og sagðist skilja það vel, en hann væri góður að læðast og ef þau vildu gæti hann hæglega haldið á þeim sem ekki treystu sér til þess, þar sem hann væri svo stór og sterkur.

Þau ákváðu að lokum að Max, Böðvar og Carel myndu einfaldlega labba með krabba-beituna upp að búðum orkanna við austurvegginn þar sem áin streymdi út, enda gætu þeir allir hæglega blandast í hópinn án þess að þurfa beinlínis að læðast, en Max var í sínu fínasta orka-pússi og virtist stundum gleyma því sjálfur að hann væri ekki orka-stríðsmaður í liði Iuzar og Carel gat búið til sjónhverfingu utan um sig sem gerði hann ekki minna sannfærandi orka. Böðvari væri hins vegar óhætt að vera hann sjálfur. Hinir í hópnum myndu læðast utar framhjá bænum og svo myndu þau öll hittast fyrir norðan, þar sem þau myndu notfæra sér skarkalann af árás krabbanna, til að komast inn í svæðið við kirkjugarðinn þar sem hinir dauðu væru magnaðir upp.

Orkarnir í búðunum voru mikið að rífast og litu ekki einu sinni upp til að sjá hvað þau þrjú sem gengu með beituna væru að brölta, og innan skammst komu upp stór krabbaskrímsli sem réðust á þá og varð úr nokkur slagur, þó krabbarnir biðu að lokum lægri hlut.

Þau drifu sig þá og ákváðu að aftur myndu Max, Böðvar og Carel sjá hvort þeir gætu ekki komist upp að orkunum sem stóðu vörð þar sem meistari uppvakninganna var að verki og kannski tekið þá óviðbúna, en hinir myndu bíða í felum og stökkva þeim til hjálpar, eða vera tilbúnir að ráðast á galdramanninn ef þurfa þætti.

Þó gengi ágætlega að plata orkana, þá koma eitthvað blik í galdri Carels í veg fyrir að það gengi upp og upp hófust mikil slagsmál. Orkarnir voru fjórir og gráir fyrir járnum, og voru fljótir að ákveða að Böðvar væri stærsta ógnin við sig, enda ekki með hrossaskít í stað heila (eða amk. ekki að öllu leiti).

Þó Böðvar væri tröll að vöxtum og harður eftir því, mátti hann ekki við margnum og var særður illa eftir einbeittar árásir frá þeim öllum, en tíminn sem það tók þá dugði til að Cormack, Euler og Luis gætu bæst í leikinn og skotið og kastað örvum og sprengjum á þá. Og á Max rann gífurlegur blóð-ofsi, hann virtist bólgna út og þéttast og augun sem voru áður appelsínugulleit tóku að glóa rauðu.

Í sameiningu tókst þeim að slátra flestum orkanna og koma í veg fyrir að Böðvar væri myrtur þar sem hann lá, en þá kom skyndilega fram stór uppvakningur með hringabrynju á efri hæð á vegghleðslu í kringum svæðið og í kjölfar hans undarlega fögur búa-kona, þó með ófrýnilegan skurð á andlitinu út frá munnviki. Hún náði að lama Max með galdri þar sem hann stóð frami fyrir uppvakningnum hennar, sem notaði tækifærið til að æfa kjálkavöðvana. 

Þessari búakonu, sem síðar kom í ljós að heitir Ertla, virtist ætla að ná að snúa leiknum við, fyrir orkana sem enn stóðu, en Cormack hafði klifrað upp á eftir Max og náði að ýta henni fram af veggnum, beint í flasið á hópnum.

Síðasti orkinn var drepinn, Böðvar vaknaði og Max hristi af sér galdurinn og drap uppvakninginn, og eftir það varð ljóst að hún átti við ofurefli að etja og gafst upp.

Hópurinn sneri því til baka með hana sem fanga sinn, eftir að hleypa uppvakningunum út og inn í bæinn.

View
Axarhöfn - staðan fyrir innrás

Njósnarar Frelsishersins í búðunum vestan við Axarhöfn hafa farið inn í bæinn og herma að staðan sé afar viðkvæm. Sérsveitirnar hafa kveikt í púðurtunnunni, nú þarf bara að tryggja sprenginguna.

Með því að ráðast á varðflokka Jebli orka utan við bæinn og skilja eftir verksummerki skrímsla hefur bæði tekist að kveikja undir öðrum Jebli orkun og minnka gæslu. Það eru enn meira en 100 Jebli orkar í eða við bæinn, en árvekni þeirra hefur minnkað.

Með því að taka búaklerkinn Ertlu úr umferð og hleypa uppvakningunum lausum hefur bæði tekist að draga úr framleiðslu á hinum lifandi dauðu og koma norðurhluta bæjarins í skelfilegt uppnám. Orkarnir hafa misst nokkuð af mannskap og allir uppvakningarnir hafa verið felldir.

Með því að lokka vatnakrabbana upp úr vatninu og nota flöskuskrímslin eru orkarnir sérlega reiðir og sannfærðir um að Waqounis og tilraunir hans séu enn og aftur að fara með allt fjandans. Nú er aðeins eftir að koma hverju svo sem leynist í tröllvaxna kassanum til skila. Akbo segir að þó það gæti verið gaman að sjá úr fjarlægð væri sennilega ráðlegast að forða sér við fyrsta tækifæri.

Sagt er að Urugor herforingi Kelbit orkanna þurfi að eyða nærri öllum sínum tíma í að stilla til friðar milli síns flokks og Jebli flokksins og sé orðinn langþreyttur á því. Hann er að sögn heitur tilbiðjandi Hins Gamla en grunsemdir eru uppi um að meðal Jebli orkanna leynist tilbiðjendur Gruumsh - því er hugmyndin að koma upp fórn til Gruumsh til að lokka Urugor út.

H'ragathar, foringi Jebli orkanna, mun vera einstaklega fær spjótkastari en ekki síður grjótkastari. Það verður að koma honum úr umferð og til þess þarf lagni. Hann leynist flestum stundum í hálfhrundum varðturni og hefur þar bæði gott útsýni og nóg af skotfærum. Þó eru rústirnar í kringum turninn ágætis skjól svo þeim mun nær sem hægt er að komast áður en hann tekur eftir sérsveitinni, þeim mun betra færi gefst á honum og líkur á að hann geti kallað til undirmenn minnka.

Þegar loks er búið að koma bænum í algjöran glundroða og fella herforingja orkanna, þá er komið að innrásinni. Herinn mun koma úr norðvestri og lokka orkana þangað. Á meðan það er í gangi kmeur Akbo skipi sínu fyrir sunnan við bæinn og Harald og hans menn munu hefja stórskotahríð frá skipinu. Sérsveitin laumast inn í bæinn og þarf að koma fyrir reyksprengjum til að aðstoða Harald að miða skothríðinni. Gera má ráð fyrir að það þurfi að brjóta niður nokkrar varðstöðvar áður en sérsveitin kemst að setri Waqounisar.

View
Orkaveiðar á Axarhöfn

Á 19. degi þarfamánaðar, tveimur dögum eftir samkomu frelsishersins leggur fylkingin af stað úr húsi T‘sial til að finna út hver næstu skref þeirra ættu að vera. Úti er kalt og grátt, en þó stillt og gott ferðaveður. Það tekur hvern og einn mislangan tíma að koma sér af stað.

Perille hafði keypt kistu með svo sterkum lás að færustu hrappar Ræningjaríkjanna ættu erfitt með að opna hann. Þrátt fyrir að vita nákvæmlega hvað kistan innihéldi reyndi Sonya að opna lásinn þegar enginn sá til. Sú tilraun tókst ekki, Sonyu til lítillar undrunar.

„Hvers vegna þarftu þessa kistu?“ Spurði T’sial Perille heldur undrandi.

„Vegna þess að ég bý með villimönnum“ ansaði hún og gjóaði augunum til Úu sem lá á steininum sínum og nartaði í rifna, krumpaða blaðsíðu úr einni af saumabókunum sem voru í kjallara hússins.

„Ég hef verið að reyna að kenna Úu að lesa upp á síðkastið.” Hélt Perille áfram, „Þú sérð hvernig það hefur gengið”

„Þú ætti kannski að reyna að kenna birninum að lesa frekar, það myndi kannski ganga betur“ svarar Sonya þá með hæðnistón um leið og hún setti upp hettuna og gekk út.

Eftir sátu restin af konunum hugsi yfir þessari tillögu.

Euler, dularfulli maðurinn með bogann og sverðið var löngu kominn út, tilbúinn til brottfarar. Sonya beið með honum og saman biðu þau í hljóði. Inni raðaði Perille fötum, bókum og munum í nýja kistilinn sinn og læsti. Úa fylgdist áhugasöm með og tók einhverjar af gömlu saumabókunum úr kjallaranum og setti í poka ásamt nokkrum vel völdum steinum. Svo horfði hún stolt til Perille í von um að hún tæki eftir athöfnum hennar. Luiz tók líka saman föggur sínar og setti á bakið, þó hélt hann á nokkrum flöskum í hendi þegar hann gekk út. T’sial sat uppi á þaki með blað og skriffæri og Sonya tók eftir því að hún horfði stíft á hana milli þess sem hún setti eitthvað á blaðið. Þegar T’sial kom loks af þakinu sá Sonya myndina sem átti að vera af henni. Þetta var ekki góð mynd, en Sonyu þótti inn við beinið vænt um þessa jákvæðu athygli sem T’sial hafði veitt henni. Hún lét hlýju sína í garð T’sial þó ekki í ljós. Loksins voru allir aðilar föruneytisins samankomnir og tilbúnir að leggja af stað. Áður en lagt var af stað lét Luiz alla fá flösku af sáraseyði sem hann hafði bruggað fyrir ferðina. Á leiðinni ræddi hann við Úu um gildi peninga. Þau virtust hafa misjafnar skoðanir á því sviði.

Þegar þau loks komust að höllinni voru samankomnir hin undarlegasta samsetning af einstaklingum. Þarna var mannfólk, dvergar, búar og alls kyns blendingar. Augljóst var á sumum að þau aðhylltust töfra af einhverju tagi en aðrir voru vopnum búnir. Enn aðrir virtust hvorki hafa yfirnáttúrulegan mátt né mikið af vopnum. Þarna voru allir saman komnir til að vinna gegn valdi hins illa.

Sonya þekkti nokkra af þeim sem töluðu fyrir hópnum. Þarna voru meðal annars Anna Huron, Somnablis frá Hrókahreiðri, Feryon Þursabani, Akbo Anatulu og Ferengar (hinn brjálaði). Þau reyndu að koma skikkan á liðið og fá alla til að mynda næstu skref frelsishersins. Eftir nokkra umræðu virtust flestir sammála því að best væri að byrja á því að ná festu innan skjaldlandanna. Þetta var mikilvægt vegna þess að þar eru helstu siglingarleiðir norðursins, og þar af leiðandi besta leiðin til að ferðast og koma birgðum á milli staða. Þessir þættir myndu stórbætast hjá frelsishernum en á sama tíma væri ákveðin ringulreið mynduð innan liðs Iuzar.

Axarhöfn virtist vera öldungis góður byrjunarreitur. Þar þurfti að koma bæði jebli og kelbit orkum sem höfðu komið sér fyrir á svæðinu fyrir kattarnef. Til að gera það þótti þjóðráð að egna þeim gegn Vakúnis, galdramanni sem sérhæfir sig í tvennu: að kalla á samherja úr öðrum víddum og að sýsla með alls kyns vatnaskrímsli. Jebli og kelbit orkar voru svosem ekki mjög hliðhollir hvorum öðrum en það væri erfiðara að fá þá til að berjast gegn hvorum öðrum heldur en að fá þá til að sameinast gegn Vakúnis.

Akbo Anatulu bendir á vagn sem bæði lyktar illa og ef bankað var í hann heyrðust skerandi óhljóð úr honum. Þessi vagn innihélt vatnaskrímsli sem hópurinn skyldi ferðast með til Axarhöfða. Einnig fékk föruneytið meðferðis átta flöskur sem, líkt og vagninn, lyktuðu illa. Þessu var öllu komið fyrir á Rhennee bát ásamt Euler, Luiz, Perille, Sonyu, T‘sial, Úu og Aurum. Siglingin tók einn og hálfan dag og voru ferðalangarnir misvanir þessari samgönguleið. Þrátt fyrir mjúka siglingu Rhennee bátsins þótti Úu ferðin gríðarlega erfið. Henni þótti allavega afar erfitt að halda árbítnum í maganum á meðan ferðinni stóð. Hins vegar virtist Perille þykja ferðin vera afar ljúf, enda vissi hún að Rhennee menn voru færastir á sviði siglinga og báturinn liðaðist um eins og hann hefði alltaf tilheyrt vatninu.

Þegar siglingin endaði loks er miður dagur og enn kalt og stillt í veðri. Þarna er mýri sem var erfið yfirferðar. Hópurinn ákvað að best væri að finna orka og sjá til þess að þeir gætu hvorki látið aðra vita af ferðum þeirra, né stöðva fyrirætlanir þeirra. Euler fann orkaslóð og rakti hana listilega. Þegar þau loks fundu orkana brutust út mikil læti og slagsmál. Luiz tók það til bragðs að kasta einni af flöskunum sem þau höfðu verið send með í átt að orkunum. Honum til mikillar furðu kom gegnsæ vera úr flöskunni sem stækkaði hratt og skaðaði þá sem voru svo óheppnir að vera of nálægt henni. Eftir mörg bylmingshögg, bit, örvaþyt og beitingu töfra höfðu hetjurnar okkar betur.

Af baráttu lokinni tóku Luiz og Perille sig saman og fjarlægðu allar örvar og verksummerki. Þau notuðu sýrugaldra á þá sem dóu vegna örva eða annarra vopna til að hylja sárin.

„Ætli það sé óhætt að taka kastspjótin þeirra?“ spurði T‘sial hópinn.

„Ég tel það ekki vera góða hugmynd. Ef við ætlum að telja þeim sem mun finna þessa orka trú um að þeir hafi dáið vegna sýrudýranna þá held ég að réttast væri að skilja allt eftir“ svaraði Sonya.

„Skiljum allt eftir og komum okkur burt héðan sem fyrst“ sagði Luiz.

Og það var nákvæmlega það sem hópurinn gerði. Sonya var nokkuð sátt með árangur þessarar ferðar. Hún hryllti sig yfir tilhugsuninni að missa eina af flöskunum sem eftir voru og lenda í innihaldi hennar. Um leið herti hún takið á flöskunni í hendinni og hélt ferðinni áfram, hratt en hljóðlega.

View
Frelsisherinn vaknar

Það er komið að því. Þessi stund hefur legið í loftinu í langan tíma. Mikið hefur verið hvíslað um hvað hafi verið í gangi undanfarnar vikur, hvort sem er á kránni, meðal óbreyttu hermannanna eða beinar spurningar til yfirmanna. Nú verður ekki lengur hvíslað – það er komið að því að Frelsisherinn láti uppi áætlanir sínar.

<meta />

Hægt og rólega myndast stór hópur í lægri garðinum framan við höllina, framan við innri múrinn og tröppurnar. Fremst standa útsendarar og yfirmenn, aftast er herinn, og á milli eruð þið – sérsveitirnar. Þið lítið í kring og sjáið að þó herinn sé enn lítill, þá endarspeglar hann rækilega hversu mikil ógnin er sem stafar frá Hinum Gamla. Þó flestir hér séu frá Furyondy, Skjaldlöndunum eða Ræningjaríkjunum, þá er fólk frá öllum löndum Norðursins hér og allir kynstofnar. Þið sjáið fólk sem er komið enn lengra frá, framandi fulltrúa Baklúnísku landanna, hirðingjar úr vestri, menn frá hinu sífrosna norðaustri, Rhennee fólk og sjóræningjar frá suðurlöndum. Meðal ykkar eru dvergar, álfar, búar, hálflingar og blendingar – það er meira að segja hálf-þurs sem gnæfir yfir alla í kring! Aldrei fyrr hafið þið fundið fyrir hve mikilvægt þetta verkefni sem þið hafið tekið ykkur fyrir hendur er. Fáir vita af tilvist hersins ennþá og enn færri taka hann alvarlega.

Í dag mun það breytast.

Uppi á pallinum fyrir miðjum tröppunum stendur dálaglegur hópur. Leiðtogarnir. Þið sjáið nokkra verði aftast en meiri áhuga vekja þau Anna, Gaerolf og Somnablis. Þau eru hinir raunverulegu leiðtogar sérsveitanna og vita hvað er í gangi og munu leiða ykkur, í það minnsta fyrst um sinn.

Eftir nokkra bið er blásið í mikið horn uppi á virkisvegg. Allir þagna. Út úr höllinni stíga nokkrar manneskjur. Fremst sjáið þið hraustlegan mann með ryðrauðan hatt – þetta er presturinn Ronson sem er næstæðsti leiðtogi hersins og hann er að venju einbeittur á svip. Strax á eftir kemur maðurinn sem mestu skiptir. Tamrin Soldat. Þið þekkið öll sögu hans, hann þurfti á unglingsárum að flýja Skjaldlöndin og tók síðar þátt í frelsun Critvalla og missti nærri lífið. Það vantar á hann aðra höndina og annað augað en þið hafið séð hann berjast og æfa sverðfimi sína. Fötlun hans hefur ekki veikt hann. Hann er í raun holdgervingur hins frjálsa Norðurs, særður af Hinum Gamla, en aldrei bugaður. Fólkið sem kemur á eftir þeim er meiri ráðgáta, tröllvaxinn maður með mikið skegg og við hlið hans nánast hvíthærð og föl kona. Bæði eru í sínum fínasta skrúða en hvorugt minnir á aðalsfólk og þá kviknar á perunni. Þetta hljóta að vera hertogahjónin í Alhaster, Robyn og Eir, sem hýsa afganginn af Frelsishernum og voru ásamt félögum sínum kveikjan að því að loks fékkst stuðningur við að vekja upp þessa andspyrnu.

Hópurinn kemur sér fyrir ásamt hinum á pallinum og virðast vera ræða saman. Eftir smáviðræður tekur Ronson upp lítinn poka og stráir járnsalla kringum sig. Þá hefur hann raust og ákallar Heilagan Cuthbert. Loks gengur hann ásamt þremur vörðum niður tröppurnar að beygjunni, fer í innri garðinn og hverfur sjónum.

Tamrin talar yfir hópinn: “Félagar! Ronson mun snúa aftur eftir litla stund. Hann verður ekki einn, og það sem fylgir honum mun vafalítið valda sumum hérna óþægindum eða reiði. Vinsamlegast byrgið hana inni, þó þetti verði ekki skemmtilegt fyrir suma hér er þetta nauðsynlegt.”

Það fer kliður um mannskapinn. Þið heyrið glefsur af samtölum, stöku orð. Svikari, afhöfðun, djöflar… Aðeins hinir fremstu segja ekkert.

Loks snýr Ronson aftur og föruneyti hanns hefur stækkað. Þétt upp við hann er hávaxinn maður með bleksvart hár á óræðum aldri. Það er mikil járngríma fyrir munni hans og hendurnar rígbundnar. Hann er leiddur upp tröppurnar að pallinum og þið sjáið að Robyn hertogi hefur aðra höndina á sverði sínu, meðan Eir heldur uppi helgitákni, tilbúin að kalla fram mátt Pelors. Gríman er fjarlægð með þremur lyklum og allan tímann er Ronson afar þétt upp við manninn. Það heyrist kallað langt að aftan “Loksins færðu að gjalda fyrir illvirki þín!” og margir virðast spenntir eða í uppnámi.

"Talaðu nú, Beinhjörtungur.” segir Tamrin. Maðurinn hreyfir til kjálkana og hefur greinilega lengi þurft að bera þessa grímu. Hann horfir yfir hópinn og jafnvel úr þessari fjarlægð finnið þið fyrir hroka og fyrirlitningu – en ekki ótta. Það er eitthvað við þennan mann sem fær ykkur til að líða eins og hann gæti hæglega myrt hér nær alla ef hann væri ekki heftur.

"Gott og vel. Iuz…” Þið heyrið andkafir í kringum ykkur þegar maðurinn vogar sér að nefna Hinn Gamla á nafn. Maðurinn glottir við. “Iuz sá hvað gerðist í Alhaster og varð ljóst hver lykillinn væri að því að sigra loks Norðrið og svo Flanaess alla. Hann ætlar sér að leika sama leik og maðkagoðið og fórna sálum ykkar til að verða öflugri á augabragði. Hann er nógu öflugur sem hálfgoð, en reynið að gera ykkur í hugarlund hversu öflugur hann væri sem raunverulegt goð. Herir hans verða óstöðvandi. Í þessum töluðu orðum situr hann í Dorakaa og leggur á ráðin ásamt hinum Beinhjörtungunum. Áður en þið vitið af verður hann kominn með áætlun um hvar og hvernig verði hægt að fórna nægilega mörgum í einu en ólíkt maðkagoðinu sem starfaði á laun með lítinn hóp til að styðja sig hefur Iuz stærsta her heimsins til að einangra sig og starfa í friði fyrir afskiptum dauðlegra. Hann hefur ekki bara orka, hádrýsla, menn og önnur ómenni á sínum snærum. Klerkar hans eru dag og nótt að safna saman og grafa upp hvert hræ sem finnst og hinum lifandi dauðu fjölgar hratt í herjum hans. Þá eru áhrif Fjandaflóttans að dvína og Iuz er byrjaður að kalla til sín ára að nýju. Hnignun áraprinsins Demogorgons hefur verið mikill styrkur fyrir Iuz, það er gnægð af herralausum árum tilbúnir að veita hálfgoði stuðning. Norðrið er fallið, þið bara sjáið það ekki enn!".

Það er löng þögn. Vonleysi.

Þá stígur Eir fram og talar yfir hópinn. “Þegar myrkrið er mest, þá byrjar Pelor að lýsa. Þó þetta virðist dimmt og fáir hlusti, þá er tíminn til sóknar núna. Ljósið mun yfirgnæfa myrkrið ef við stöndum saman og meira að segja Hinn Gamli má ekki við yfirgnæfandi styrk.” Robyn kallar “Við ættum að vita það, við felldum goð!”. Það brýst út fögnuður aftast.

"Burt með þessa skepnu, hann er búinn að tala nóg!” Æpir Robyn. Hertogahjónin draga sig til hlés, gríman er aftur fest fyrir munn mannsins og Ronson leiðir hann í burtu.

"Frelsisherinn er von Norðursins. Þetta verður langt og erfitt verk og það munu ekki allir ná að skála með okkur þegar við sigrum en við munum sigra!” Kallar Tarmin og dregur upp sverð sitt Hrímtungu. Margir gera hið sama og kalla með honum. “Það er margt sem þarf að gerast áður en við getum ráðist að hjarta hins ills veldis en með samheldni tekst það. Það verður ekki allt skemmtilegt, eða auðvelt eða endilega eitthvað sem hjálpar okkur að sofa en það skal takast!”

Fagnaðarlætin eru yfirgnæfandi. Þetta er stærsta verk sem nokkurt ykkar hefur nokkru sinni tekið sér fyrir hendur en það verður að takast!

Þegar látunum linnir útskýrir Tamrin að leiðtogar sérsveitanna muni skýra hver helstu markmið séu.

Somnablis stígur fram. Ólíkt venju er hann ekki með olíusvuntuna og til tilbreytingar eru augabrúnir hans til staðar. “Skjaldlöndin hafa nógu lengi mátt gjalda fyrir dramb sitt og þola kúgun. Fall þeirra var lykillinn að sókn Hins Illa og er enn helsta birgðalína herjanna. Það er komið að því að frelsa Skjaldlöndin í heild sinni og safna saman Riddurum hins Helga Skjaldar til að verja heimkynni sín á ný! Við höfum ítök hér, sunnanmegin og í vestri við Critvelli og austri frá Alhaster. Miðlendurnar og norðrið eru hins vegar enn harðlokuð. Þar hefst barátta okkar.”

Þá stígur Gaerolf fram. Dvergurinn glottir, tekur upp stóra flösku og fær sér gúlsopa og ropar svo kröftuglega á eftir. “Fjandar hafi það, það er búið að vera stríð nógu lengi í Tenh! Það er kominn tími á að höggva á hnútinn! Ef þessir moðhausar geta ekki hrakið bölvaða orkana út sjálfir, þá gerum við það! Og hvort sem það eru innfæddu bjánarnir, þessir hrútleiðinlegu Fölverjar eða grjótheilarnir frá Steinborg, þá verður einhver að sitja eftir einn með völdin í Tenh, hvort sem það er með góðu eða illu!”

Anna stígur fram. Eins og alltaf er eins og augu hennar horfi beint í augu allra viðstaddra og þó hún sé smágerð er hún svo augljóslega ekki vanmáttug. “Ræningjaríkin hafa verið undir hnefa Hins Gamla lengi en eins og mörg ykkar vita þá kraumar mikið undir. Það eru nokkrar andspyrnuhreyfingar, misstórar og öflugar. Þær þarf að sameina og styrkja – hvað sem það kostar. Þá eru ýmsir sem þykist hlýðnir en eru það ekki og aðrir sem hægt væri að sannfæra með einum eða öðrum hætti. Þeim mun meira sem Ræningjaríkin hlýða ekki boðum frá Dorakaa, þeim mun betra fyrir Norðrið.”

"Þar hafið þið það. Risaverk en mörg lítil skref fara langa leið.” Segir Tamrin. “Auk þessa geta verk okkar ekki annað en breikkað faðminn. Við þurfum að finna fleiri hæfa einstaklinga, mynda tengsl og sambönd og efla birgðalínur. Allir andstæðingar Hins Gamla eru samherjar okkar og eftir því sem okkur gengur betur, þeim mun fleiri munu setja sig á samband við okkur. Ekki óttast verkefnaskort á næstunni. Frá og með deginum í dag munu allir vita um Frelsisherinn!"

View
Dagatal Frelsisbaráttunnar
Áætlanagerð

17. í Þarfamánuði

Frelsisherinn kemur saman og leiðtogar hans lýsa áformum í grófum dráttum, þar sem fram koma mikilvægi þess að frelsa Skjaldlöndin, sætta stríðandi fylkingar í Tenh undir einhverjum sem geti beint þeim gegn Iuzi, og sameina uppreisnaröfl í Ræningjaríkjunum og fá þau með í baráttuna

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.