Greyhawk - Norðið

Annálar Norðursins, bindi LXXVIII

Ritað af Arcus Magus Tenser

Margt hefur verið ritað um hópinn sem sumir kölluðu Ljósberana, þó það nafn hugnaðist þeim sjálfum lítt. Margt af því er rangt, áróður, lygar. Margt eru stórlega ýktar hetjusögur, tilbeiðsla.

Ég get boðið upp á sjónarhorn þess sem var viðstaddur marga mikilvæga atburði og jafnvel óbeinn þátttakandi í sumum þeirra.

Á miðju ári 599 CY hitti ég fyrst þennan merka hóp manna og kvenna sem nú hafa hvert á sinn hátt svo mikil áhrif á heiminn. Óopinber leiðtogi hópsins var hinn magnaði Fermat, paladin Mayaheine. Hann var hár ungur maður, með dökkt og örlítið hrokkið hár og dökkleit augu sem gáfu til kynna að hann hefði séð ýmislegt fleira en hina helga sali musteranna sem svo margir af hans sauðahúsi þekkja nánast eingöngu. Þá var annar vígamaður í hópnum, tröllið Robyn, sem bar mikið og þétt skegg og ekki síður glæsilegt sverð. Hann var upphaflega Skjaldlendingur en hafði ekki verið í heimahögum frá barnæsku. Þá var gullfalleg, fölleit ung stúlka í hópnum, Eir að nafni og augljóslega af Suloísku bergi brotin. Hún var kirfilega merkt goði sínu, sólgoðinu Pelor, og reyndist æði öflugur prestur hans. Þá voru tveir töfranotendur í hópnum en afar ólíkir – annars vegar Talia, bráðung álfkona, klárlega gráálfur, sem hafði verið lærlingur hjá Allustan, gömlum lærisveini mínum og hún var einnig hrappur sem tók lífinu passlega alvarlega þrátt fyrir afar alvarlegar kringumstæður þess að hún stóð frammi fyrir mér. Hinn var seiðbúinn Jinx, afar smár jafnvel meðað við sitt kyn, með magnað appelsínugult hár og mikill sjónhverfingameistari.

Erindi þeirra var ekki smávægilegt. Hópurinn var nýkominn frá Greyhawk og hafði þar komið upp um magnað samsæri. Illir menn og dýrkendur ormagoðsins Kyussar höfðu gert tilraun til að kalla fram postula goðsins og hroðalegan kraft ólífsins til að fella tugir þúsunda saklausra borgara. Ljósberarnir höfðu komið í veg fyrir þennan hrylling en einnig uppgötvað að þeir væru rétt að byrja langa ferð. Samband þeirra við Allustan og annan fyrrum nemanda minn, Eligos, leiddi þá til mín.

Ævintýri þeirra og ferðir voru af ýmsi tagi – hópurinn fann ævaforna grafhvelfingu Vindhertoga undir Pesh-völlum, fann hulda eyju hinnar fornu Stormareglu, ferðaðist til risaborgarinnar Kongen-Thulnir og sigraði þar bæði mikla risa og fjölda dreka - en ekkert af þessu kemst í hálfkvisti við það sem þeir gerðu á síðustu dögum þessa mikla og magnaða ferðalags.

Hópurinn ferðaðist á einn frægasta og skelfilega stað Flanaess, Ormagöngin við botn Gljúfursins Mikla. Þjóðsögur frá fornu fari voru til um þann stað en afar lítið vitað, þó var alkunna að hræðileg skrímsli og ormar héldu þar til, ásamt hinum goðsgnakennda lifandi dauða dreka Dragotha. Dragotha var álitinn helsti leiðtogi safnaðar Kyussar og ljóst að hópurinn myndi verða að kljást við eitt hættulegasta skrímsli veraldar en þeir fengu óvæntan stuðning frá mínum gamla félaga og vin Bucknard – eða öllu heldur vofu hans. Nú eru Ormagöngin öllu þögulli en þó eru flestir á því máli að hættulaus séu þau ekki.

Ljósberarnir voru vart búnir að tortíma Dragotha þegar ljóst var að þeir þyrftu að ferðast rakleiðis til Alhaster borgar í Rauðhandarhéraði. Arftaki (og samkeppnisaðili) Dragotha, Lashonna hafði sett í gang atburðarrás sem myndi enda með því að Kyuss myndi stíga fram í heim okkar, draga þróttinn úr öllum lifandi verum borgarinnar og þannig efla mátt sinn upp úr ölli valdi og verða ósigrandi.

Eitt sinn var Lashonna silfurdreki, eitt helsta og fegursta afl hins góða í veröldinni. Dragotha felldi hana og spilling Kyussar gerði hana að blóðsugu og þræl. Hún hafði áður leikið á hópinn sem hafði algjörlega óafvitandi aðstoðað hana við að ná sínu fram. Það skipti þó litlu þegar allt kom til alls, þar sem hún féll fyrir þeim. Þar má ekki síst gleyma þætti Robyns, sem var ekki eingöngu framúrskarandi bardagamaður heldur einnig flökkuprestur Heironeousar og sérhæfður drekabani.

Þegar hópurinn hittist fyrst hefði varla hvarflað að neinum nokkurs staðar að innan tveggja ára myndi hann standa frammi fyrir goði sem hafði bolað sér leið inn í okkar heim. Á toppi Alhaster-turns stóð vera um sjö og hálfs metra há, í mannsmynd en samsett úr óteljandi möðkum. Ef ekki hefði verið fyrir hetjudyggðir hópsins innan borgarinnar er öruggt að þetta hefði verið þeirra síðasta stund en vegna fyrri verka þeirra var goðið veikburða og hið ótrúlega gerðist - dauðlegi maðurinn Fermat felldi goðið Kyuss eftir magnaðan bardaga.

Það tók íbúa borgarinnar einungis örskotsstund að átta sig á að þessi hópur hafði bjargað þeim frá glötun og fögnuðurinn var mikill en skammvinnur. Zeech prins, höfðingi héraðsins, skoraði á einhvern úr hópnum á hólm til að verja heiður sinn þar sem þeir höfðu reynst bjargvættir Alhaster en ekki hann sjálfur. Robyn stökk til og sigraði prinsinn með lítilli fyrirhöfn. Þá tók við óvænt atburðarrás sem hefur haft mikil áhrif á líf hópsins síðan, sigurvegari einvígisins var hinn nýi höfðingi héraðsins.

Og hvað hefur gerst síðan? Hvar eru ljósberarnir og hvað eru þeir að gera? Hvað hefur gerst í Rauðhandarhéraði og Alhaster?

Robyn var kominn af kotbændum og hafði nær alla sína tíð lítið þekkt annað en herþjálfun, lítillæti og hógværð. Nú var hann skyndilega orðinn höfðingi héraðs í Ræningjaríkjunum. Ljóst var að spjótin myndu berast að honum og ríki hans úr öllum áttum. Hvað átti einfaldur hermaður að gera í þessum aðstæðum? Robyn byrjaði á því að haðrneita að gerast 'prins'. Þess í stað gerðist hann hertogi Rauðhandarhéraðs. Því næst gerði hann tilbeiðslu og tilbiðjendur Hextors útlæga. Loks hóf hann að leita að bandamönnum gegn ræningjum, ómennum og síðast en alls ekki síst, öflum Iuzar.

Eir var einning af kotbændum komin en hafði öllu meiri skilning á þeim aðstæðum sem vinur hennar var lentur í. Hún reyndist afar verðmæt hjálp við að mynda bandalög, fylkja liði og sameina söfnuði hinna góðu goða á svæðinu. Þá hóf hún aðgerðir við að reyna endurvekja hina fornu Stormareglu. Óvæntast af öllu var þó að eftir nána samvinnu vinanna tveggja urðu þau mun meira og nú er Eir hertogynja Rauðhandarhéraðs.

Talia byrjaði á að halda heim til Diamond Lake, þar sem hún tók við silfurnámu föður síns og var eina virka samkeppnin við hinn slepjulega Balabar Smenk. Bæði eru slóttug og leikin í laumuspili og erfitt að meta hvort myndi hafa betur eða hversu langan tíma það myndi taka en koma Fermats til bæjarins breytti stöðunni verulega. Taliu leiddist kyrrstaðan og hélt aftur norður til gamalla félaga. Hún er mikilvægur hlekkur í frelsisbaráttu Rauðhandarhéraðs en afar sjaldséð, hvort sem það er vegna sjónhverfinga eða feluhæfileika. Þá segir sagan að öfl tengd erkidjöflinum Mephistophelesi leiti hennar og hafi illt í huga en hún hefur séð við þeim hingað til.

Jinx kom gríðarlega á óvart. Hann afþakkaði með öllu tilboð um að gerast hirðseiðmaður Alhaster, borgarmeistari Grossetgrottel, meðlimur í Hringráðinu og ýmislegt fleira. Allt sem hann vildi var að halda aftur heim til Grossetgrottel , finna æskuástina og fá að vera í friði, sem hann og gerði. Þótti mörgum að einn helsti sjónhverfingameistari sögunnar væri að sóa algjörlega hæfileikum sínum, mætti og getu en hver verður að gera svo sem honum eða henni lystir.

Fermat hét Robyn vini sínum að aðstoða hann við að leita uppi bandamenn og stóð svo sannarlega við það. Hann ferðaðist til Greyhawk borgar, Urnst ríkjanna og Furyondy. Orð hans höfðu mikil áhrif hvert sem hann fór og má segja að kveikjan að Frelsishernum sé að miklu leiti honum að þakka. Þegar Fermat var búinn að safna bæði fé og liði og koma því til Alhaster ákvað hann að kalla þetta gott, í bili í það minnsta. Hann hélt til Diamond Lake, þar sem móðir hans tók fagnandi á móti honum. Upphaflega ætlaði hann sér lítið annað en hvíld en fljótlega fékk hann nóg af spillingunni og notaði bæði mátt sinn og áhrif til að verða skipaður hérðasstjóri. Cairn hæðir eru ekki lengur lagalaust útlagaríki. Þó er tæpt jafnvægi milli hans og þrjótsins Balabar Smenk.

Alhaster gekk í gegnum magnað breytingaskeið í kjölfar þess að Kyuss var felldur. Þar sem áður stóð pýramídi og turn er nú tvö hundruð metra djúpt skarð í jörðinni. Illskan streymir upp úr hellunum og skelfileg skrímsli tengd maðkagoðinu munu ferðast í hellunum. Hertogahjónin og þeirra helstu bandamenn fylgjast grannt með en ekkert hefur skriðið upp úr pyttinum ennþá. Hádrýslarnir eru farnir, sömuleiðis tilbiðjendur Hextors og því fækkaði íbúum mikið. Í þeirra stað er komið stórt setulið og heilmikið af ævintýrafólki. Rauðhandarhérað er eina Ræningjaríkið sem liggur við Nyr Dyv og er því gríðarverðmætt fyrir lið Iuzar. Því er hættan mikil og hvergi er hægt að ferðast um héraðið án þess að rekast á verði, svo ekki sé minnst á njósnara og töfra sem ekki sjást.

Snemma árið 601 CY fór að sjást til Frelsishersins og hann er nú orðin stór hluti af liði Rauðhendinga. Ekki er vitað hvað er á seyði en það er ljóst að herinn ætlar sér mikla hluti og það fljótlega. Talað er um að herinn ætli sér að snúa vörn í sókn.

Það er afar fátt í þessum heimi og öðrum sem ég hef ekki kynnt mér. Þó hef ég aldrei uppgötvað neina leið fyrir dauðlega aðila til tortíma goði. Kyuss var vissulega einungis hálfgoð og Ljósberarnir felldu hann, helstu útsendara og postula hans og eyðilögðu nær alla helgustu staði safnaðarins. Kyuss er einhvers staðar, einhvern veginn enn til. Börn hans eru enn til og eru hreint ekki svo fátíð. Þó verður ekki um það deilt að máttur hans er hverfandi lítill og verk Ljósberanna björguðuð heiminum. Það verða vafalítið margar aldir þar til maðkagoðið lætur aftur á sér kræla.

Spádómurinn um maðkaöldina rættist ekki.

Töframót, annar dagur þarfamánaðar, vatnsdagur

Comments

Fadaz81

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.