Greyhawk - Norðið

Axarhöfn er okkar!

24. dagur þarfamánaðar

Luiz leit yfir niðurstöðu bardaga Axarhafnar og fann mikið til, holdið hans hreyfðist og beinin komu sér fyrir á rétta staði. Hann dróg eina tönn úr gómnum sem hafði greinilega villst á leiðinni í allri umferðinni, stökkbreytiefnið var horfið úr líkamanum og snerpan dafnaði. Það þarf að fínpússa uppskriftina, hugsaði hann og gleymdi í smá stund hversu heppin sérsveitin var að hafa drepið Waqounis og náð Axarhöfn. Þetta hefði getað endað mun verr.

Hvað ef Böðvar hefði ekki kramið heila orkasveit við fyrsta vegg virki Waqounis? Ég hafði gefið honum skjaldar-þykkni og þrátt fyrir að hafa verið sleginn niður í fyrri bardaga þá hljóp hann beint að Orkunum við vegginn og drap þá áður en þeir gátu gert nokkurn skapaðan hlut. Við hefðum auðveldlega getað slasast við að berjast við þá og verið veikari restina að bardaganum. Böðvar er ekki ljúfur við fylgjendur hins gamla, það er nokkuð ljóst.

Hópurinn fékk Reyksprengjur til þess að merkja hvert Harald ætti að varpa grjóti. Perille var með sprengjurnar og kastaði einni að fyrsta varnarveggnum, stuttu seinna flugu steinar að veggnum og innan skamms var komið brot í vegginn. Ég sá strax gleðina í augunum á Perille, hún var augljóslega að hugsa um aðra notkun sprengjanna. Bakvið vegginn voru tveir stæltir orkar og einn mennskur galdramaður. Böðvar var kannski aðeins of æstur eftir að hafa tortímt síðustu hersveit en þessir reyndust erfiðari, þeir virtust taka höggum eins og ekkert væri og ekki voru þeir heimskir. í stað þess að hlaupa út í gegnum þrönga opið þá biðu þeir rólegir eftir að við gerðum það, en með því að henda einhversskonar sleipiefni á jörðina við opið og með þungum höggum frá T'Sial, Böðvari og Aurum voru þeir loksins felldir eftir nokkrar misheppnaðar hreyfingar í olíunni. Hópurinn var núna særður og þá sérstaklega Böðvar og T'sial.

"Komið til mín" eða eitthvað álíka og kannski ögn ókurteisara boð barst handan við næsta vegg, Perille vildi augljóslega ekki láta tækifærið fram hjá sér fara og kastaði sprengju yfir vegginn í von um að hitta þennan óprúttna hrópara með sprengjunni. Reyksprengjan flaug yfir vegginn og eins og síðast byrjuðu steinar að rigna í reykinn. Sérsveitin gat náð andanum í smá stund þar til steinarnir hættu að fljúga yfir okkur og þá var næstu sprengju komið fyrir við vegginn. Ég veit ekki hvernig Harald getur verið svona hittinn með þessum steinum og ég veit ekki hvort hann vissi þegar veggurinn var brotinn, líklega ekki, en aftur tókst það samt og aftur beið okkar óvenju erfiður bardagi.

Við biðum með vopnin á lofti. T'Sial, eins og henni einni er líkt, dulbjó sig sem galdramaðurinn sem við höfðum drepið og þóttist vera alvarlega særð, við þurftum á öllum kostum að halda. Stór orki í sterkri brynju beið eftir okkur, hann hélt fast í vel notaða vopnið sitt reiður á svip, Mölvarinn. Annaðhvort trúði hann ekki dulargervi T'Sial eða honum var alveg sama en enginn var að taka óþarfa áhættu héðan af þannig að Úa kastaði mold í andlitið á T'Sial og sár hennar byrjuðu að gróa. Ég þarf að muna eftir að biðja Úu um svona mold. Dora gæti örugglega hjálpað mér að greina hana, moldina semsagt. Luiz sá að Frelsisherinn var aftur farinn að undirbúa næstu skref í barráttu sinni gegn hinum gamla, varla búinn að ná Axarhöfn áður en næsta verkefni er farið af stað. Hann var úrvinda og eftir seinasta verkefni þá sá hann að hann þarf að undirbúa sig betur og bæta uppskriftirnar sínar. Heppnin getur ekki alltaf verið með okkur eins og seinast, hugsaði hann.

Hvað ef moldin hennar Úu hefði ekki virkað ? Við nýttum okkur öll lækningar ráð sem voru í boði og Mölvarinn hefði líklegast drepið okkur áður en við komumst að Waqounis hefðum við verið mikið særðari. Bardaginn við mölvarann var erfiður, hann hljóp okkur niður eins og ekkert væri og braut exina hans Böðvars en einhvern veginn var hann felldur líka eftir nokkur góð högg, bit og galdra og aftur var stór veggur sem beið eftir steinum Haralds. Við vorum búinn með orkuna fyrir galdra, Böðvar var án exinnar góðu og við vorum dauð þreytt, við íhuguðum að hvílast til að safna orku en sáum strax að það var ekki góður kostur í miðri innrás. Perille tók upp rit og byrjaði að horfa á afrekið okkar hingað til eins og hún væri að telja líkin sem við höfðum skilið eftir, hún las upphátt af ritinu og líkin stóðu upp og mynduðu línu. Ég hélt að Perille yrði stoltari af afrekinu, en hún virtist vonsvikin og kastaði næst seinustu sprengjunni í hurðina á seinasta veggnum og við komum okkur í viðbragðsstöðu.

Hvað ef Harald hefði ekki hitt ? Hvað ef Perille hefði kastað annari sprengju yfir vegginn til Mölvarans ? Við biðum eftir að reykurinn hvarf og sáum þar Waqounis bíða eftir okkur, alls ekki ánægður með gestina. Áður en við gátum hlaupið að honum birtist eld veggur mitt á milli okkar og hans, hitin frá veggnum var svo sterkur að okkur hlýnaði þrátt fyrir að vera ágætis spöl frá veggnum. Það var gagnslaust að skjóta örvum eða kasta einhverju í gegnum vegginn. Waqounis galdraði fram ófreskju eins og við máttum búast við og eins gott að hreyfandi líkin voru þarna til þess að ná athygli ófreskjunnar. Böðvar, Úa og Aurum einbeittu sér líka að Ófreskjunni, hún var ekkert lamb að leika sér við. Uppvakningarnir voru farnir að fækka. Ég sá tækifæri að komast að Waqounis og kastaði skrímslaseyðinu sem við höfðum fengið í fyrra verkefni yfir eldvegginn og í vegginn hjá Waqounis. “Skrímslið sem myndast úr vökvanum mun sko meiða þennan andskota!”.. ugh, heimskulega vongóð tilraun. Á sama tíma þá hafði Perille kastað þögnunargaldri á T'Sial og hún var rokin af stað í átt að eldveggnum. Hún hljóp í gegnum eldvegginn, virtist ekki finna fyrir því og hélt áfram í átt að Waqounis. Waqounis flaug upp á þak áður en T'Sial náði til hans, en núna var enginn veggur á milli hans og okkar. T'Sial var búin að gefa okkur opnun. Waqounis byrjaði að kalla á aðra ófreskju en hún klifraði uppá þakið staðráðin í að fella kvikindið en hann var öflugri en við áttum von á. Waqounis sveiflaði eldstafnum sínum og T'Sial lá hreyfingalaus en ekki áður en hún náði að þagga galdur Waqounis. Úa, Aurum, Böðvar og uppvakningarnir héldu áfram að berjast við ófreskjuna og voru nú bara 3 af 7 uppvakningum enn standandi. Perille hvarf og birtist við T'Sial til þess græða hana á meðan að Waqounis flaug nær eldveggnum og kallaði á ófreskju sem leit út eins og froskur. Ég, Úa og Perille köstuðum öllu sem við gátum í Waqounis en það er eins og það var ekkert til staðar til að kasta á. Það virtist ekkert hafa áhrif á Waqounis sama hvað við gerðum. Ég sá Úu gefa Perille forvitnilega glaðan svip sem Perille skildi augljóslega eftir smá umhugsun. Perille tók upp seinustu reyksprengjuna og náði að festa hana við Waqounis! Grjót byrjaði að fljúga í Waquonis. Bamm. Fyrsta grjótið hitti! Waqounis var strax særður og reyndi að fljúga annað, en reykurinn elti. Búmm. Splaff. Waqounis var fallinn!

Ef Harald hefði ekki hitt í veggina þá hefðum við ekki getað þetta. Hvað ef Aurum hefði dáið! Við getum ekki alltaf verið svona heppin! Nöldraði Luiz með sjálfum sér. “Hæ!” Sagði Böðvar þegar hann sast við hliðina Luiz, Jörðin skalf svo mikið að Luiz þurfti að nota hendina til að liggja ekki killiflatur. Böðvar var mjög þreyttur en glaður á svipinn og mjög stoltur af afrekinu. “Hvað er að?” Spurði Böðvar, brosið búið að breytast í skeifu. “Við vorum bara heppin!”, sagði Luiz. “Við hefðum getað dáið! Hvað ef við lendum í jafn erfiðum bardaga og við erum ekki með Harald til þess að hálpa okkur. Það væri vonlaust”. Luiz leit á jörðina leiður á svipinn. Böðvar var mjög hissa á þessum viðbrögðum og leit forvitnilega á Luiz. “Ertu leiður afþví þú fékkst ekkert glansandi?” sagði Böðvar. Luiz hrökk upp, hann var að berjast við að ákveða sig hvort hann ætti að vera gáttaður eða reiður. “NEI!” öskraði Luiz á Böðvar og strunsaði í burtu. Böðvar leit á eftir honum brosandi út að eyrum, sáttur með afrek dagsins. Axarhöfn er okkar!


 

Comments

Snilld :)

Axarhöfn er okkar!
arnisig

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.