Greyhawk - Norðið

Frelsi

Hetja er fallin

Hetjurnar voru nokkuð lemstraðar og þreyttar eftir bardagann í Axarhöfn. Þær höfðu þurft á öllum sínum styrk, úthaldi og útsjónarsemi að halda til að sigra galdrameistarann. Marin og blá, með höfuðverk og andlega búin á því mættu þær til yfirboðara sinna í búðunum skammt frá borginni og fengu næstu fyrirmæli. Stríðið er rétt að hefjast, verkefni Frelsishersins eru ærin og lítill tími sem gefst til þess að sleikja sárin og fagna sigrum. Hver einasta orrusta, jafnvel lítilvæglegustu smáskærur, eru skref í átt að því að velta þeim gamla af stalli. 

Aurum elti Úu og fylgdist með henni þykjast lesa blöðungana sem þeim voru fengnir í hendur. Perille renndi fljótt yfir þá og afhenti Luiz áður en hún tók að spyrja flokksforingjana um verkefnið sem þeim hafði verið úthlutað, að frelsa þrælana við þorpið Sareesh og síðan þorpið sjálft. Ekki leið á löngu þar til þau höfðu öll lesið skilaboðin frá yfirboðurum Frelsishersins og voru í óða önn að skipuleggja hvernig þau kæmust á sem skemmstum tíma að borginni, sem stóð á Salfray sléttum við fljótið Artonsamay. Sonya lagði til að hópurinn myndi sigla, að minnsta kosti til Alhaster en það mætti ríða og þannig væru þau komin til Sareesh innan nokkurra daga. Varð sú tillaga að lokum ofan á. 

Siglingin tók tvo daga. Á meðan henni stóð sátu Úa og Aurum að mestu fram í stafni. T’Sial og Sonya spiluðu neðan þilja, en Luiz og Perille skeggræddu um galdra, seyði og þess háttar. Euler var hins vegar öllu uppteknari af því að skipuleggja sendiförina. 

“Þau eru svo klár,” sagði Úa við Aurum á seinni degi ferðarinnar. Það var kalt en stillt veður og sjólag gott. “Þau kunna á allt þetta,” bætti Úa við og benti í átt að Alhaster, sem grillti í við sjóndeildarhringinn. “Við erum bara einhverjir vitleysingar úr fjöllunum í þeirra augum,” sagði hún með eftirsjá í röddinni. “Stundum sakna ég hellsins okkar. Þar þurftum við ekki meira en hvort annað. Og kannski smá hunang öðru hvoru.” Aurum sperrti eyrun og þefaði af fingrum Úu. “Nei, ég er ekki með hunang núna, bjáninn þinn,” sagði Úa og skellti upp úr. Hún klóraði birninum á bakvið eyrun og lagði síðan enni sitt að höfði hans. “Ég veit ekki hvað ég gerði án þín. Ef þú værir ekki hér, væri ég alein innan um þau, sem hlæja að mér og finnst allt skrítið sem ég geri.”

Euler kom þá og rak þau á fætur, með þeim orðum að þau voru senn að koma a borginni. “Ég vil síður missa sjónar af ykkur tveimur, Alhaster er mun stærri en Admundsvirki og auðvelt að týnast þar.”

-

Framundan var Sarresh, vígvarin borg þar sem hádrýslar réðu lögum og lofum. Skammt frá rann fljótið Artonsamay letilega til sjávar en á hinum bakkanum var önnur borg, Hardwyn, og hafði á árum áður oft verið rætt um að brúa fljótið til að tengja borgirnar tvær, þó aldrei hefði orðið af því. Nú var Sarresh bæli þessa gengis hádrýsla og höfðu þeir m.a. tekið herskildi tvær námur skammt frá borginni, þar sem þeir níddust miskunnarlaust á þrælum sínum, sem flestir voru fyrrverandi íbúar borgarinnar. 
“Við skulum byrja á því að ráðast gegn kopanámunni og frelsa fyrst þrælana þar, því hún er nær borginni,” sagði Euler og benti að námunni, sem var sýnileg af hæðinni hvar hópurinn stóð. “Svo tökum við grjótnámuna og endum síðan á þrælavagnalestinni. Þá ættum við að vera búin að frelsa nógu marga þræla til að valda hádrýslunum nægilegum vandræðum.”

Hópurinn samþykkti þessa ráðagerð Eulers og hélt af stað. Eftir að þræða krákustíga meðfram fljótinu fundu hetjurnar innganginn í námuna. Þau læddust inn og sáu hvar tveir hádrýslar stóðu vörð, en virtust ekki hafa tekið eftir þeim. Perilla ákvað að leggja svefnálög á þá um leið og Sonya læddist nær með brugðinn hníf. Álögin svæfðu annan vörðinn en árás Sonyu geigaði. Sem betur fer voru bæði Aurum og T’Sial ekki langt undan. Aurum beit aftan í hnésbót varðarins, sem hrundi aftur fyrir sig um leið og T’Sial lagði til hans með spjótinu sínu. 

Um leið og hetjunum hafði tekist að fella vörðinn sáu þær inn í námuna, sem var gríðarstór. Þar voru nokkrir hádrýslar á verði sem og fjöldi þræla sem voru barðir áfram. Skarkalinn sem fylgdi orrustunni við verðina hafði bergmálað um hellinn og ekki leið á löngu þar til allir verðirnir ásamt leiðtoga þeirra, Kelvreek, hádrýsli með ógnvekjandi sverð, voru búnir að draga vopn úr slíðrum og bjuggust til orrustu. 

Eins og hendi væri veifað varð allt vitlaust í námunni. Þrælarnir réðust gegn hádrýslunum. Hádrýslarnir ásamt leiðtoga sínum réðust gegn hetjunum, sem reyndu eftir fremsta megni að tryggja að sem fæstir þrælar myndu slasast í æsingnum. Eftir að hetjurnar höfðu fellt tvo hádrýsla kom leiðtoginn aðvífandi og tókst að rota Sonyu og eyðileggja langspjót T’Sial. Luiz og Úa reyndu að lækna vini sína en um leið verða að gagni. Euler hélt sig þar sem hann gat mundað bogann sinn, þannig að það kom í hlut Aurums að standa fremstur og halda aftur af Kelvreek. Hann lét höggin dynja á birninum og tókst að opna slæmt sár á fremri fæti Aurums, en T’Sial kom þá birninum til aðstoðar, ásamt Luiz, og í sameiningu tókst hetjunum, með hjálp frá grjótkasti þrælanna, að fella Kelvreek tortímanda. 

Þegar hádrýslarnir voru sigraðir skiptu hetjurnar liði. Hluti þeirra rannsakaði námuna hátt og lágt, til að tryggja að hvergi væru fleiri óvinir, þó eflaust hafi einhverjir verið að vonast eftir að finna eitthvað verðmætt, en hinn hlutinn ræddi við þrælana og tryggði að þeir fengu vatn og mat, sem og að segja þrælunum frá Frelsishernum. 

Um nóttina lögðust hetjurnar til hvílu, enda þreyttar og særðar eftir bardagann. Flestar þeirra komu sér fyrir þar sem var að finna tiltölulega mjúkt undirlendi en Úa og Aurum lögðust á bert bergið og dæstu feginsamlega, enda langt síðan þau höfðu lagst til svefns í helli. 

-

Næsta dag var ákveðið að ráðast gegn hádrýslunum í grjótnámunni. Áður en þau fóru afhenti Úa T’Sial spjótið sitt. 

“Þú mátt fá það, ég get bara notað svona skaft,” sagði Úa og brosti til T’Sial, sem tók hikandi við spjótinu. 

“En ertu viss, þú ert þá ekki með neitt almennilegt vopn,” svaraði T’Sial. 

Úa yppti öxlum. “Jú, jú, þetta dugar alveg,” sagði hún og tók viðarskaft af haka einum sem lá þar skammt frá þeim. 

Þau lögðu síðan af stað og gengu nokkuð greitt. Það var froststilla og örlítil þoka yfir, en eftir því sem sólin hækkaði á lofti hlýnaði lítillega, svo brátt varð flestum hlýtt. 

Þegar þau komu að námunni sáu þau að þar, rétt eins og í koparnámunni, stóðu tveir hádrýslar vörð. 

“Ég er með hugmynd,” sagði T’Sial, “við Sonya getum dulbúið okkur sem hádrýsla og þóst vera að koma með tvo þræla. Þá getum við kannski komist nær og frelsað þrælana.” 

“Já, þetta er prýðishugmynd. Við getum kannski þá séð betur hvernig er umhorfs þarna og jafnvel vegið bara leiðtoga þeirra, þannig að það myndist algjör upplausn í flokknum.”

Euler kinkaði hugsi kolli. Aurum fylgdist með samræðunum, augun glennt og hann opnaði munninn, lokaði honum síðan, opnaði aftur en hristi síðan höfuðið. 

Ekki leið á löngu þar til að þær höfðu dulbúið sig sem forljóta og grimmúðlega hádrýsla og örkuðu af stað með Perille og Luiz í eftirdragi. 

“Hafðu ekki áhyggjur, Aurum, þær vita sko alveg hvað þær eru að gera,” sagði Úa við björninn þegar þau voru komin nokkuð áleiðis. Aurum leit upp til Úu, í brúnum augum hans blikaði vantrú. Hann rumdi eitthvað og lét sig falla í grasið, án þess að taka augun af hópnum sem fikraði sig nær hádrýslunum. 

“Hey, psst!” hvíslaði Luiz, “hvor ykkar talar drýslatungu?”

T’Sial og Sonya litu hvor á aðra. Síðan á Luiz. 

“Ekki segja mér að hvorug ykkar tali drýslatungu?” Þegar hvorug kvennanna svaraði bölvaði Luiz og vissi sem var í hvílíkan vanda þau voru komin. “Eigum við snúa við?”

“Karka eztu lam’ika?” kallaði annar varðanna til þeirra þegar þau áttu nokkur skref eftir að þeim, rödd hans var gróf og dimm og þeir voru báðir ágætlega vopnum búnir. 

T’Sial og Sonya litu hvor á aðra, eins og þær biðu eftir því að hin gerði eitthvað. T’Sial tók loks af skarið og reyndi að rymja eitthvað ógreinilegt um leið og hún gerði sig líklega til að arka framhjá verðinum. 

“Do mekra sta! Nie jamalerku hjantu,” sagði hinn vörðurinn og steig í veg fyrir T’Sial. 

“Jarka perli hitmunin, sor ti Marku bere,” var kallað neðan úr grjótnámunni. Þar voru nokkrir hádrýslar og einn þeirra vopnaður öflugu langspjóti. Hann virtist leiðtogi þeirra, Rugarvan, og af bendingum hans að dæma var hann ekki ánægður. 

Luiz, sem skyldi drýslatungu, hvæsti til T’Sial og Sonyu: “Þeir hafa séð í gegnum ykkur.”

Sonya dró hníf úr slíðri og T’Sial byrjaði samstundist að dansa stríðsdansinn sinn. Ásamt Perille og Luiz felldu þau hádrýslaverðina tvo. Aurum, Úa og Euler komu á harðaspretti. Aurum og Euler þutu í átt að bardaganum en Úa kom sér fyrir á brún námunnar og hóf að ákalla Fjallaföðurinn. 

Hún umbreytti hluta af námunni í leðju, svo að hádrýslarnir sem voru neðar í námunni, þar á meðal Rugarvan með spjótið sitt, sáu þann kostinn vænstan að reyna taka sér stöðu neðst í námunni og verjast þar. Euler lét örvum rigna yfir þá, Perille kastaði einnig göldrum sínum sem og Úa, sem særði bæði fram frumaflaveru úr eldvíddinni, ásamt því að kalla fram vígfætlu. Frumaflaveran olli miklu uppnámi meðal hádrýslanna, enda kviknaði í þeim einum af öðrum. 

Aurum og Sonya hlupu sem fætur toguðu niður í námuna. Þó að leðjan hægði á þeim tókst loks að komast að leiðtoganum. T’Sial stökk einnig niður til hádrýslanna og barðist við þá á sinn sérkennilega seiðandi hátt. Þeim tókst að særa Rugarvan og liðsforingja hans illilega ásamt því að fella aðra hádrýsla. 

Rugarvan hörfaði undan atlögum hetjanna og Aurum elti hann. Björninn gætti hins vegar ekki að sér og liðsforinginn náði góðu höggi í hann. Blóð vætlaði út stóru sári á hrygg Aurums sem reyndi að leggja til leiðtogans, en björninn var orðinn máttlítill. Rugarvan rak Aurum á hol með spjóti sínu. Björninn vældi ámátlega en hrundi svo niður. 

NEI!!” öskraði Úa, þegar hún sá að Aurum var fallinn. Hún fann tár þrýstast fram í augnkrókana. Í huganum sá hún augnablikið þegar hún fann húninn, þar sem hann lá undir móður sinni sem hafði verið margskotin með örvum. Hann hafði verið svo umkomulítill og bjargarlaus. Hún tók hann í fang sitt og hvíslaði í eyru hans. Þau dysjuðu hræið af móður Aurums en héldu síðan í helli Úu, þar sem hún eyddi kvöldinu í að finna nafn á hann. 

NEI, EKKI AURUM,” hrópaði Úa um leið og hún stökk niður í námuna. Andlit hennar var afmyndað af bræði, augun skutu gneistum og hún minnti einna helst á óða birnu að verja húninn sinn. 
Euler og Luiz létu örvum og sprengjum rigna yfir Rugarvan og liðsforingjann ásamt því að T’Sial og Sonya börðu og stungu þá.

Þegar Úa komst að Rugarvan var hann fallinn í valinn. Það hindraði hana þó ekki í að berja líkið svo mikið að það var fátt eftir sem minnti á hádrýsil. 

Loks rann æðið af Úu. Hún féll fram á hnén við Aurum og lagði höfuð sitt að höfði hans. Hún grét sáran og gróf andlit sitt í felldi bjarnarins.

-

Á meðan hetjurnar frelsuðu þá þræla sem voru í námunni útbjó Úa dys fyrir Aurum. Hún lagði húninn varlega í dysina og hlóð síðan steinum ofan á. 

“Nú er ég ein. Takk fyrir að vera vinur minn,” hvíslaði hún um leið og hún lagði síðasta steininn ofan á hauginn. “Hvíl í friði og far til heilögu fjallanna, hvar hunangið flæðir og allar ár eru fullar af laxi.” Hún leit um öxl og sá að þar stóðu hinar hetjurnar, daprar í bragði. Hún sneri sér aftur að dysinni. “Fjallafaðir, ég bið þig um að taka við Aurum og vernda hann betur en ég. Hann er stundum þrjóskur og vill alltaf fá meirihlutann af hunangskökunum, en hann er svo góður vinur.” Úa saug upp í nefið. “Vertu góður við hann þar til ég kem.”

“Við ættum að halda áfram,” sagði Euler lágt. Eitt af öðru tóku þó hetjurnar stein upp af jörðunni og lögðu í dysinna. “Komdu, Úa, við þurfum að halda áfram.”

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.