Greyhawk - Norðið

Atlagan að Axarhöfn heldur áfram.

26. dagur Þarfamánaðar

Úrvinda eftir athafnir síðustu daga þrjóskaðist Perille samt við að halda uppteknum hætti og lesa sem mest öll kvöld. Það var erfitt að halda einbeitingu í kertaljósinu, sitjandi á kaldri jörðinni inni í þessu litla tjaldi þar sem Perille hafðist við en hún þrjóskaðist við. Hún hafði haft rétt fyrir sér, leyndardóma Ur-Flan seiðskrattanna var að finna í þessum ritum sem hún var að safna að sér, þessar teikningar sem könnuðir gerðu af veggmyndum og endurskriftir úr gömlum handritum geymdu mátt sem fáir utan við Perille vissu af, hvað þá trúðu á, en hún hafði uppskerið eftir erfiðið, hún hafði lært tvö Ur-orð. Samsetning orðanna var skrítin og óskiljanleg í samhengi við nútíma málýskur en einhvernvegin hafði hún náð að púsla þessu saman og fundið kraftinn þegar hún hafði mælt orðin. Það var inni í þessu tjaldi þar sem hún hafði verið svefni næst að tuldra eithvað við sjálfa sig, hokin yfir bók, þegar hún fann kraftinn seitla frá orðinu og hún hafði risið upp frá jörðu og svifið í smá stund. Sagt er að Ur-Flan seiðskrattarnir hafi verið illir dauðatöfranotendur. Perille hugsaði að svo mætti vel hafa verið, en þeir vissu hvað þeir sungu. Máttur var ekki ætlaður goðunum einum og ekki þeirra einna að veita, dauðlegir menn gátu vel tekið sér þennan mátt án þeirra. Eftir að hafa fundið þetta orð hafði hún glaðvaknað og stuttu síðar fundið annað sem lék eftir dáleiðandi mynstri í loftinu. Fílefld eftir þessar uppgötvanir gat hún ekki annað en að halda áfram að lesa, það var of mikið í húfi til að hún gæti leyft sér að gera það ekki.

Atburðir síðustu daga hjálpuðu heldur ekki til við að halda einbeitingu, þar var svo margt í gangi og svo margt sem þau höfðu aðhafst í og við Axarhöfn. Þar fyrir utan átti innrásin að hefjast fyrir alvöru í fyrramálið.

Það var þó helst tvennt sem sat í Perille. Fyrir það fyrsta hafði hún horft á sveitarmeðlim falla og deyja  fyrir sverði H'ragathars, foringja Jebli orkanna. Hún hafði ekki haft mikil samskipti við Miru og Max, en hún virtist skipta um nafn eftir því hverju hún klædist, hann…? Hún? Perille var ekki einu sinni viss hvors kyns hún var.. hann var? Perille dæsti og hristi hausinn þegar hún hugsaði til þess, þetta var kannski gott merki um hversu lítið hún þekkti viðkomandi. Þau höfðu farið í eina sendiför saman áður en þetta gerðist, þau höfðu smyglað einhverju krabbaferlíki inn í bæinn undir þeim formerkjum að Waqounis hefði pantað það frá þjófaklíkunni í Stoink. Til allrar lukku er Sonya frá téðri klíku svo það var ekki erfitt að ljúga til um uppruna hópsins sem mætti á Rhennee bátnum með ferlíkið. Þau fjögur, hún, Sonya, Mira-Max og Euler höfði tekið að sér hlutverk varðmanna úr þjófaklíkunni undir leiðsögn Sonyu og Mira-Max meðan Luiz og Úa höfðu verið dulbúin af Mira-Max sem burðarþrælar. Sendiförin gekk furðu snurðulaust fyrir sig þar sem þau komust nánast óáreitt með kassann inn í bæinn inn á skrifstofu klerks hins gamla, sá hafði heimtað gull eins og sönnum spilltum áhrifamanni sæmir og hópurinn hafði skilið hann eftir með krabbaskrímslið laust inni á skrifstofu hjá honum. Það að hraða sér sömu leið til baka var lítið mál, erfiðast var að hlaupa ekki svo til að forðast grunsemdir, en báturinn sigldi svo út í skjóli þoku sem Úa kallaði til.

Þá var það hitt sem sat í Perille, Úa. Þessi ómenntaði, illa gefni villidvergur hafði einhvern veginn gert tengingu milli þess að lesa og að vera illur! Hvernig greyið hafði komist að þessari niðurstöðu var alveg hafið yfir allann skilning Perillar. Jú, vissulega hafði Perille kallað til uppvakning frá undirheimavídd, en að halda því fram að það væri bara á færi illra manna var ekkert nema þvættingur. Þetta var einfaldur galdur sem virkaði á sama hátt og aðrir köllunar galdrar, sem Perille hafði sjálf séð Úu beita, en þegar Perille hafði reynt að útskýra það fyrir henni var eins og hún hefði bara hætt að hlusta og tuldraði bara eithvað um "ljótt" og "ógeðslegt" og "ekki gera þetta aftur" eins og það sem hún gerði blessuðum dýrunum sem hún kallaði til eithvað væri eitthvað betra. Það var ekki eins og dýrin sem hún kallaði til kæmu af fúsum og frjálsum vilja! Ekki var það heldur eins og Perille væri að særa upp sálir frá dauðum. Nei! Hún einfaldlega hafði kallað þau úr annarri vídd, rétt eins og Úa gerði sjálf. Þó Perille væri að kalla veru úr annari vídd en Úa hafði aðgang að þá gerði það ekki verknaðinn neitt verri en það sem hún gerði sjálf. Það að Úa skildi halda því fram að dýrin væru bara þarna í kring og kæmu hlaupandi þegar hún kallaði var náttúrlega bara bull og og vitleysa, eins og hundurinn sem hún væri að kalla til væri bara einhverstaðar þarna í skugganum að bíða færis alla tíð. Perille þótti það merkilegt, og enn eitt merki þess hvað sumir voru tilbúnir að trúa í blindni, að Úa tæki ekki eftir því að þetta sem hún kallaði til birtist bara upp úr engu og hlýddi henni í einu og öllu. Þessi dýr voru í huga Perillar greinilega úr annarri vídd þó þau líktu eftir útliti og hegðun samsvarandi dýra úr þessari vídd, það gat bara ekki annað verið.

Perille andvarpaði og reyndi að snúa athyglinni aftur að blaðsíðunum sem hún var að lesa. Hún mátti ekki láta þetta ná svona til sín. En þegar hún reyndi að halda lestrinum áfram gat hún ekki annað en hugsað aftur til Miru-Max.

Sendiförin var hættuleg, það vissi hópurinn fyrirfram. Njósnir hermdu að <meta />H’ragathar, leiðtogi Jebli orkanna,  væri fær spjótkastari og að hann ætti það til að kasta hnullungum á stærð við búa. Það var búið að finna út staðsetningu hanns og hópurinn fékk að skoða frekar nákvæma teikningu af aðsetri hanns og nærumhverfi þess, það var lagt á ráðin og hópurinn var tilbúinn. Þau fengu seyði sem varði þau gegn árásum frá örvum og öðrum skeytum og skiptu hópnum í þá sem mundu ráðast að honum og hina sem myndu reyna að halda honum uppteknum með örvahríð.  Allt gekk eins og lagt hafði verið á ráð um. Luiz og Euler skutu að honum örvum og sprengjum meðan Perille, Úa og Aurum, Sonya og Mira-Max unnu sig upp virkisvegginn og lögðu til H'ragathars. Mira-Max náði fyrst til hans, Perille hugsaði ekki mikið til þess að Mira-Max stóð ein við hann, hún hafði sannað getu sína í fyrri sendiför. Nema áður en aðrir náðu að komast í færi til að styðja hana þá rak H'ragathar hana á hol, reif sverðið svo aftur úr henni og hjó hana í herðar niður. Hún var látin áður en hún skall á stéttina. Hópurinn átti í mestu erfiðleikum með að fella H'ragathar án Miru en það hafðist þó á endanum. Hópurinn hafði þá vafið hana í klæði og borið hana heim að búðum. Perille fann sig aftur í þeirri stöðu að þurfa að færa rök fyrir því af hverju hópurinn ætti að burðast til baka með lík úr sendiför en henni fannst ástæðurnar vera þess virði að þessu sinni. Mira-Max átti það að lágmarki skilið að vera greftruð sómasamlega eftir framlag hennar til stríðsins, þar að auki velti Perille því fyrir sér hvort hún þyrfti endilega að hafa stigið sín síðustu skref í þessum heimi. Það var margt í rannsóknum hennar sem gaf til kynna að svo þyrfti ekki að vera.

Luiz hafði ákveðið að fara ekki með í næstu sendiför, þess í stað hafði verið sendur með riddari frá Furyondy sem Perille gat ómögulega munað hvað hét, einhver 'heilagri-en-þú' riddari sem gat ekki klárað heila setningu án þess að nefna Pelor á nafn. Einnig hafði fylgt með vígprestur frá Steinborg, Krista Ostrage. Það kom Perille á óvart að kona frá Steinborg bæri vopn og ákallaði annað goð annan en Erythnul en þegar hún komst að því að hún hefði strokið þaðan ung þá skildi hún málið betur. Kannski væri hún brúkhæf til að berja eitthvert vit í þetta feðraveldi steinhausanna sem réðu þar ríkjum. Perille hafði heyrt fátt heimskulegra en að banna konum aðgang að einhverjum störfum bara fyrir að vera konur, það að heil þjóð skildi takmarka getu sína sem samfélag við helminginn af samfélaginu var bara eithvað sem hún gat ekki skilið hvernig nokkrum gæti fundist góð hugmynd. 

Sendiförin sem slík var engu síður hættulegri en sú fyrri því þessi fól í sér að lokka Urugor, foringja Kelbit orkanna út úr bænum og drepa hann. Sá gekk um þungbrynjaður og var nógu fær vígamaður til að hafa hemil á hundruðum Kelbita. Til að ná Urugor út úr Axarhöfn hafði hópurinn setið fyrir einni varðsveit, fellt hana, stungið út annað augað og strengt upp til að líkja eftir fórn til Grumsh, æðsta orkagoðinu sem Urugor þoldi ekki, verandi heitur tilbiðjandi Hins Gamla. Eins og spáð hafði verið fyrir kom Urugor askvaðandi til að virða fyrir sér uppstillingu hópsins, sem lá í fyrirsát. Euler bakaði sér vandræði með því að losa ör af streng full snemma, en hann stóð einn nærri honum þegar hann ákvað að rjúfa launsátrið. Hópurinn hraðaði sér að honum með en hann veitti kröftuga mótspyrnu þrátt fyrir að vera afvopnaður strax í byrjun bardagans. Hann óð í gegnum og yfir mannskapinn, berjandi fólk niður eins og þyngd stærrstu hópameðlima væri engin. Þessi tækni hans dugði þó skammt en Perille átti lokahöggið á hann með sýruskvettu líkt og hafði gerst með tvo aðra mótherja.

Með falli beggja leiðtoga orkanna mat yfirstjónin sem svo að nú væri kjöraðstaða í Axarhöfn til að hefja innrásina fyrir alvöru og gera áhlaup á bæinn og fella Waqouinis. Atlagan hefst í fyrramálið.

Perille leggur frá sér bókina og reynir að festa svefn fyrir morgundaginn, hvíld var mikilvæg ef hún átti að hafa orku til að kasta göldrum og nýta hæfileika sína, en hún átti erfit með að festa svefn vegna vangavelta um það hvort Mira-Max þyrfti endilega að hafa tekið sín síðustu skref í þessum heimi.

Comments

Fadaz81

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.