Greyhawk - Norðið

Niður í Undirheima

Þangað og aftur í Gljúfrið

8. dagur Sáðmánaðar

Hetjurnar vöknuðu við að heyra barið í trumbur. Eftir nokkrar eftirgrennslan kom í ljós að æðstu stjórnendur Gljúfurbúa voru hvergi sjáanlegir að Sjáandanum undanskildum. Gamli maðurinn beið hetjanna í hásætissal plarsins og virtist vel mettur eftir að hafa gætt sér á uglubirni kvöldið áður. 

"Hinn margi veitti mér sýn," sagði hann og benti kræklóttri hönd að hetjunum, "hann sýndi mér hvernig þið getið sannfært plarinn um að ganga til liðs við þennan her ykkar." 

Hetjurnar litu hver á aðra og færðu sig nær gamla, hálfnakta manninum. Sjáandinn glotti svo skein í tannlausan efri góminn. 

"Já, hann veitti mér sýn," endurtók Sjáandinn og rétti betur úr sér þar sem hann sat við hásætisstallinn. "Hér langt fyrir neðan, djúpt í Undirheiminum, er grafhýsi hvar finna má öfluga galdrahluti. Ég þykist viss um að ef þið færið honum sverðið sem þar er að það fái hann til að líta ykkur í öðru ljósi." Gamli maðurinn neri saman höndum. 

Eftir stuttar samræður ákváðu hetjurnar að þar sem þær höfðu lítið annað fyrir stafni að láta til leiðast og fara ofan í Undirheimana. 

Þegar Cormack og Krista höfðu útvegað allan nauðsynlegan búnað lögðu þau af stað ofan í Undirheimana. Sjáandi Gljúfurbúa nýtti galdrakrafta til að færa stóra stein frá helli einum, hvar finna mátti þröngt einstigi sem leiddi djúpt niður í jörðina. Músin leiddi hópinn og gerði hvað hann gat til að tryggja að gildrur yrðu ekki á vegi þeirra. 

Eftir nokkrar klukkustundir náðu þau niður í stóran helli. Þau höfðu ekki verið þar lengi þegar tvö hellakamelljón sátu fyrir þeim. Þau skutu bæði slímugum tungum sínum að hópnum og náðu Músinni. Cormack, Úlfhildur og Krista voru þó fljót að bregðast við og með samhentu átaki tókst þeim að losa halflinginn, fella annað hellakamelljónið og hrekja hitt á brott. 

"Stundum reynistu ágætlega, stráksi," sagði Músin og þakkaði fyrir sig. Cormack skaut augum að halflingnum og yppti öxlum. 

"Ekkert að þakka, gamli," sagði Cormacki og slíðraði vopnið sitt. 

Hópurinn hélt síðan áfram en fór þó hægar yfir og af meiri gát. Músin læddist á undan og sá þá hvar dökkur pollur lá á hellisgólfinu. Eftir stutta stund sá hann að pollurinn var heldur óvenjulegur og grunaði að þar væri einhvers konar gildra. Sú reyndist ekki raunin, því félagar hans sáu að þetta var náttúrulegt fyrirbrigði, eins konar skófir sem þöktu hellisloftið og gátu brugðist harkalega við hita.

Enn þræddi hópurinn sig dýpra ofan í jörðina. Eftir að þau voru komin framhjá á skófunum sérkennilegu þrengdist hellirinn og lá fram í annan minni helli hvar mikil neðanjarðará brast hvítfyssandi fram af miklu krafti. Hinum megin við ánna var annað hellisop og aðeins þröng steinbrú yfir. 

Hópurinn hélt uppteknum hætti og leiddi Músin förina. Í þann mund sem þau voru að komast yfir réðust hellakrabbar í loftinu á hópinn. Þeir köstuðu vefsnærum sínum í stærstu einstaklingana í hópnum, en Abum nýtti galdramátt sinn til að leysa þá. Þau flýttu sér yfir brúnna og inn um hellisopið. 

Eftir nokkra göngu komu þau inn í helli sem virtist manngerður. Þau fylgdu göngunum inn í sal, sem var að hruni kominn. Enn var það Músin sem fór fyrst og fann hann góða leið í gegnum salinn. Hópurinn slapp í gegn án þess að loftið hryndi. 

Þau héldu áfram eftir göngunum og komu að stórum dyrum. Músin rannsakaði þær hátt og lágt en kom ekki auga á gildru. Hann hafði séð nokkrar á leiðinni og tekist ýmist að komast hjá þeim eða aftengja þær. Halflingurinn opnaði dyrnar en gætti ekki að sér, því stór ljár féll úr loftinu og á kaf í öxl hans. Aðeins fyrir sakir verndarálaga sem Cormack hafði lagt á hann hélt Músin lífi, en rétt svo. Þau losuðu ljáinn úr öxl Músarinnar, nýttu galdramátt til að loka sárinu en héldu síðan áfram förinni. 

Að lokum komu þau inn í rými hvar stór steinkista stóð við annan endann. Músin dró fram þjófalyklasettið sitt, áður sem oftar, og hófst handa við að rannsaka kistuna. Í ljós kom að þar var galdragildra sem, hefði Músinni ekki tekist að aftengja hana, getið valdið hetjunum miklum vanda. Þegar þau opnuðu kistuna reis upp vofa, heldur illfrýnileg og pirruð á svip. 

Hún réðst þegar að Kristu og Cormack, á meðan hinar hetjurnar héldu sig lengra frá. Snerting hennar dró mátt úr Cormack og hann fann hvernig lífsstyrkur sinn þvarr. Þau Krista reyndu þó að verjast og börðust hetjulega gegn vofunni, með liðssinni frá félögum sínum. 

Að lokum yfirbuguðu þau þó vofunni og sáu þá að í kistunni kenndi ýmissa grasa. Þar voru þó nokkrir verðmætir hlutir; skjöldur, sverð og ýmislegt fleira. Þeim tókst þó ekki að bera kennsl á þá alla og sáu fram á að þurfa hjálp við það þegar þau sneru aftur til Gljúfurbúa.

Eftir að hafa hvílt sig stutta stund, héldu þau aftur sömu leið heim.  

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.