Greyhawk - Norðið

Orustan um Stoink

Fellur lóðrétta borgin?

1. dagur Sprettutíðar

Viðbragðsteymi Frelsishersins hafði ekki lengi fagnað bandalaginu við Stoink þegar hóp Reyhu fólks bar að garði með geigvænleg tíðindi.

Risavaxinn her orka á vegum hins gamla hafði safnast saman örstutt frá borginni og myndi vera kominn til borgarinnar eftir tvo daga. 

Ljóst var að bandalag Stoink við Frelsisherinn hafði ekki tekið langan tíma að spyrjast út, og bersýnilega átti að berja alla slíka tilburði niður með látum, fast og örugglega, til að sýna öðrum í svipuðum hugleiðingum flónsku þess að ætla að rísa gegn Iuzi.

Tveir dagar buðu ekki upp á mikinn undirbúning. Leiðtogar Frelsishersins sem komið höfðu til viðræðna fólu viðbragðssveitinni að aðstoða Stoink við varnir sínar, en þurftu sjálfir frá að hverfa.

Rhenfus og Marla voru ákveðin í að borgin skyldi varin, en virtust jafnvel hálft í hvoru búast við að það væri illmögulegt og Marla minnti á það að það væri betra að lifa af til að koma aftur síðar, en að berjast til síðasta blóðdropa ef óvígur her árásarmanna næði inngöngu á fleiri en einum stað í einu.

Varnir borgarinnar teljast þó allt að því goðsagnakenndar. Einungis ein leið var fær til að gera raunverulegt hernaðaráhlaup og er leitun að leið sem er betur vörðuð. 

Ytri veggurinn er 40 feta hár, þakinn sverðum, blöðum og skörpu stáli sem valda fjörtjóni hverjum sem kýs að klífa hann. Hliðið er rammgert og styrkt göldrum og eina aðgangsleiðin vörðuð tveimur ofvöxnum valslöngvum og tveimur illvígum mannhæðar fleygvörpum.

Fréttir Reyhu fólksins hermdu þó að orkarnir væru vel undirbúnir, með risa-múrbrjót og tilbúnir með eigin valslöngvur og rammgerða stríðsturna, sérhannaða til að koma orkasveitum hratt og örugglega yfir múrana ef þeir komast upp að þeim.

Hópurinn fær það verkefni að skipuleggja varnirnar, og undirbúa í því skyni þá galdra og þau tól sem þeim voru tiltæk.

Einn maður í bænum, yfirmaður vígvélasveitanna, reyndi að fræða þau eins og hægt var um vandamálin og hvernig hægt væri að einbeita vörnum borgarinnar sem best, en ljóst var þó að ekki var nægilega mikill tími til stefnu til að þau gætu orðið raunverulegir sérfræðingar.

Fyrsta dag Sprettutíðar rann orustan upp. Dagur sem hefði átt að markast af hátíðahöldum og fögnuði var þess í stað myrkur og tregafullur.

Viðbragðsteymið tók stjórn á annarri valslöngvunni og sameinuðust þau öll um að einbeita skotþunganum á annan turninn, þar til hann myndi laskast nóg til að þurfa að hægja ferðina, en einbeita sér þá að hinum. Áætlunin gekk út á að hægja nóg á þeim til að útséð væri að ekki tækist að yfirbuga borgina og taka þá fyrir vígvélar andstæðingsins og þegar það væri komið í höfn væri hægt að kalla til riddaralið vinveitt Stoink og Frelsinshernum,  annars vegar Reyhy fólkið og hins vegar hóp undir stjórn Artor Gellor, réttborins prins  Artonsamay. Sem gæti þá hrakið herinn til baka, en sem væru ekki tilbúnir til að leggja sig í hættu nema vita að borgin myndi standa.

Við tók spennuþrunginn morgunn, þar sem hópurinn reyndi sitt besta til að manna valslöngvuna risavöxnu, en skiptust á að hlaupa til annarra verka sem á þurfti að halda. Perille fór fyrir teyminu í því verkefni, en þó hún kynni ekki sérstaklega á vígvélar var hún vel menntuð og hafði bakgrunn í stærðfræði og verkfræði sem gerði henni þó amk. kleyft að skilja undirliggjandi breyturnar í þess háttar hernaði.

T'Sial reyndi að hvetja hana til dáða með sérstökum vígdansi, en annars var teymið allt í því að hlaða og miða vélinni undir hennar leiðsögn þangað til múrbrjóturinn nálgaðist skyndilega hliðið ískyggilega.

Þá hlupu frá fyrst Úa sem fékk fyrst fjallaföðurinn til að binda brjótinn niður, en þegar þeir losnuðu bað hún fjallaföðurinn um að ausa úr skálum reiði sinnar yfir teymið sem bar brjótinn, en þær skálar voru í það skiptið fullar af köngulóm. Í kjölfar hennar fór svo Luis, en hann sá þann kost vænstan aðhenda sprengjum yfir orkana sem reyndu að berja niður vegginn.

Þegar brjóturinn var kominn alveg upp við vegginn fóru líka Euler með bogann sinn og T'Sial, sem sturtaði niður á þá boldangs hnullungi, sem geymdur hafði verið í Blaðurskjóðunni (sem var ekki stórhrifin af að vera full af ódýru og annars ómerkilegu bergi)

Í tvö skipti virtist sem hliðið ætlaði að falla, en í bæði skiptin vantaði orka-teymið herslumuninn þó svo hliðið virtist gefa undan var eitthvað sem hélt, hvort það voru galdrar eða sameiginlegur vilji borgarbúa er erfitt að segja.

Þó stríðsturnarnir væru harðir í horn að taka, þá létu þeir sig að lokum fyrir einbeittri orrahríð valslangvanna, en sá síðari komst langleiðina að veggnum eftir að vígvélar Stoink fóru að sýna aldurinn og fjöður eftir fjöður brotnaði í fleygvörpunum og keðjurnar í valslöngvunum slitnuðu. Valslöngvur orkanna ollu töluverðum skaða, en til allrar lukku hafði hópurinn fjárfest í galdra-bókfellum sem gátu gert við þær á handahlaupum.

Eftir að seinni turninn skaddaðist og skransaði til, og ljóst mátti þykja að hann kæmist ekki nema mjög hægt áleiðis, virtist ljóst að borginni væri borgið.

Teymið við múrbrjótinn var sigrað og turnarnir orðnir auðveld skotmörk sem bersýnilega myndu ekki komast leiðar sinnar.

Þá var blásið í hornið og Artor Gellor og riddaralið hans þustu inn á völlinn öðru meginn og Reyhu menn úr hinni áttinni. Orkarherinn tvístraðist og þeir sem gátu flúið flúðu, en hinum var slátrað. Dagurinn var unninn og borg þjófanna stóð enn.

Þetta var niðurstaða sem hópurinn og leiðtogar borgarinnar höfðu vart þorað að vonast eftir, mannfall í algjöru lágmarki og varnir borgarinnar svotil óskaddaðar, en óvinurinn á flótta.

Rhenfus var í sjöunda himni og þó hann hafi áður tekið viðbragðshópinn í sátt var hann nú yfir sig hrifinn.

Eftir fögnuðinn bauð hann þeim að hitta sig og bar á borð fyrir þau dýrustu gersemar sínar. Hann sagði að nú myndu þau hljóta raunveruleg verðlaun.

Í boði var fagursmíðaður bogi, samskeyttur úr þremur viðartegundum og þrunginn öflugum göldrum. Gömul og ryðguð, en samt heilleg og sterkleg brynja, sterklegur skjöldur með skjaldarmerki Stoink, fíngerður og fagur hringur, sem komist hafði með krókaleiðum til Stoink eftir að álfurinn sem átti hann lést, illvígur hnífur sem gaf frá sér ónotatilfinningu, hringur með hauskúpu sem tekinn hafði verið að útsendara Iuzar, belti með innlagðri fjöður af Harrusi, arnar Trithereons.

Hópnum var boðið að velja þrjá af þessum hlutum. 

Eftir miklar umræður varð fyrir valinu að taka Bogann, hringinn af útsendara Iuzar og belti Harrusar.

Bogann fékk Euler, enda hin besta skytta, en boginn er viti borinn galdrahlutur, einbeittur að frelsun Tehn og tilbúinn til samstarfs við alla sem vilja vinna að því marki. Sú niðurstaða var Euler ekki mikið fagnaðarefni, en virtist þó tilbúinn til að taka það verkefni að sér sem málamiðlun.

Belti Harrusar eykur snerpu og viðbragð notandans, og getur í stuttan tíma á dag veitt algjört frelsi frá öllu sem hefta vill notandann. Luis fékk það belti til eignar.

Hringurinn er einnig gæddur greind og þar að auki mikilli tortryggni. Hann verndar hug notandans en hvíslar líka varúðarorðum og sérhagsmunagæslu í huga hans. Hann féll í skaut Sonju.

Úa og T'Sial sátu hjá, enda höfðu hvor um sig fengið verðlaun í formi annars vegar Blaðurskjóðunnar og hins vegar forláta poka af appelsínum.

Comments

Xandra

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.